30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

99. mál, vörutollur

Ásgeir Ásgeirsson:

Við tveir fjárhagsnefndarmenn höfum borið fram brtt., sem standa í sambandi við fyrirvara okkar í nál. Það er um að fella niður úr frv. undanþáguna frá tolli á síldartunnum og kjöttunnum, og eina að lækka kolatollinn ekki eins mikið og í frv. er til ætlast.

Það er um fyrsta till. að segja, að við álítum, að það beri að hjálpa síldveiðinni á annan hátt, svo að meira muni um, sem sje með því skipulagi, sem komin er fram till. um í hv. deild. Þessi tollur á síldartunnum er mjög lítill hluti af gróðavoninni eða áhættunni; og það mun vera viðurkent, að áhættuatvinnuvegunum beri að hafa öllu þyngri tolla og skatta en hinir atvinnuvegirnir, sem eru fastari og jafnari og því hollari þjóðarbúskapnum í heild. Sem sagt, við teljum, að burtfelling tunnutollsins muni ekki hafa það mikla þýðingu fyrir síldarútgerðina, að hægt eða vert sje að fara þessa leið útgerðinni til viðreisnar. Hinsvegar erum við fúsir til að ljá lið okkar til þess að gera alt, sem stendur í valdi löggjafarvaldsins, til þess að koma á nýju skipulagi, sem trygði þennan atvinnuveg betur en hingað til.

Um kolatollinn viðurkennum við, að gott væri að geta lækkað hann um helming, eins og farið er fram á í frv. En okkur finst hinsvegar, að fjárhæðin sje þar fullhá, þegar tillit er tekið til þess, hvernig fjárlögin fyrir 1927 líta nú út, og það er ekkert útlit fyrir, að útgjaldahlið þeirra lækki að neinum verulegum mun. Andstaða okkar gegn því að færa svo mjög niður kolatollinn er því sprottin af löngun til þess að fjárlögin 1927 líti sem best út eftir því sem komið er.

Á þessar tvær till. leggjum við mesta áherslu, því að þar er um tvær aðalfjárhæðirnar að ræða í þessu frv. Og verði þessar till. okkar feldar báðar, þá mun tvísýnt um fylgi okkar við frv., þar sem hinir liðirnir eru tiltölulega smærri og ómerkilegri.