11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

99. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer finst ekki, að háttv. 3. landsk. (JJ) farist að tala um gengisleysi mitt í gengismálinu og seðlamálinu. Jeg hefi ástæðu til að vera ánægður með úrslit gengismálsins í Nd., og jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. (JJ) sje það einnig. Fyrir stuttu síðan var hann hækkunarmaður eins og aðrir sósíalistar, en svo hefir hann verið látinn breyta um skoðun í þessu máli. Hann var svo heppinn, eða öllu heldur óheppinn, að nefna bankamálið. Hann hefir verið jafnliðugur að skifta um skoðun þar. Í hitteðfyrra var hann með því, að Landsbankinn fengi seðlaútgáfurjettinn, í fyrra var hann á móti því, en nú er hann með því aftur. Hvar verður hann næsta ár, úr því að afgreiðsla þessa máls bíður nú í eitt ár enn?

Hv. 3. landsk. endurtók þá staðhæfingu sína, að sú breyting á vörutollslögunum, sem hjer er farið fram á, fæli í sjer meira ranglæti en rjettlæti. En hann kom ekki fram með eina einustu röksemd. Hann spurði aðeins: Hver er skattalinun bændanna? Það er satt að vísu, að hún er ekki stór að vöxtunum til. En þó hefir ekki verið gengið framhjá þeim. Má þar nefna tollinn af kjöttunnum og korntollinn. En ef á að lina skattana, þá verður linunin að koma þar fram, sem skattarnir eru fyrir. Bændastjettin ber ekki svo mikla skatta, að hægt sje að veita þeim skattaívilnanir, sem stórri upphæð nemi. Ef linunin á að vera rjettlát, verður hún að koma þar niður, sem skattarnir eru þyngstir. Er það líka gert hjer.

Þá mintist háttv. þm. á ástandið í Englandi, verkfallið og óeirðirnar, og sló fram þeirri staðhæfingu, að það stafaði alt af gengishækkun enskra peninga. En þetta sýnir aðeins framúrskarandi ókunnugleik háttv. þm. á þeirri margþættu orsök, sem leiddi til þess, að kolanámurnar á Bretlandi urðu ekki samkepnisfærar við kolanámurnar á meginlandinu.

Háttv. 3. landsk. nefndi loks Lögrjettugreinina frá 1908. En þótt ótrúlegt megi virðast, þori jeg að fullyrða, að jeg var ekki þar að ræða um frv. það, er nú liggur fyrir. En það er nú svo um þennan háttv. þm., að hann er vanur að þenja sig í hvaða máli sem er yfir alla tíma, fortíð, nútíð og framtíð, og um alt rúm, yfir lönd og heimsálfur. Þetta er ekki minn háttur, og síst var jeg fyrir 18 árum að ræða það mál, er hjer liggur fyrir. En jeg get sagt hv. þm. það, að mjer væri ánægja að taka upp umræður um þessa Lögrjettugrein á þingmálafundum og frammi fyrir kjósendum. Það kom fyrir einu sinni, að „hálfbróðir“ hv. 3. landsk. í hinu pólitíska lífi, sósíalisti nokkur, var í kjöri í einn kjördæmi hjer á landi. Hann mintist eitt sinn á kjósendafundi á þessa umræddu grein, og tók jeg upp umræður um hana með þeim árangri, að þessi „hálfbróðir“ hv. 3. landsk. þorði ekki að nefna hana á næstu þrem fundunum. Þegar hann svo á fjórða eða fimta fundinum var mintur á hana, reyndi hann að koma að hinu sama efni, en það varð þá mjög lítilfjörlegt í höndum hans. Og jeg skal lofa þessum hv. þm. því, að hann skal fá sömu meðhöndlun hjá mjer og hinn pólitíski „hálfbróðir“ hans fjekk forðum. En af því að mál þetta liggur ekki fyrir nú, ætla jeg ekki að halda hina fyrirhuguðu ræðu, en jeg mun hafa þá ánægju að hryggja hv. 3. landsk. með henni er á kjósendafund kemur.

Það er naumast staður nje stund til þess að leiða rök á móti rökum í strandferðaskipsmálinu. En þegar háttv. 3. landsk. er að montast yfir reynslunni og yfir því, hve ráð hans hafa dugað vel, þá kemur það til af því, að hann er ekki eins kunnugur reynslunni og hann er hrifinn af sínum eigin tillögum. Því að það vita allir, nema að líkindum hann einn, að lestarrúmið á Esju er svo lítið, að hún getur alls ekki fullnægt vöruflutningaþörf landsmanna. Í hverri ferð verður hún að skilja eftir vörur alt að því til hálfs landsins, og skipið er stundum orðið fult hálfum mánuði áður en það leggur í strandferð.

Nú er það ráð upp tekið að láta Esju standa í naustum nokkurn hluta ársins. Hefði það þá verið nokkurt óráð, sem jeg hjelt fram, að hafa skipið svo stórt, að það gæti verið í millilandaferðum þann tíma? Þörf landsmanna hefði þolað það, þótt skipið hefði haft nokkuð meira vörurúm, svo að það gæti siglt milli Íslands og útlanda þann tíma, sem það væri ekki í strandferðum.

Þá fór hv. 3. landsk. að tala um laxinn á Hvammstanga. Jeg veit ekki, hvort það verður nokkur dýrðarljómi, sem sú reynsla veltir yfir Esju, að hún er nú búin að sigla fram á þennan dag án þess að hafa gefið möguleika til þess að nota strandferðir hennar til þess að koma laxinum á markaðinn. Það hefði ekki sakað, þótt skipið hefði verið dálítið stærra og þá útbúið með kælirúmi, svo að nota mætti góðu ferðirnar til þess að koma afurðum landsins á markað nógu fljótt.

Loks fór háttv. 3. landsk. að tala um litla skipið, sem á að koma við á 4 höfnum í Barðastrandarsýslu og ef til vill á fleiri höfnum við Breiðafjörð og fullnægja samgönguþörf manna þar vestra. Ætli það yrði nú ekki stundum þröngt á því litla skipi, sem ætti að sigla á allar hafnir í Barðastrandarsýslu og inn á þá firði um alt land, sem venjuleg skip geta ekki komið? Jeg býst við, að það væri betra fyrir Barðstrendinga að þoka samgöngumálum sínum áfram eftir þeirri leið, sem háttv. þm. Barð. (HK) beitir sjer fyrir, sem sje að fá hæfilegt skip, sem annist flutninga milli Reykjavíkur og Breiðafjarðarhafnanna. En jeg held, að hinum 15 sýslum, sem hv. þm. talaði um, væri ekki mikill greiði gerður með því að láta Barðastrandarbátinn hlaupa á milli þeirri, ef hann má þá einhverntíma missa sig þar vestra.

Mjer sýnist yfirleitt alt, sem háttv. 3. landsk. hefir sagt, benda á það, að í þessu máli eru skoðanir hans bygðar á lítilli rannsókn og á enn minni þekkingu.