28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

99. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Afstaða mín markast af því, að jeg fylgi fjhn.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) vil jeg veita viðurkenningu fyrir það, að hann sagðist hafa viljað hækka krónuna, en þótti hún þó hafa tekið of stórt stökk síðastl. haust. En úr því að þessi hv. þm. vill hækka krónuna, þá má ekki nota þau ummæli, að það sje svikamylla að gera þær ráðstafanir í skattalöggjöfinni, er nauðsynlegar eru vegna gengisbreytinga — hvort sem þær eru snöggar eða ekki.

Jeg ætla ekki að fara neitt út í útreikninga hv. 2. þm. Árn. (JörB), en það er of mikil svartsýni að ætla það, að við sjeum ekki samkepnisfærir við aðrar þjóðir. Jeg held einmitt, að við stöndum mjög vel að vígi vegna þeirra miklu náttúrugæða, sem hjer eru í samanburði við fólksfjölda. Jeg veit ekki, hvort honum er kunnugt, að nú er hægt að fá nóg verkafólk hjer í bænum fyrir 1 kr. um kl. tímann. Þetta sýnir, að veruleg lækkun er orðin. Það er aðeins húsaleigan hjer í bænum, sem alt ætlar að sliga. En mjer kæmi ekki á óvart, hvað sem húsaleigulögum líður, að eftir svo sem tvö ár verði húseigendur að leita að leigjendum, en ekki öfugt.