30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

99. mál, vörutollur

Ólafur Thors:

Jeg hefi nú hálfgert samviskubit af því að hafa valdið því, að hv. 2. þm. Árn. (JörB) hefir haldið svo langa ræðu — samviskubit vegna háttv. deildar, sakir þess að deila hv. þm. og mín liggur nokkuð fyrir utan sjálfan kjarna málsins, og skal jeg sýna, að hugur fylgir máli með því að vera stuttorður.

Hv. þm. sagði nú, að hann hefði ekki álasað útgerðarmönnum og bar fyrir sig gömul þingtíðindi í því efni. En það er alveg óþarft fyrir mig að fletta upp í þeim, því að jeg heyrði með eigin eyrum fyrri ræðu hans hjer, og hún var svo sem jeg hefi lýst henni.

Kjarni málsins er sá, hvort aukning togaraflotans hafi verið óhófleg eða ekki. Jeg hefi áður skýrt frá því, að þeir, sem togara áttu 1922 hafa aðeins bætt við sig 4 skipum á þessum síðastl. 4 árum, og get jeg ekki talið það mikla aukningu, eins og áður er sagt. Hinu hefir mjer ekki dottið í hug að neita, að útveginum fylgir mikil áhætta, en ef ekki koma fyrir sjerstök óhöpp, þá er það þó alltraustur atvinnuvegur, enda verður hann það vonandi í framtíðinni, því að Íslendinga væru illa settir og mundu komast á kaldan klaka, ef þeir ættu að styðjast við landbúnaðinn eingöngu.

Það þýðir ekki að vera að draga upp skuggamyndir af framleiðsluvöru, sem ekki er seljanleg, því að ef maður ætti að fara út í þá sálma, mundi mega segja nokkuð svipað um framleiðsluvörur bænda og útvegsmanna.

Það er líka misskilningur hjá hv. þm., að jeg hafi verið að kasta steini að bændum. Það hefi jeg aldrei gert. Og þrátt fyrir það, þótt hv. þm. með síðustu ræðu sinni sýni, að hann ber mikla virðingu fyrir útgerðarmönnum, efast jeg um, að sú virðing sje meiri en virðing mín fyrir bændum.

Mjer skildist á hv. þm., sem hann drægi það út úr orðum mínum, að jeg hefði háar hugmyndir um sjálfan mig. Jeg skal ekkert um það segja, en hitt er víst, að ekki er rjett af honum að álasa mjer fyrir það, því hann hefir sjálfur í dag þráfaldlega talið mig sjer fremri, og væri mjer vorkunn, þótt jeg miklaðist af slíkum dómi jafnmæts manns. Og eftir það oflof, sem hann hefir borið á mig í mörgum greinum, þá get jeg vel unt honum sannmælis og kallað hann mann vel skýran, og mega þá báðir vel við una.