30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

99. mál, vörutollur

Ólafur Thors:

Það undrar mig mjög, að frv. þetta skuli sæta slíkri mótspyrnu hjer, sem raun er á orðin. Því verður ekki með sanngirni neitað, að það er af mörgum ástæðum sjálfsagt að samþykkja frv. Það er sanngjarnt og rjettlátt að ljetta skattabyrðinni af sjávarútveginum, í fyrsta lagi af því, að sá atvinnuvegur hefir til þessa borið þyngstu byrðarnar, í öðru lagi af því, að í bili á hann við meiri örðugleika að stríða en aðrir atvinnuvegir landsins, og í þriðja lagi af því, að einmitt á þessum vörutegundum, sem hjer er um að ræða, er sjerstök ástæða til að lækka tollinn, vegna þess að á þeim er aðflutningstollur óþarflega hár. Hæstv. fjrh. gat um það við fyrri umr. þessa máls, að kolatollurinn næði verulegri hundraðstölu af andvirði vörunnar í erlendum höfnum. Jeg hygg að sá tollur nemi því nær 15% af andvirði vörunnar. Svipað er þetta um salttollinn, enda er skatt-„skalinn“ miðaður við dýrtíðina á stríðsárunum. Þá gat þetta verið bærilegt, af því að ekki skifti máli, hvort kolin voru 2–3 kr. dýrari eða ódýrari hvert tonn, þegar verðið á tonninu nam hundruðum króna. Um síldartunnutollinn er það að segja, að hann nemur 8%, en auk þess er sú vara, sem í tunnunum er, tolluð svo gífurlega, að einsdæmi er. Tollur á útfluttri síld nemur stundum 10–15%, og er þetta því ósanngjarnara, sem útflutningstollur af öðrum vörum er einungis 1½% af andvirði vörunnar. Það sýnast því öll rök mæla með því, að frv. verði samþykt. Jeg vil leiða athygli manna að því, að enda þótt tilslökun á kolatollinum falli mest í skaut sjávarútveginum, njóta aðrir góðs af, eins og t. d. allir kaupstaðarbúar, sem nota kol. Og í raun og veru er hjer um hagsmuni allra landsmanna að ræða, að því leyti sem flutningsgjöld skipa hljóta að lækka um leið og kolin falla í verði. Sú upphæð, sem talað er um í nál. fjhn., dreifist á alla landsmenn, en það skal játað, að aðalupphæðin, 400–500 þús. kr., eða verulegur hluti hennar, fellur í skaut sjávarútveginum.

Út af orðum hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vil jeg geta þess, að mjer þætti fróðlegt að vita, hvort það ljeti ekki nærri, að rjett sje hlutfallið milli tilslökunar þeirrar, sem landbændur fá, og þeirrar sem sjávarbændur fá, miðað við það, sem hver og einn greiðir í ríkissjóð. Þetta hefi jeg ekki rannsakað til hlítar, en jeg hygg, að þar skakki ekki miklu.

Jeg þykist nú hafa sýnt fram á, að það er órjettlátt, þegar sumir hv. þm., eins og t. d. hv. 1. þm. N.-M. (HStef), eru að halda því fram, að hjer sje verið að ljetta af sjávarútveginum rjettmætum sköttum. Þessum hv. þm. þótti of lítið tillit vera tekið til neytenda, en það er nú svo í svipinn, að það eru framleiðendurnir, sem við mesta erfiðleika eiga að stríða. Neytendurnir hafa notið góðs af hækkun hinnar íslensku krónu.

Þá vil jeg nota þetta tækifæri til þess, að kíkja að hv. 2. þm. Árn. (JörB) nokkrum orðum. Jeg sje, að sá hv. þm. er ekki í deildinni, og vil jeg því biðja hv. l. þm. Árn. (MT) að bera honum kveðju mína. — Jeg sje, að hv. þm. (JörB) kemur nú, og vil jeg þá fyrst geta þess, að jeg get ekki látið ómótmælt ýmsum ummælum hans við 1. umr. þessa máls.

Hv. þm. (JörB) hóf mál sitt með því að margítreka, hversu óljúft sjer væri að tala. Hann minti mig á mann, sem einu sinni kom heim til mín. Jeg bauð honum glas af víni. Hann vildi í fyrstu ómögulega þiggja það, en þó fór svo að lokum, að hann drakk upp úr flöskunni og varð þjettkendur. Hv. 2. þm. Árn. tók til máls og talaði með sívaxandi ánægju yfir sjálfum sjer um alla heima og geima. Hann beindi orðum sínum til útgerðarmanna og varð einkum tíðrætt um hina „óhóflegu og óhyggilegu aukningu togaraflotans.“ Hann sagði ennfremur, að vegna þessa væri sjer óljúft að greiða atkvæði með frv. Hann vill með öðrum orðum hegna útgerðarmönnum fyrir þeirra óhygni, því að sje litið á ríkissjóðinn, er síst ástæða fyrir hv. þm. að fjargviðrast yfir aukningu togaraflotans, þar sem ríkissjóður hefir með henni bætta aðstöðu og auknar tekjur.

Annars vil jeg segja það um aukninguna, að á vertíðinni 1922 voru 30 íslensk skip. Nú eru þau 39, en aðeins 4 nýir togarar eru í eigu þeirra manna, sem þá áttu togara. Hv. þm. vill máske segja okkur, hversu mikið hann hefir aukið bústofn sinn síðan 19'22, og síðan gætum við borið það saman við aukningu togaraflotans. Einnig beindi hv. þm. því til okkar útgerðarmannanna hjer, að sjá um, að slíkt kæmi ekki fyrir aftur. En það er ekki á okkar valdi að afstýra því, að menn leggi fje sitt í útgerðarfyrirtæki. Jeg vil ráðleggja hv. 2. þm. Árn. að taka málið í sínar hendur, en það er grunur minn, að ef annað eins ár og 1924 kæmi aftur, mundi hann ekki fá mikið að gert í því að aftra mönnum frá að leggja fje sitt í fyrirtæki, er að sjávarútvegi lýtur.