11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

99. mál, vörutollur

Björn Kristjánsson:

Jeg ætla ekki að blanda mjer inn í þessar umr., en vildi þó víkja örfáum orðum að háttv. 3. landsk. út af því, sem hann sagði um afgreiðslu samvinnulaganna. (JJ: Við 2. umr.). Við 2. umr. samvinnulaganna 1921 voru ekki málalok, svo að frásögn hans um, að jeg hafi greitt þeim lögum atkvæði út úr deildinni, er röng.

Háttv. 3. landsk. segir, að jeg hafi samþykt þetta mál. En til þess að geta sagt þetta, má hann til með að skrökva. Honum er það áskapað. Hann skrifaði um þetta í „Tímann“ fyrir nokkrum árum. Jeg svaraði því þá og skýrði rjett frá málavöxtum. En þrátt fyrir það segir hann þetta nú. — Báðir aðalflokkar þingsins voru eindregnir í því að samþykkja samvinnulögin. Það þýddi því ekkert fyrir mig einan að vera að setja mig á móti því, því jeg stóð einn. Það er satt, að jeg greiddi frv. atkv. til 3. umr., en það gera menn svo oft, enda þótt þeir sjeu í raun og veru á móti máli því, sem um ræðir. Jeg bjóst við, að menn myndu kannske átta sig betur á málinu.

Í B-deild Alþt. 1921 stendur á bls. 1743: „Frv. samþ. með 13 shlj. atkv. og afgr. til Nd.“ Þarna sjá menn, að enn einu sinni hefir háttv. 3. landsk. skrökvað þessu. (JJ: Hv. þm. játaði þó, að hann hefði greitt frv. atkv. við 2. umr.). En getur ekki háttv. 3. landsk. skilið það, að úrslit málsins eru ekki við 2. umr., og um úrslit málsins var hann fyrst að tala. Nei, hann getur bara aldrei sagt satt, enda hefir hann, eftir því sem stjórnarblaðið Vörður skýrir frá, skrökvað vísvitandi upp sömu ósannindum sex sinnum um eitt og sama atriði. Þetta er honum meðskapaður galli, sem hann getur ekki losnað við.