10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

1. mál, fjárlög 1927

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi setið hjá og hlýtt á mál manna, meðan fram hafa farið umræður um fyrri hluta fjárlaganna.

En nú vill svo til, að við þennan hluta þeirra, sem að þessu sinni er til umræðu, á jeg nokkrar lítilvægar brtt., og get jeg því ekki staðið mig við þögnina. Umræðurnar hingað til hafa þó ekki að öllu leyti snert fjárlögin. Hjer hafa farið fram einskonar eldhúsdagsumræður í sambandi við fyrri kaflann og ekki verið laust við reiptog milli einstakra hjeraða um fríðindi þau, er þeim bæri í fjárlögunum. Jeg ætla ekki að taka neinn þátt í þessu reiptogi eða bæta neinu við það. Eitt mál allsendis óskylt fjárlögunum, járnbrautarmálið, hefir líka verið dregið inn í umræðurnar, og lítillega komið við mig í því sambandi, en jeg leiði einnig hjá mjer að svara því nokkru. Þá hafa líka verið haldnir heimspekilegir fyrirlestrar um fjárhagsafkomu þá, er vænta megi næstu árin. Jeg lagði eyru við þessu, af því að mjer þóttu spárnar ekki allskostar viðfeldnar eða rökstuddar. Það mun hafa verið hæstv. fjrh. (JÞ), sem einna ljósast talaði um þetta, og ljet hann á sjer skilja, að hann byggist jafnvel við alvarlegri fjárhagskreppu. Undir þetta tóku nokkrir þm., og virtist talsverður uggur um, að eitthvað mjög alvarlegt væri í vændum. Jeg get lýst því yfir fyrir mitt leyti, að jeg er ekkert hrifinn af svona spádómum og legg engan trúnað á þá. Að því er snertir ófyrirsjáanlega atburði, svo sem ísrek, eldgos, drepsóttir o. þ. h., þá er engu hægt um slíkt að spá. Öðru máli er að gegna um kreppu, sem orsakast gæti af því, sem að meira eða minna leyti er sjálfrátt. Jeg gæti búist við, að þesskonar kreppu mætti vænta, t. d. ef mjög yrði ör hækkun ísl. krónunnar. En það má skoða eins og sjálfráða kreppu, þar sem það er á valdi þings og stjórnar, hvernig fer um þá hækkun. Fleira þessu líkt getur valdið sjálfráðri kreppu. Ef t. d. rekstrarfje landsmanna, því, sem bankarnir ráða yfir, verður eins og að undanförnu mestöllu veitt í fánýtt verslunarbrask og stopulan sjávarútveg, í stað þess að leggja það í öruggan atvinnurekstur, þá getur af því leitt alvarleg kreppa og efnaleg hnignun. En slíkir hlutir sem þessir eru að miklu leyti viðráðanlegir.

Þegar því er spáð um erfiða afkomu næstu ára, er engin ástæða til að taka það alvarlega, nema að því leyti, sem um mistök getur verið að ræða hjá þingi og stjórn um þá hluti, sem jeg hefi nefnt, eða aðra slíka. Harðæri stafandi af óhagstæðum náttúruviðburðum verður eigi sjeð fyrir. Þess vegna er jeg ekkert hræddur við að samþykkja nauðsynlegar fjárveitingar að þessu sinni, úr því fjárhagurinn leyfir. Með þessu segi jeg ekki, að jeg vilji styðja hverja þá till., sem hjer liggur fyrir. Jeg hefi sýnt við atkvgr. um fyrri hluta fjárlaganna, að jeg er mótfallinn mörgu, sem fram hefir verið borið. En það er ekki af ótta við framtíðina eða hrakspárnar, heldur af eðlilegri varfærni og sparnaðartilhneigingu. Jeg ætla svo að láta þennan formála nægja. Jeg býst ekki við, að jeg hafi komið svo illa við neinn, að hann verði til þess að lengja umr.

