28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

99. mál, vörutollur

Tryggvi Þórhallsson:

Það verða aðeins örfá orð, sem jeg þarf að skjóta til frsm. (BL) út af orðum, sem hann beindi til mín áðan vegna tilefnis, er jeg hafði gefið við l. umr. þessa máls.

Háttv. frsm. (BL) ) komst inn á samanburð á aðalatvinnuvegunum, landbúnaði og sjávarútvegi, samanburð á því, hvor hefði verið styrktur meira af ríkinu. Jeg skal játa það, að það er alveg rjett hjá hv. frsm. (BL) að landbúnaðurinn hefir verið styrktur vel og myndarlega, þótt jeg álíti, að enn vanti á svo að vel sje. Skal jeg því ekki vera vanþakklátur fyrir hönd þessa atvinnuvegar, þó að jeg álíti, að enn sje mikið ógert af svipuðum hlutum. Háttv. frsm. komst inn á einstök atriði. Hann nefndi t. d. norska samninginn og sagði, að þar hefði verið fórnað miklu af hálfu sjávarútvegsins. Mjer þótti þetta kynleg orð, því að í blöðum andstæðinga Framsóknarflokksins var því haldið fram, að við hefðum viljað fórna miklu í þessu máli, en svo hafi Íhaldsflokkurinn hrundið því, og landsstjórnin hefir jafnvel tekið sjer það til inntekta, að hún hafi engu fórnað. En jeg álít nú, samt sem áður, að það sje rjett hjá hv. frsm., að hjer hafi nokkru verið fórnað. En eins og aðstaðan var og ef litið er á þá þýðingu, sem þetta hafði fyrir landbúnaðinn, þá var alls ekki í þetta horfandi.

Hv. frsm. mintist á annað atriði, útflutningsgjaldið, sem hann sagði að væri í þágu landbúnaðarins. En ef litið er á fjárlögin núna, er ljóst, að meiri hluti þess fer til sjávarútvegsins, til strandvarna. Það er að vísu rjett, að á árinu, sem leið, og á þessu ári fer útflutningsgjaldið til landbúnaðarins, en á næstu árum er gert ráð fyrir, að það renni til sjávarútvegsins. Svo kom hv. þm. með tilboð um, að ef jeg vildi vinna að því að afnema norska samninginn, skyldu síldarútvegsmenn falla frá kröfunni um lækkun á tollum, já, jafnvel samþykkja að tollarnir yrðu þyngdir. Mjer kom það mjög á óvart, að óskað skyldi eftir því, að norski samningurinn fjelli út gildi, svo mikið, sem þar er í húfi. Jeg er alls ekki fús til þessa verks. Jeg álít meira að segja, meðan svo er, að landbúnaðurinn verður að binda sig við eitt land með sölu á kjöti, þá megi ekki einu sinni stinga upp á þessu. Það væri voði fyrir þjóðina.

Annars ætla jeg ekki að fara út í neinn samanburð hjer. Jeg verð að vera sammála hv. frsm. í því, að það er ekki skemtilegt verk að vera með þennan metnað og togstreitu. Jeg játa, að mikið hefir verið gert fyrir landbúnaðinn. En jeg minnist ekki, ef till. hefir komið fram um að bæta markað sjávarútvegsins eða slíkt, að jeg hafi verið á móti henni. Eins er þótt um annað hafi verið að ræða, t. d. lendingabætur, hafnarbætur, bryggjugerðir o. fl. Jeg veit ekki til þess, að jeg hafi lagt steina í götu slíkra framkvæmda. — En auðvitað er það, að minn áhugi er miklu meiri á hinu sviðinu og gætir því áhrifa minna meira þar. En svo vil jeg leyfa mjer að minna á annað í þessu sambandi. Á þessu þingi ætti að útkljá mál, sem nokkuð hefir þegar verið rætt hjer í þinginu og oft verið vikið að í umr. um önnur mál, — mál, sem jeg er sannfærður um, að er hið mesta hagsmunamál fyrir sjávarútveginn, sem fram hefir komið á þessari öld, og á jeg þar við gengismálið. Hver hefir barist harðast gegn því, að lagðar væru álögur á sjávarútveginn með breytilegu og hækkandi gengi? Jeg skal svara því þegar, að jeg á þar við sjálfan mig. En jeg játa um leið, að jeg hefi þó ekki hvað síst litið á hag landbúnaðarins í þessu efni, en hitt skilst mjer þó, að þetta er ennþá þýðingarmeira mál fyrir sjávarútveginn, og ef hv. þm. (BL) vildi tala við mig í fullri einlægni um þetta mál, veit jeg, að hann lætur sjer ekki detta í hug að mótmæla þessu. Það er síður en svo, að jeg blygðist mín fyrir að berjast í þessu máli fyrir hag allra framleiðenda í landinu í senn, og þá ekki hvað síst sjávarútvegsmanna. — Jeg þykist því standa sjerlega vel að vígi um að verja framkomu mína gagnvart atvinnuvegunum.