28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

99. mál, vörutollur

Halldór Stefánsson:

Við 1. umr. þessa máls drap jeg á ástæðurnar fyrir brtt. þeim, er jeg er riðinn við. Ástæðurnar voru þar, að mjer þótti frv. of einhliða, ekki nógu alment. Það bindur sig of einhliða við stórútgerðina, og er það því hún, sem mestar ívilnanir fær. Smábátaútgerðin fær miklu minni ívilnanir, en neytendur minstar. Jeg hefði viljað gera meiri jöfnuð á lækkuninni en í frv. er eins og það nú liggur fyrir.

Jeg hefi tekið það fram áður, að jeg er algerlega mótfallinn afnámi tunnutollsins. Síldarútvegurinn er annarsvegar talinn mesti uppgripaatvinnuvegur, sannkölluð gullkista, en hinsvegar annmarkamesti atvinnuvegur landsins. Hann veldur mikilli truflun á atvinnulífi þjóðarinnar, keppir um fólkið og kaupið við aðrar eðlilegri atvinnugreinir og hnekkir þeim. Hann veitir atvinnu aðeins stuttan tíma og á þeim tíma, sem aðrar atvinnugreinir hafa mesta þörf fólksins, og verður því fólki, sem við hann vinnur, þess vegna óhægt um að fá vinnu á öðrum tímum, og verður því hið háa kaup mörgum rýrt til ársframfæris. Þá er það og álitamál, hvort bætt skipulag um framleiðslu og sölu í þessum atvinnuvegi sje ekki mun þýðingarmeira honum til styrktar en tollívilnunin. Finst mjer skyldara að taka til athugnar í fullri alvöru, hversu mikið mætti styrkja hann á þann hátt.

Hvað viðvíkur kolatollinum, þá þykir mjer lækkunin of mikil, þar sem nefndin leggur til, að hann lækki um 2/3 hluta. Jeg leyfi mjer því að leggja til, að hann verði lækkaður aðeins um helming. Háttv. frsm. fjhn. (BpL) mintist lítillega á þessa till. mína áðan og talaði mjög sanngjarnlega um hana. Hjer er aðeins um stigmun að ræða. En jeg get alveg lagt það á vald deildarinnar, án þess að ræða það nánar, hvort stigið hún vill heldur. Jeg skal þó benda á, að útlend skip borga nokkuð af kolatollinum, og er því minni ástæða að lækka hann svona mikið.

Meðflutningsmaður minn, hv. 2. þm. Rang. (KlJ), hefir minst á afnám korntollsins, og get jeg látið mjer nægja að vísa til þess, sem hann sagði, og er samþykkur því að mestu. Það, sem fyrir mjer vakir, er að fella burt þá tolla, er annmarkamestir eru hjer á landi, og þar á meðal tel jeg korntollinn, því að hann er verri en nefskattur. Hann kemur niður á brauðinu, sem börnin eru alin á. Annars er hann í sjálfu sjer svo lítill, að ekki munar miklu, þó að hann sje afnuminn, og borgar sig varla að halda honum, svo fyrirhafnarsamur sem hann er í innheimtu og annmarkamikill. Enda skilst mjer, að þessari till. okkar sje yfirleitt vel tekið.

Um steinolíutollinn get jeg sagt það, að jeg hefði getað fallist á að afnema hann alveg. En nefndin færir hann milli flokka, og lækkar hann við það um helming. Ef hann aftur á móti hefði verið afnuminn, þá hefði mótorbátaútvegurinn fengið tilsvarandi ívilnun í tolllækkuninni á móts við stórútgerðina.

Samkvæmt till. mínum, eins og jeg hefi lýst þeim, ef þær verða samþ. verður lækkun tollanna þannig: kolatollurinn 185 þús. kr., steinolíutollurinn 50 þús. kr., korntollurinn 45–50 þús. kr. og salttollurinn 45 þús. kr. Samtals verður þetta um 330 þús. kr., eða 100 þús. kr. lægra en eftir till. nefndarinnar.

Jeg geri mjer svo vonir um, að þingið fallist á ástæður mínar og geri ívilnunina almennari en nú er í frv.