06.04.1926
Efri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

67. mál, veðurstofa

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Frá hendi nefndarinnar er ekki ástæða til að hafa langa framsögu, því að hv. þm. Vestm. (JJós) skýrði málið svo rækilega við 1. umr.; en eigi að síður vil jeg þó láta fylgja því nokkur orð.

Það mun flestum koma saman um, að eitt af alvarlegustu málum þjóðarinnar sjeu bjargráðamálin á sjó. Og eitt af því, sem best kemur að notum fyrir þau, er starfsemi sú, sem felst í frv. þessu, og það mun reynast svo, að önnur bjargráð verði erfitt að framkvæma. En fari svo sem fyllilega má vænta, að ákvæði þessa frv. verði útfærð þannig, að veðurskeyti og veðurspár verði sendar í allar eða flestar veiðistöðvar landsins, þá dregur nefndin ekki í efa, að slík bjargráðastarfsemi muni koma að miklum og heillavænlegum notum.

Jeg sje enga ástæðu til að fara að telja hjer upp eða skýra nánar þann mikla skatt, sem sjórinn heimtar af okkar fámenna landi árlega, þegar varla líður mánuður svo, að hann heimti ekki einhverja.

Nefndinni er fyllilega ljóst, að slík stofnun sem þessi hlýtur að kosta mikið fje, og fjárframlög úr ríkissjóði í þessu skyni hljóta sennilega að aukast að mun fram úr því, sem frv. gerir ráð fyrir. En eigi að síður er nefndin einhuga um málið og telur ekki aðeins sanngjarnt, heldur skylt, að frv. nái fram að ganga. En á það leggur hún mikla áherslu, að veðurskeyti og veðurspár verði send reglulega í allar verstöðvar, sem hægt er að ná til. Því að stofnunin kemur því aðeins að notum, að þessu verði samviskusamlega fylgt, því eins og kunnugt er, hafa slík skeyti að nafni til verið send út undanfarið, en birting þeirra hefir verið svo mjög ábótavant, að þau hafa komið að sáralitlum notum.

Úr þessu verður að bæta: það má ekki undir höfuð leggjast, enda þótt nokkur kostnaður leiði af því.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, því að jeg veit, að deildin tekur frv. vel. Leggur nefndin til, að það verði samþykt óbreytt.