15.03.1926
Efri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

56. mál, vélgæsla á gufuskipum

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. sjávarútvegsnefnd neðri deildar flutti frv. þetta eftir tilmælum mínum. Ástæðan fyrir framkomu þess er sú, að eftir því, sem gufuskipafloti okkar er nú, mun þurfa um 150 vjelstjóra. En nú munu ekki til nema 100 menn, sem vjelstjórarjett hafa samkvæmt lögunum frá 1915.

Hefir því ekki verið um annað að ræða en að veita undanþágur, sem hæpið er, að hafi stoð í lögum, eða þá að öðrum kosti að leggja nokkurn hluta flotana upp. Frv. þetta er því til að ráða bót á þessum ágalla, sem alls ekki getur talist hættulaus, því að ef skip strandar og um er hægt að kenna vjelstjóra, sem fengið hefir undanþágu með hæpinni stoð í lögum, þá er ekki víst, hvernig vátryggingarfjelag, sem í hlut á, mundi bregðast við skaðabótakröfunni. Er því mikil nauðsyn á að fá skýra lagaheimild fyrir slíkum undanþágum.

Að umræðunni lokinni óska jeg, að málinu verði vísað til sjávarútvegsnefndar.