10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg get ekki kannast við það, að stjórnin hafi gert nokkuð rangt í því að taka upp í fjárlagafrv. sitt allmyndarlegar fjárveitingar til verklegra framkvæmda. Jeg hefi tekið það áður fram hjer í hv. deild, að einmitt þá tel jeg fjármálunum rjett stýrt, ef hægt er að auka fjárframlög til verklegra framkvæmda þegar kreppir að atvinnuvegunum og eftirspurnin eftir vinnukraftinum minkar frá hálfu atvinnurekenda. Á þann hátt hagnýtist vinnukrafturinn betur en ella. En jeg hefi líka tekið það fram, að sú eftirspurn, sem þessar framkvæmdir ríkisins skapa, má ekki verða of mikil svo hún standi í vegi fyrir því, að á komist nauðsynlegt samræmi í kaupgjaldi, sem kann að vera óeðlilega hátt eftir uppgangstímann, sem á undan er genginn. — En dómurinn um það, hvort stjórnin hafi farið of langt eða ekki í till. sínum um þetta, verður að byggjast á því, hvort ríkissjóður reynist fær um þessi útgjöld. Jeg er nú þeirrar trúar, að hann muni reynast fær um það, en varlegra væri fyrir hv. deild að fara ekki mjög langt út fyrir það, sem stjórnin hefir lagt til í þessu efni.

Hv. þm. Str. (TrÞ) þótti undarlegt, að þegar jeg hafði mælt til hans vingjarnlega, þá skyldi jeg ekki ráðast því grimmilegar á hann á eftir. Það var ekkert undarlegt, því það er ekki minn háttur að fara þannig að. Jeg fór svo vægilega í gengismálið af því að jeg vildi ekki stofna til deilu við hv. þm. Str. En út af því, sem hann sagði um gengismálið, þá vil jeg minna á það, að krónan var í gullgengi í ársbyrjun 1919, lækkaði svo 1919 og 1920, og í nóv. 1920, þegar í raun og veru fyrst varð vart við gengismismun, þá er krónan 51 eyrir, og hefir haldist svo allan tímann síðan, að hún hefir aldrei lækkað niður úr því, nema nokkra mánuði framan af árinu 1924. Ýmsar tilraunir voru gerðar til þess að hækka krónuna allverulega, en þær mishepnuðust allar sem eðlilegt var eins og þá stóð á. Það var fyrst í jan. 1924, að nokkur mistök urðu, svo að krónan komst heldur lengra niður en hún hafði farið lægst 1920, og kom það af eintómri hræðslu við það, að ekki mundi verða hægt að halda genginu uppi. Það kom í ljós síðar, að sá ótti var ástæðulaus. Jeg veit ekki, á hverju það byggist úr okkar reynslu, að ekki sje unt að halda skráðu gengi, þó að kreppi. Það var gert 1920–'23, og jeg veit ekki til þess, að nokkur ástæða sje til þess að ætla, að það geti ekki eins hepnast nú. Við verðum að sjálfsögðu að gera okkar skyldu, þó að kreppi í bili. Hitt er sjálfsagt, að fara gætilega og reyna aldrei að þvinga fram gengishækkun, þegar markaðshorfurnar eru þær, að möguleikarnir fyrir slíku eru ekki fyrir hendi.

Þá mintist hv. þm. á till. frá fjhn., sem hann kvaðst vona, að jeg stæði ekki á bak við. Jeg veit ekki við hvað hann á. En jeg skal hinsvegar geta þess, að 1921– 1923 var gengi ísl. krónu haldið í horfinu án þess að ríkið þyrfti að taka á sig nokkra fjárhagslega ábyrgð á tapi af völdum gengisbreytinga.