20.03.1926
Neðri deild: 36. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

67. mál, veðurstofa

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefi leyft mjer að flytja brtt. við 8. gr. frv., á þskj. 160. þess efnis, að lögin skuli ganga í gildi 1. júlí þ. á. í stað 1. jan. n. á. Þessi brtt. er flutt með það fyrir augum, að þessi íslenski veðurfræðingur, sá eini, sem við eigum, geti flutt sig hingað nú þegar á næsta sumri. Það er vitanlega miklu þægilegra að flytja sig að sumarlagi, og jeg hygg, að hann muni geta sagt upp stöðu sinni í Bergen með samkomulagi við yfirboðara sína þar. Jeg álít þessu betur þannig fyrir komið, og jeg vona, að hv. sjútvn. hafi ekki á móti till. minni.

En um leið og jeg stend upp til þess að mæla fram með till. minni vil jeg nota tækifærið til þess að lýsa ánægju minni yfir því, sem gerst hefir í þessu máli — fyrst og fremst yfir því, að þetta frv. er fram komið, og eins þeim undirtektum, er það hefir sætt. Jeg hygg, að óhætt muni að fullyrða það, að þess megi vænta, að starfsemi þessarar stofnunar muni verða miklu fullkomnari en áður, meðan hana skorti bæði fje og starfskrafta til að leysa ætlunarverk sitt af hendi eins vel og skyldi. Jeg vona, að þegar búið er að verja jafnmiklu fje til stofnunarinnar og nú er ráðgert, þá muni þeir menn, sem fyrir stofnuninni standa, geta látið hana njóta starfskrafta sinna óskiftra.