Þá skal jeg hverfa að þeim fáu brtt., sem jeg á þátt í, að hjer eru fluttar. Fyrst er XXXI. liður á þskj. 297, sem jeg flyt ásamt þingmönnum Ísafjarðarsýslu (JAJ og ÁÁ) og hæstv. forseta (BSv). Till. fer fram á að hækka styrk til barnaskólabygginga úr 10 þús. kr. upp í 37 þús. kr. Er ætlast til, að 29 þús. af þeirri upphæð gangi til þriggja barnaskóla, sem bráð þörf er á að reisa, 15 þús. til barnaskólans í Nesþorpi og 7 þús. til hvors hinna, í Súðavík og Öxarfirði. Nú er orðin venja, svo sem kunnugt er, að styðja slíkar byggingar með 1/3 stofnkostnaðar. Samkvæmt því frv. um fræðslu barna, sem nú er fyrir þinginu, er því slegið föstu, að svo skuli vera. Hjer er því ekki um neitt eyðslufje að ræða, heldur lögmælt gjöld. Spurningin er aðeins nú, hvort leggja skuli þetta fje fram á næsta ári eða nokkru síðar. Jeg skal geta þess um barnaskólann í Nesþorpi, að þessi 15 þús. eru líklega ekki meira en ¼ stofnkostnaðar, því áætlað er, að húsið kosti 60–70 þús. kr. Það ætti því að vera beinn hagnaður fyrir ríkið að leggja þetta fje fram strax, áður en búið er að lögfesta þá skipun, að ríkissjóður skuli greiða 1/3 stofnkostnaðar. Jeg skal geta þess, að 1922 fór jeg fram á litla upphæð til byggingar þessum skóla, 5000 kr. að jeg ætla, en fjekk þá ekki áheyrn. Jeg hygg, að skólinn, sem þar er, hafi verið bygður 1907 eða 1908, en hann er löngu orðinn of lítill og ófullnægjandi, enda nemendatala nú orðin þreföld við það sem þá var miðað við.

Hv. frsm. (TrÞ) lagði, að því er mjer skildist, fremur á móti þessari till. og gat þess, að fjvn. ætlaði að bera fram till., sem breytti upphæðinni, svo að hún yrði alls 20 þús. hr. Jeg get ekki álitið, að með því verði fullnægt þessum þremur skólum, jafnvel ekki neinum þeirra, því þessar 20 þús. kr. eru ekki nema liðlega handa einum þeirra, þeim stærsta, og er þá sama sem ekkert eftir handa hinum. Jeg vil vekja athygli á því enn, að það er beint hagræði fyrir ríkið að losna við Nesþorpsskólann nú, þar sem ekki er farið fram á nema ¼ stofnkostnaðar, eða minna.

Þá á jeg brtt. við 15. gr. 16. a., um styrkinn til skálda og listamanna. Fjvn. fjekk samþykta við 2. umr. þá breytingu við þennan lið, að hver einstakur styrkþegi skyldi ekki fá minna en 1000 kr. Upphæðin öll er 10 þús. kr., svo að það er ljóst, að í mesta lagi er hægt eftir þessu að veita 10 mönnum styrk. Verði einhverjum veitt meira en 1000 kr., geta styrkþegar ekki orðið svo margir. Umsækjendur síðast munu hafa skift tugum. Mjer finst rjett að breyta þessari aths., sem fjvn. setti, og færa lágmarksgjaldið niður. Jeg legg til, að í staðinn fyrir 1000 kr. komi 600 kr. Jeg sje, að sú upphæð, þótt lítil sje, getur oft orðið slíkum mönnum að miklu liði. Hún getur veitt þeim meðal annars það lánstraust og álit hjá þeim, sem annars vildu styrkja þá, sem gerir þeim fært að nota bæði tíma og upphæðir þær, sem þeim þess vegna áskotnast, til þess að stunda list sína. Jeg álít þetta betra heldur en að skifta svo, að frá einu ári til annars sje fært á milli manna. Þetta er, eins og allir sjá, fremur til sparnaðar en eyðslu, ef litið er á þá hlið málsins.

Loks er þriðja till., sem nafn mitt er tengt við, það er LI. liður á þskj. 297. Jeg fer þar fram á breytingu á 16. gr. 22. tölulið, að til markaðsleitar verði veittar 12 þús. kr. í staðinn fyrir 5 þús. kr. Og af þessum 12 þús. kr. fer jeg einnig fram á, að veittar verði eftir umsókn Karli Þorsteins 7 þús. kr. til markaðsleitar fyrir íslenskar sjávarafurðir í löndunum sunnan og austan Miðjarðarhafs og í Balkanlöndunum, og verði sú ferð farin í samráði við ríkisstjórnina.

