11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

99. mál, vörutollur

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Sú athugasemd hæstv. fjrh., að jeg hafi skift um skoðun í landsbankamálinu mun stafa af því, að hann er eitthvað illa fyrirkallaður. Hæstv. ráðherra hlýtur að vera kunnugt, að þegar málið var fyrst borið fram, þá tókum við hv. 2. þm. S.-M. (IP) það fram, að við myndum gera brtt. um æðstu stjórn bankans, þegar málið kæmi síðar til umræðu. Í fyrra varð að samkomulagi í fjhn. að gera till. um að rannsaka þetta betur, og þá vakti aðallega fyrir okkur framsóknarmönnum að finna hið besta skipulag á stjórn bankans. Nú veit hæstv. fjrh., að þessi rannsókn hefir verið gerð. Þetta er því aðeins af því, að hæstv. ráðh. er úrillur, af því að flokksmenn hans hafa neitað að styðja hann í þessu máli, að hann slær út í þessa sálma.

Hæstv. ráðh. taldi, að ekki þyrfti að ljetta sköttum á bændum, þeir hefðu svo ljetta skatta. Þeir borga þó margskonar neysluskatta. og maður hefir ekki orðið var við, að ljett væri á þeim sköttum, eins og hæstv. ráðh. var að segja.

Hæstv. ráðherra neitaði því, að kolaverkfallið á Englandi væri afleiðing af genginu, — sagði, að þar væru fleiri ástæður. Jú, sennilega einhverjar fleiri. En engum manni á Englandi blandast hugur um það, að gengið sje aðalatriðið. Jeg get sagt hæstv. fjrh. það, að jeg talaði í sumar við menn í Finnlandi, eftir að búið var að ákveða stöðvun myntarinnar. Þeir sögðu: „Við þorum ekki að hækka markið. Það myndi alt loga upp í verkföllum og verkbönnum um leið og myntin breyttist.“ Þessu hefir líka verið spáð af mönnum eins og Keynes, að svona hlyti það að fara. Gengisbreytingin er aðalástæðan. Það, sem barist er um, er þetta: Eiga verkamenn að geta haldið sama kaupi eða eiga námueigendur að halda sama skipulagi en lækka kaupið

Viðvíkjandi útskýringu minni á íhaldinu, skal jeg geta þess, að jeg vitnaði aðeins til orða hæstv. ráðh. og sagðist hafa sömu skoðun. Mjer skilst, að hæstv. ráðh. hafi látið í ljós, að hann hafi verið ungur og reiður, er hann sagði hin frægu orð 1908. Hann um það. Jeg hefi aðeins látið hann njóta þess altaf, þegar jeg hefi minst á þetta, að mjer finnist hann hafa í þetta skifti betur en endranær hitt naglann á höfuðið.

Okkar deilumál um strandferðir er ósköp einfalt. Jeg hjelt því fram, að strandferðaskipið ætti að vera fyrst og fremst farþegaskip. Hæstv. ráðherra vildi flutningaskip, og það stórt, sem gæti víst tekið sement og timbur á smáhafnir fyrir Jón Þorláksson og Norðmann. En hitt, að Esja liggur marga mánuði í naustum, hefir verið hæstv. fjrh. að kenna; hann hefir ekki tímt að láta skipið fara nauðsynlegar ferðir. Nú er í hv. Nd. verið að heimta, að Esja haldi áfram allan veturinn. Það heimtar fólkið úti um landið. Hæstv. ráðherra skilur það ekki, að fólkið fyrir austan og norðan sættir sig ekki við að vera marga mánuði án skipasamgangna. Náttúrlega vill hann hafa möguleika til að koma vörum hjeðan nægilega oft; það vilja allir heildsalar. Þá möguleika vill hann því auka.

Annars gefst mjer tækifæri til að tala um strandferðir síðar. En af því að það var mikið spursmál, hvað við ættum að gera við þetta fje, þá endurtek jeg, að ef átt hefði að lækka skatta, þá væri rjettlátt að láta lækkunina ná nokkurnveginn rjettlátlega til allra stjetta. En þessi lækkun er ranglát, því að hún nær svo að segja eingöngu til fámennrar, efnaðrar stjettar