25.03.1926
Neðri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

61. mál, kirkjugjöld í Prestbakkasókn í Hrútafirði

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg þarf ekki að láta mörg orð fylgja þessu frv., því að jeg veit, að hv. deild hefir áttað sig á því. Jeg skal þó fara nokkrum orðum um þetta mál. Með lögum nr. 26, 2. nóv. 1885, um skipun prestakalla, var sú breyting ger, að 4 bæir, sem áður tilheyrðu Óspakseyrarkirkju í Strandaprófastsdæmi, voru lagðir til Prestsbakkakirkju, en þó skyldu þeir áfram greiða kirkjugjöld til Óspakseyrarkirkju, eða Prestsbakkakirkja að endurgreiða Óspakseyrarkirkju gjöldin. Við þetta hefir nú setið um 40 ára skeið Er þetta auðvitað mjög óeðlilegt og illar búsifjar fyrir Prestsbakkakirkju, að bæirnir eiga sókn þangað, en greiða henni engin gjöld. Hvernig sem þetta er til komið í fyrstu, telur nefndin rjett, að ríkið greiði Óspakseyrarkirkju bætur fyrir þann tekjumissi, sem hún verður fyrir við þessa breytingu, og mundu þær nema eftir áætlun biskups 800 kr. í eitt skifti fyrir öll. Nefndin leggur til, að 1. gr. frv. orðist upp, vegna þess að kirkjugjöldin hafa verið greidd til Prestsbakkakirkju, en hún hefir aftur endurgreitt þau Óspakseyrarkirkju. Leggur svo nefndin til, að frv. verði samþykt með þessari breytingu á 1. grein.