28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

99. mál, vörutollur

Klemens Jónsson:

Jeg get verið stuttorður, því að jeg hefi engu að bæta við það, sem jeg sagði við 1. umr. þessa máls.

Það kom til tals í fjhn. að afljetta tollinum af korni, en þar sem ekki fjekst meiri hl. fyrir því, var því ekki haldið þá fram. En eftir undirtektum hjer í deildinni að dæma, þótti okkur tveim nefndarmönnum rjett að bera fram brtt. í þessa átt og gefa þannig deildinni kost á að greiða atkv. um málið.

Fjhn. lagði til, að breytingar yrðu gerðar á þeim liðum, er snerta nauðsynjar annarar aðalframleiðslu landsins, sjávarútvegsins. Má nefna þar t. d. salt og tunnur. En með lækkun kola- og steinolíutolls má einnig segja, að ljett sje byrði af fleirum en sjávarútveginum. Þær breytingar eru frekar í þágu almennings. Einkum er lækkun steinolíutollsins mikill ljettir fyrir mótorbátaútgerðina, sem og fyrir almenning í heild sinni. Er enginn vafi á því, að það er í alla staði rjett af nefndinni að bera fram þessar lækkunartill.

En jeg er hræddur um, að það muni mæta mótspyrnu og óánægju í sveitakjördæmum, þegar lítur svo út, sem eingöngu eða að mestu leyti sje verið að ljetta undir með sjávarútveginum.

Hjer er um það rætt að ljetta af afarstórri upphæð, um 430 þús. kr., og er eigi of mælt, að af þeim sjeu um 330 þús. kr., sem eingöngu snerta þann atvinnuveg. Jeg hygg, að það mundi mælast betur fyrir ef ljett væri um leið tolli af nauðsynjum, er snerta almenning. Má þar t. d. nefna kornvöru, enda er það fæða, sem allir neyta. Jeg hefi víst tekið fulldjúpt í árinni, þegar jeg hjelt því fram við 1. umr., að lækkun korntollsins væri aðallega í þágu bændanna. En lækkunin kemur þó að gagni bæði þurrabúðarmönnum og öðrum, er í kaupstöðum og sjávarþorpum búa. Og þar sem hún nú kemur helst þeim til góða, er þurfa hennar mest og verst eru settir í mannfjelaginu, virðist alveg sjálfsagt, að brtt. okkar verði samþykt. Enda treysti jeg því, að deildin og nefndin líti á þetta með sanngirni og láti lækkun korntollsins einnig fylgjast hjer með. Það er upplýst, að upphæð sú, er hjer um ræðir, nemur 50 þús. kr., og er það ekki stór upphæð í sjálfu sjer.; það munu vera 50 aurar á hvern mann í landinu. Samt sem áður eru til þær fjölskyldur, sem munar um minna. En það er vitanlega á þingsins valdi, hvað það gerir í þessu máli.

Háttv. frsm. (BL) sagði, að jafnframt þessari breytingu yrði að koma önnur breyting, þannig, að aftan við l. gr. vörutollslaganna frá 1921 yrði að koma þessi undanþága. Er þetta alveg rjett, og munum við því koma með skriflega brtt. í þá átt. En ef brtt. á þskj. 434 yrði samþykt án þessarar brtt., mundi kornvaran komast undir 7. gr. eða í hæsta tollflokk, en það hefir auðvitað aldrei dottið neinum í hug að hækka tollinn á korni. En með viðbótartill. við l. gr. má laga þetta. Leyfi jeg mjer því að bera fram skriflega brtt. og vona, að deildin samþykki þetta, að hún fái að komast til atkvæða.