Mjer finst jeg hafa því gildari ástæður til að bera fram þessa ósk, sem nú horfir svo erfiðlega um sölu sjávarafurða og margir líta með áhyggju fram til vorsins og sumarsins. Það má segja, að dag frá degi falli í verði íslenskar sjávarafurðir. Á markaðinn berst meira heldur en hann getur vel tekið á móti, — sá takmarkaði markaður, sem við höfum notið undanfarið. Og þó er vitanlegt að í þessum löndum, sem jeg nefndi, eru fiskneytendur fjölmargir. Það er líka vitanlegt, að jafnvel íslenskar sjávarafurðir eru fluttar þangað, þótt það sje ekki beint gegnum íslenska útflytjendur, heldur gegnum hendur Englendinga og annara útlendra manna.

Karl Þorsteins hefir farið fram á stuðning um þetta í umsókn til stjórnarráðsins af því fje, sem óeytt er frá fyrra ári í þessu skyni, en þessu var hafnað með skírskotun til þess, að vjer ættum erindreka á Spáni. Síðan hefir Karl farið fram á að fá sjerstaka veitingu í fjárlögum í þessu skyni, með erindi til fjvn., en nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að taka upp þessa veitingu, þótt meiri hluti sjávarútvegsnefndar hafi mælt með henni.

Jeg hygg fyrir mitt leyti, að hjer sje um mjög þarflegt og gott mál að ræða. Af því að jeg þekki persónulega þennan mann og veit, að hann er bæði vel hæfur og sjerstaklega vandaður maður, þá finst mjer, að jeg verði að gera mjer þær allra bestu vonir um, að hann geti afrekað eitthvað í þessu efni, og þess er óneitanlega þörf. Jeg skal geta þess, að þessi maður hefir í erindum fisksölufjelags farið nokkrar ferðir til útlanda og dvalið suður á Spáni og Ítalíu, einnig farið til Suður-Ameríku í sömu erindum. Hann er sjerstaklega vel að sjer í tungumálum, aðalmálunum, ensku, þýsku og frönsku, og töluvert vel fær í spönsku. Þar fyrir utan hefir hann mikla æfingu að því er snertir sölu fiskjar, af því hann hefir starfað síðastl. 5–6 ár einmitt fyrir fjelag fiskútflytjenda hjer í bæ sem og ytra.

Jeg leyfi mjer því að líta á þessa till. einnig sem sparnaðartill. fremur en eyðslutill., því að lítil útfærsla markaðsins ætti fljótlega að samsvara þessum tilkostnaði. Upphæðin, 7000 kr., er að vísu alt of lítil til þess að ferðast fyrir hana um þessi lönd, svo að leitað verði þar til hlítar. En jeg hefi dálitla von um, að einstakir menn muni að öðru leyti hlaupa undir bagga og leggja eitthvað af mörkum. Fyrir því vænti jeg þess, að þessi litla upphæð muni geta gefið — ef ekki á þessu ári, þá samt á næstu árum — það í aðra hönd, að ekki verði eftirsjá að því að veita hana.

Jeg þykist ekki þurfa að fara fleiri orðum um þessa brtt., og get að öðru leyti skírskotað til kunnugleika margra háttv. þdm. á þessum umsækjanda.

Aðeins með fáum orðum vildi jeg svo minnast á brtt. á þskj. 304, sem nafn mitt er einnig tengt við. Þar er farið fram á nýjan lið við 16. gr., 200 þús. kr. fjárveitingu til að byggja strandferðaskip. Þessa till. tek jeg aftur vegna annara ráðstafana, sem við flm. höfum komið okkur saman um að gera í þessu efni. Jeg hygg því verði fagnað fremur en hitt; mjer skildist svo á einhverjum hv. þdm. fyrir fáum dögum, að honum kæmi illa að þurfa að greiða atkvæði um þessa tillögu. Nú þarf hún engum að valda ama.

