04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þessar brtt. í samræmi við það, sem jeg sagði við síðustu umræðu þessa máls hjer í deildinni. Jeg býst við, að háttv. landbn. ætli með frv. þessu að koma í veg fyrir, að næmir alidýrasjúkdómar flytjist til landsins. En til þess, hygg jeg varla þurfa að banna innflutning á hálmi og mjólk, því að mjólk getur ekki valdið sýkingarhættu.

Það hefir flogið fyrir, að nýmjólk myndi jafnvel flutt inn á næstu árum, en slíkt þarf ekkert að óttast, því að nýmjólk hefir enga sýkingarhættu í för með sjer, eftir því sem jeg hefi heyrt fullyrt, því að talið er, að af henni geti engin sýkingarhætta stafað þegar 24 tímar eru liðnir frá því, að hún kemur úr dýrinu. Er því með öllu óþarft að vera að gera ráðstafanir til að banna innflutning á mjólk, því að tæplega mun það vera ætlun nefndarinnar að amast við innflutningi á niðursoðinni mjólk.

Þá er 2. brtt. mín sú, að koma í veg fyrir, að bannaður verði innflutningur á hálmi. Nefndin hygst að koma í veg fyrir sýkingarhættu af hálmi, með því að banna innflutning á honum frá þeim löndum, sem munn- og kalufnasýki er í. En jeg hygg, að tilgangur nefndarinnar náist ekki með því ákvæði, því að hálmur er mikið notaður til endurpökkunar. Er því engin sönnun fyrir því, að hálmur, sem kemur frá landi, þar sem þessi sýkingarhætta er ekki, sje í raun og veru þaðan kominn í fyrstu. Hann getur alveg eins verið frá því landi, sem sýkingarhætta stafar frá. Jeg held því, að tilgangur nefndarinnar náist best með brtt. minni. og vil jeg því ráða háttv. deild til þess að samþykkja hana.

Í þessu sambandi vil jeg geta þess, að síðastliðið haust var þessi sýki á Englandi. Aðalvarnir stjórnarinnar til þess að varna útbreiðslu hennar voru þær, að banna að nota hálm, sem notaður hafði verið til pökkunar, í undirburð í vagna og rjettarstæði. En aftur á móti var ekki bannað að nota hálm til umbúða.

Samkv. frv. er innflutningur bannaður á öllum spendýrum og fuglum. Á að skilja þetta svo, að bannaður sje innflutningur á fólki? Gaman að sjá, hvað farfuglarnir gera. Ætli þeir bíði eftir því, að atvinnumálaráðuneytið setji reglur um hingaðkomu þeirra „í hvert sinn“? Eftir frv. má víst ekki nota hverja reglu nema einn sinni. Nóg að gera í ráðinu því.

Að síðustu vil jeg undirstrika það, að það næst meira öryggi í þessu máli með till. mínum en till. háttv. nefndar.