25.03.1926
Neðri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

1. mál, fjárlög 1927

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg varð fyrir stundu síðan að gera fyrirspurn til hv. þm. Str. (TrÞ) um, hvað hann ætti við, er hann með óákveðnum orðum bar mjer á brýn, að jeg hefði farið rangt að í stjórn minni á bjargráðasjóðnum síðastliðið ár. Jeg hefi nú fengið það svar við þessari fyrirspurn minni, að þessi hv. þm. (TrÞ) sakar mig um hlutdrægni í lánveitingu til hrepps eins í mínu kjördæmi, Holtshrepps í Skagafjarðarsýslu, að jeg hafi í lánveitingum úr sjóðnum farið á móti einróma tillögum bjargráðastjórnarinnar, sem hv. þm. Str. á sæti í.

Til þess er því að svara, að það er alveg rjett, að jeg hefi í lánveitingum úr sjóðnum farið jafnvel þvert ofan í till. bjargráðastjórnar, ekki einungis að því er snertir Holtshrepp í Skagafjarðarsýslu, heldur ýms önnur lán. Og þetta er mjer fyllilega heimilt; bjargráðasjóðslögin frá síðasta þingi veita ráðherra slíkt vald. Samkv. 1. gr. laga þessara á hann að fá tillögur bjargráðastjórnar, en er engan veginn skyldur að fara eftir þeim, enda væri það sama og að leggja lánveitingarvaldið í hendur bjargráðastjórnarinnar, en það var ekki tilætlun laganna. Ætti jeg að fara nærri um hana, þar sem jeg er höf. þeirra og Alþingi gerði engar breytingar á þeim.

En með þessu er vitaskuld ekki hrundið þeirri ákæru hv. þm. Str., að jeg hafi verið hlutdrægur í lánveitingum úr sjóðnum. Mun jeg því athuga það atriði nánar.

Hv. þm. Str. tilkynti mjer það hátíðlega í gær, að hann mundi í dag ráðast á mig út af stjórn minni á bjargráðasjóðnum. Jeg hefi því hjer öll gögn við hendina, er að henni lúta. En í fyrri ræðu sinni kom þessi hv. þm. (TrÞ) aðeins með dylgjur í minn garð, svo að jeg varð að beiðast frekari skýringa. Jeg hefi nú fengið þær, og eru þær á þá lund, sem jeg átti von á, því jeg hafði heyrt því fleygt, að hann sakaði mig um hlutdrægni. Mjer er því tækifærið kærkomið til þess að sýna, að þetta er á alls engum rökum bygt.

Þegar bjargráðastjórnin átti fund um lánveitingar úr sjóðnum, lágu fyrir beiðnir frá 3 hreppum um lán vegna fjárhagsvandræða. Þessir hreppar voru: Stokkseyrarhreppur í Árnessýslu, Holtshreppur í Skagafjarðarsýslu og Borgarfjarðarhreppur í Norður-Múlasýslu. Tveim hinum síðarnefndu hefi jeg veitt lán, en bjargráðastjórnin lagði á móti öllum lánunum.

Um Borgarfjarðarhrepp vil jeg geta þess, að hann beiddist hjálpar þingsins 1924, og var því erindi vísað til fjvn. Áttum við hv. þm. Str. þá sæti þar, og man jeg ekki betur en að við værum þá sammála um, að hann þyrfti hjálpar, þótt ekki þætti þá fært að veita hjálp úr ríkissjóði, sjerstaklega vegna þess, að ýmsar fleiri slíkar beiðnir lágu fyrir. Báðir þm. N.-M. hafa mælt með þessari lánveitingu, svo að jeg býst ekki við, að þeir sjeu sammála hv. þm. Str. um þetta. (TrÞ: Jeg hefi ekki talað um þetta lán). Nei, ekki sjerstaklega, en þar sem hv. þm. Str. hefir kvartað yfir, að jeg hafi ekki farið eftir tillögum bjargráðastjórnar, þá kemur það einnig þessu máli við. En vitaskuld var aðalatriðið hjá hv. þm. lánið til Holtshrepps, og við það átti hlutdrægnisásökunin. Jeg sný mjer þess vegna að þessu láni.