Áður en jeg sest niður, verð jeg að víkja örfáum orðum að hv. 1. þm. Árn. (MT) í allri vinsemd. Við fyrri hl. þessarar umr. mintist háttv. þm. mín á þann veg, sem mjer fanst ekki meira en svo eiga við, því að hann gerði það jafnhliða því að bera saman reksturinn á bankaútibúinu á Selfossi við rekstur útibúsins á Eskifirði. Og hann reyndi að sýna fram á, að rekstur útibúsins á Eskifirði hefði verið lakari en á Selfossi. Þetta kemur nú fyrst og fremst ekki meðferð fjárlaganna við, og í öðru lagi er það alveg út í hött talað hjá háttv. þm., þegar hann beinir því að mjer, því að jeg hefi aldrei átt hið minsta við stjórn útibúsins á Eskifirði. Fyrir þá sömu skuld er jeg líka svo ókunnugur því, að jeg get í raun og veru ekki dæmt um það, hvort samanburður hv. þm. er rjettur eða ekki. Hinsvegar hefi jeg hjer fyrir mjer reikninga Landsbankans um útibú hans frá árunum 1922–1924. Jeg hefi athugað þessa reikninga og mjer hefir virst samanburður hv. þm. vera dálítið á svig við sannleikann. Jeg tók svo eftir, að hann teldi útibúið á Selfossi hafa tapað alls um 70–77 þús. kr. á rekstrartímanum öllum, og virtist það lítil upphæð. Jeg finn ekki í reikningum Landsbankans þessi 3 árin, að afskrifað hafi verið neitt hjá útibúinu á Selfossi. En jeg finn annað, sem reyndar bendir á það, að rýrar hafi þar tekjur verið. Jeg finn þar, að árið 1923, þegar útibúið hafði að láni frá Landsbankanum 2289036 kr., þá greiddi það í ágóða 155 kr., en slíkar tekjur af 2¼ milj. eru aðeins nafnið. Þetta er auðvitað svo hverfandi lítill gróði, þótt gróði sje, að enginn vafi er á því, að eitthvað hlýtur að hafa lamað reksturinn.

Á Eskifirði var tap afskrifað 1924 644 þús. kr. Annað hefir þar eigi verið afskrifað til þessa. Um það hafði hv. þm. þau orð, að útibúið mundi hafa týnt 40–50% af því fje, sem bankinn átti hjá því. Upphæðin frá Landsbankanum í útibúinu var í árslok 1923 eftir reikningunum 3774000 kr. Ef litið er á afskriftina, 644 þús., eins og hundraðshluta af innieign Landsbankans, þá verður það sem næst 17%, sem tapast hefir af innieigninni. En þegar litið er til þeirra ára, sem gróða hafa gefið, þá sýna líka reikningarnir, að hver miljón á Eskifirði gefur mun meira af sjer en á Selfossi.

Annars er svona samanburður með öllu þýðingarlaus, og verður í raun og veru lítið á honum bygt, vegna þess, að á öðrum staðnum er bankastarfsemin rekin með mikilli áhættu, þ. e. a. s. í sambandi við verslunarfyrirtæki og sjávarútveg, en á hinum staðnum í sambandi við landbúnað, sem auðvitað er miklu öruggari til viðskifta. (JörB: Og verslun). Þótt jeg sje ekki kunnugur bankastarfseminni á Eskifirði, þá hygg jeg, að útibúið hafi aldrei tapað á viðskiftum við bændur; tapið 1924 stafaði nær eingöngu af óheilbrigðum verslunarfyrirtækjum, aðeins lítill minni hluti frá sjávarútvegi, en alls ekki af viðskiftum við sveitamenn. Þess vegna er það ekkert tiltökumál, þótt tap hafi komið fyrir þarna, þar sem bankareksturinn byggist nær eingöngu á viðskiftum við stopulustu atvinnuvegi. Enda lá nær fyrir hv. þm., ef hann vildi benda á mesta tjónið, sem orðið hefði á útibúunum, að nefna þá útibúið á Ísafirði. En þar mun tapið hafa stafað af líkri orsök og eystra. Í báðum þessum stöðum starfa útibúin að því að halda uppi áhættusömum fyrirtækjum í verslun og sjávarútvegi, en á Selfossi er það landbúnaðurinn, sem á hlut að máli, sá atvinnuvegurinn, sem venjulega leiðir ekki tap yfir sína lánardrotna.

Það var þessi athugasemd, sem jeg hlaut að gera, því að það var vissulega töluvert villandi samanburður, sem hv. þm. gerði um rekstur útibúanna tveggja. Að öðru leyti get jeg látið mjer þetta liggja í ljettu rúmi, því að mjer er þessi bankarekstur algerlega óviðkomandi.