28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

99. mál, vörutollur

Halldór Stefánsson:

Þó að ekki sje mikil þörf á fyrir mig að taka til máls, þá kann jeg ekki við annað en að kvitta fyrir ummæli hæstv. fjrh. (JÞ) út af ummælum mínum við l. umr. Hæstv. fjrh. reyndi að fara háðulegum orðum um afstöðu mína í gengismálinu. Jeg þarf ekki að endurtaka ummæli hans, þau eru í svo fersku minni, en það verð jeg að segja, að mjer þykir hæstv. fjrh. venjulega fara hefur úr hendi rökfræðin en háð og glettur, og hefði jeg búist við, að hann mundi leggja meira fram af rökum en raun varð á. Ef svo hefir verið, að jeg hafi átt einhvern lítinn þátt í því að stöðva íslensku krónuna í fallinu, þá vil jeg telja mjer það til inntekta, en jeg býst við, að hæstv. fjrh. hafi þar gert of mikið úr minni hlutdeild. Hæstv. fjrh. sagði, að þegar verið sje að kippa þessu í lag, sjái jeg ekki aðra heimsku meiri. Jeg hefi ekki haft fyrir því að rifja nákvæmlega upp ummæli mín í gengismálinu fyr, en jeg hygg, að jeg hafi ekki sagt meira en það, að jeg vildi stöðva krónuna, og hækka hana, ef það reyndist hægt. En nú er dálítill munur á því að kippa í lag eða hvernig það er gert. Hvort það er gert gætilega, eftir því sem ástæður leyfa, eða með stökkbreytingum, sem bygðar eru á augnabliksgeðþótta eins eða annara. Ef það er svo, að hæstv. fjármálaráðherra vilji hæla sjer af því, hvernig gengishækkunin var framkvæmd á síðasta ári, er honum það síst of gott, og það því síður, sem vitanlegt er, að það var þvert ofan í vilja síðasta þings, þar sem þingið lagði áherslu á hægfara hækkun krónunnar, beint í mótsetningu við hraðfara hækkun.

Svo að lokum lýsti hæstv. fjrh. sjálfur mjög greinilega, hvernig þessi skollaleikur er leikinn, sem sje á þann einfalda hátt, að ljetta á einum aðilja þjóðfjelagsins og þyngja um leið á öðrum, af því að með gengispólitík síðasta árs var of mikil byrði lögð á atvinnuvegina, undirstöðu þjóðlífsins. Það halla jeg að höggva þar, sem hlífa skyldi.

Viðvíkjandi ummælum hæstv. fjrh. um einstakar tillögur hefi jeg ekki ástæðu til að kvarta, þó að við sjeum ekki þar á sama máli. Hæstv. fjrh. talaði mjög hóglega um þau atriði málsins.