Um þetta lán hefir hv. þm. Str. bókað þetta í fundabók bjargráðastjórnar. (TrÞ: Ekki jeg, heldur öll stjórnin). Nei, það er hv. þm. sjálfur, sem hefir fært fundarbókina. (TrÞ: Telur hæstv. ráðherra, að jeg hafi falsað bókunina?). Jeg kem að því síðar, hversu rjett bókun hv. þm. (TrÞ) er, en hún er svo hljóðandi að því er Holtshrepp snertir:

„Aðalástæður til erfiðleika Holtshrepps eru: óheppileg jarðakaup hreppsins og vanskil hreppsnefndaroddvita og kaupfjelags. Virðist svo sem skuldir hreppsins sjeu að miklu leyti samningsbundnar, svo að lánsins sje óskað aðallega í því skyni að fá lægri vexti.“

Með hliðsjón þessara ummæla leggur hv. þm. Str. eindregið á móti því, að Holtshreppi verði veittur einn einasti eyrir að láni.

Í brjefi oddvita Holtshrepps, þar sem hann sækir um lánið, er meðal annars þessi kafli, sem jeg skal leyfa mjer að lesa upp orðrjett:

„Til þess, hvernig skuldirnar hafa orðið til, liggja sjálfsagt margar orsakir. Fyrst tap á jörðinni Bakka, sem keypt var á þeim tíma, þegar alt var í vitlausum spenningi. Ábyrgð hreppsins á skuldum gamla kaupfjelagsins. Afskapleg vorharðindi 1920 og af því stafandi feikna mikill kostnaður og tap. Mikill fólksflutningur út úr sveitinni til Siglufjarðar og síðast en ekki síst þeir miklu mannskaðar, sem hjer hafa orðið við skipstöp á undanförnum árum. Flest af mönnum þessum hafa verið heimilisfeður, sem hafa skilið eftir fátækar ekkjur og fjölda barna, sem sveitin hefir orðið að annast að meira og minna leyti. Líklega mætti telja fleiri orsakir til þess, að sveitin er svona stórilla komin efnalega, en jeg vona, að háttv. atvinnumálaráðherra láti þetta nægja, þar sem hann er töluvert kunnugur ástæðum sveitarinnar og þeim óhöppum, sem hún hefir orðið fyrir.“

Þetta brjef hafði hv. þm. Str. fyrir sjer, er bann lagði á móti lánveitingunni. (TrÞ: Ekki jeg einn, heldur öll bjargráðastjórnin). Veit jeg vel, en enginn nema hv. þm. Str. hefir fundið að gerðum mínum í þessu máli, svo að jeg svara einungis hv. þm. Ef nú hin áður tilfærða bókun hv. þm. Str. er borin saman við frásögn oddvitans, sjest það greinilega, að í bókuninni er slept aðalatriðunum fyrir því, að hreppurinn er kominn í fjárhagsvandræði. Hv. þm. gleymir alveg hinum gífurlegu vandræðum 1920 og mannsköðunum 1922. Bókun hv. þm. Str. er því alveg röng; hún gefur alveg skakka hugmynd um ástandið. Og vissulega hefði jeg meiri ástæðu til þess að segja, að hv. þm. Str. hefði bókað hlutdrægt af því að hreppur í mínu kjördæmi átti í hlut, heldur en hann hefir til þess að bera mjer hlutdrægni á brýn. Til þess að sýna það enn betur, hversu villandi þessi bókun hv. þm. Str. er, vil jeg leyfa mjer að lesa upp kafla úr nýkomnu brjefi frá oddvita Holtshrepps. Hann er svo:

„Druknun í Holtshreppi hefir öðruhvoru átt sjer stað, en nú um æðilangt skeið hafa druknanir ekki átt sjer stað í stórum stíl, að undanskildu árinu 1922. Þá fórust 12 menn á einu skipi, allir úr Fljótum, en helmingurinn af þeim var úr Haganeshreppi. Sá var munurinn, að þeir, sem voru úr Holtshreppi, voru bláfátækir fjölskyldumenn (3 að mig minnir 8 barna feður). Á því sama hörmungaári druknuðu 2 fátækir fjölskyldufeður, sem að sönnu áttu ekki heimili í Holtshreppi, en áttu þar sveitfesti, og af því að menn þessir áttu heima í kaupstöðum, varð það sveitinni ennþá tilfinnanlegra en þó að þeir hefðu átt heimili í hreppnum, því að kaupstaðaþurfalingar eru regluleg plága á hlutaðeigandi sveitum.“

Lengra held jeg ekki, að þurfi að lesa til þess að fullvissa sig um rjettmæti þess, að veita þessum hreppi lán. Hann uppfyllir svo greinilega sem verða má öll skilyrði laganna til þess að fá lán úr bjargráðasjóði. Og jeg vil spyrja: Hvenær á að veita lán úr þessum sjóði, ef ekki þegar eins stendur á sem hjer? Og hvað er bjargráðasjóður og til hvers á að nota hann? Bjargráðasjóður er sjóður, sem hver sýsla og kaupstaður safnar fje í með árlegum nefskatti, til þess að geta hjálpað, ef í nauðir rekur. Er nú rjettara að láta það liggja í Landsbankanum en að leyfa illa stöddum, bláfátækum hreppum að taka sitt eigið fje heim um nokkurra ára skeið, þar til um hægist? Jeg segi nei, því að jeg tel það rangt að fátækir hreppar láni þannig Landsbankanum fje meðan þeir eru sjálfir í sárustu neyð.

Hvaðan hv. þm. Str. hefir þá vitneskju sem kemur fram í bókun hans, að skuldir hreppsins sjeu að miklu leyti samningsbundnar, veit jeg ekki, en það veit jeg, að úr skjölum málsins er þessi vitneskja ekki fengin, og jeg veit ekki betur en að hreppnum hafi verið ómögulegt að standa við lánssamninga sína undanfarið, svo að þeir sjeu burtu fallnir. Að minsta kosti veit jeg vel, því að um það liggja fyrir upplýsingar í skjölum málsins að hreppurinn hefir ekki getað greitt sýslusjóðsgjöld sín 2 síðastliðin ár.

Jeg vona að jeg með þessu hafi sýnt það greinilega, að brigsl hv. þm. (TrÞ) um hlutdrægni eru tilhæfulaus, og þar sem þetta er eina atriðið, sem fundið hefir verið að í framkvæmdastjórn minni síðastliðið ár, finst mjer jeg geta látið mjer vel líka.

En fyrst minst hefir verið á þessi bjargráðasjóðslán. þá þykjr mjer rjett að geta þess, að hv. þm. Str. hefir í tillögum sínum til mín um lán til bústofnskaupa lagt til, að þau væru veitt aðeins til 7 ára, en jeg hefi veitt þau til 20 ára. Þess verður sem sje að gæta, að lán þessi eru veitt fátækustu mönnum hvers hrepps, og jeg lít svo á, að þeir verði að fá lánin til talsvert langs tíma., ef þau eiga ekki að verða hlutaðeigendum óbærilega þung. Þessar tillögur hv. þm. Str. komu mjer yfirleitt talsvert á óvart. Hann kveðst vera bændavinur, en þegar hann hefir aðstöðu til þess að gera þeim greiða, þá eru tillögur hans þannig, að hann gengur miklu skemra en lög leyfa. (TrÞ: Hefir sjóðurinn ótakmarkaða peninga?). Nei, jeg þekki engan sjóð, sem hefir ótakmarkað fje. Spurning hv. þm. er auk þess þessu máli óviðkomandi, því að hjer er um að ræða. hvernig eigi að lána út það fje, sem til er, hvort sem það er mikið eða lítið.

Jeg mun ekki blanda mjer í deilur hv. þm. Str. við hæstv. fjrh. (JÞ), en get þó ekki stilt mig um að benda á, hversu rækilega hv. þm. (TrÞ) gefur sjálfum sjer á munninn, er hann heldur því fram, að bændur hafi stórtapað síðastliðið ár vegna gengishækkunarinnar, en upplýsir þó sjálfur, að bændur hafi fengið 50% meira eftir gullverði fyrir aðalframleiðsluvöru sína, kjötið, síðastliðið haust en haustið 1924. Það verður þó væntanlega ekki um það deilt, að gengishækkunin nam ekki 50%. Og ef ekki var fært að hækka gengi krónu vorrar síðastliðið ár vegna aðstöðu bænda. þá mun það sjaldan hægt, og þá hefði verið rjettara af Alþingi í fyrra að taka af skarið og stýfa krónuna. En það var ekki gert, heldur þvert á móti gengið út frá, að hún hækkaði, ef hægt væri.