10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

1. mál, fjárlög 1927

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg á hjer eina brtt. við 22. gr. fjárlagafrv., um að heimila stjórninni að ábyrgjast 20 þús. kr. lán til Boga Þórðarsonar, til þess að kaupa nýtísku spunavjelar. Þessi maður sótti um fjórfalt hærri upphæð til fjvn., en hún sá sjer ekki fært að verða við því. Það stæði ef til vill öðrum nær að flytja þessa till., en jeg tel mig samt ekki of góðan til þess, þar sem er um að ræða jafnmikilvægt og þarft mál. Jeg er þess fullviss, að laust eftir síðustu aldamót, meðan Iðunn starfaði, hafi menn hjer syðra verið betur settir með að fá keypt innlent ullarband heldur en nú. Að vísu eru nú víða handspunavjelar í sveitum, en þær gagna aðeins þeim sveitum, þar sem þær eru. En sökum fólksfæðar er tóvinna óðum að leggjast niður í sveitum landsins, og verður vafalaust ekki meiri heldur en sveitirnar þurfa sjálfar með. En um kauptúnin er það að segja, að það væri nú gott og viðunandi, ef hægt væri að fá það efni, sem okkur er hentugast til klæðnaðar, en það er efni úr okkar íslensku ull, og hana ættum við að reyna að nota eins og við höfum aðstöðu til. Það hefir nú sýnt sig betur en nokkru sinni fyr, hve mikið vantar á, að þetta sje eins og ætti að vera. Hjer er flutt inn ullargarn fyrir tugi þús. kr., þó okkur henti það miklu ver, en band úr íslenskri ull er ekki fáanlegt. Þær verksmiðjur, sem hjer eru, fullnægja ekki eftirspurninni, og því verður að nota útlent garn. Og með till. þessari vil jeg gefa hv. þd. kost á því að hlynna að því, að meira verði unnið úr íslenskri ull í landinu sjálfu heldur en verið hefir hingað til. Jeg gat þess áður, að hr. Bogi Þórðarson hefði í fyrstu farið fram á 80 þús. kr. lán. En hann hefir tjáð mjer, að hann mundi reyna að koma upp þessari spunavjel, ef hann fengi þetta 20 þús. kr. lán. Spunavjelin kostar með þeim áhöldum, er henni þurfa að fylgja, um 50 þús. kr.

Að fengnum þessum upplýsingum, og þar sem málið er allmikilvægt, þá hefi jeg flutt þessa till. hjer. Jeg get ekki gert mjer neina hugmynd um það, hvort fje sje fyrir hendi eða ekki, en jeg hefi orðað till. þannig, að heimildin komi ekki til framkvæmda nema fje yrði fyrir hendi.

Bogi Þórðarson hefir nú á síðasta ári komið á hjá sjer, án allrar hjálpar frá hinu opinbera, nýtísku kembingu, og hefi jeg heyrt á mörgum, sem notað hafa þá vinnu, að þeim þyki hún ágæt, og til þessa hefir Bogi Þórðarson ekki notið neins tilstyrks frá Alþingi eða ríkissjóði, en það er skiljanlegt, að hann er ekki það fjárhagslega efnum búinn, að hann geti ráðist í svona miklar framkvæmdir og aukið þennan útbúnað sinn án þess að honum komi einhver hjálp. Held jeg, að við ættum, eins og reyndar í öllu yfir höfuð að tala, sem lýtur að atvinnuvegum okkar og starfsemi, að reyna, að vera sjálfum okkur nógir. Það er víst, að við getum, með því að vinna ullina okkar meira í landinu sjálfu, fengið meiri fjármuni fyrir hana. Á jeg hjer ekki eingöngu við þau not, sem við fáum við að geta haft hana til fatnaðar hjer heima, heldur að við getum líka selt íslenskt band til útlanda með meiri gróða en þarf fyrir að vinna hana, því að það er áreiðanleaa hagnaður að því að vinna ullina hjer og selja hana þannig. Þetta mundi því hafa tvenskonar þýðingu. bæði myndum við þá nota ullina meira til fatnaðar heima fyrir og sömuleiðis fá meira verð fyrir það, sem við þannig sendum unnið til útlanda. heldur en með því að senda hana óunna eins og nú er.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekar að fjölyrða um þetta, því að mjer hefir virst Alþingi vera jafnan mjög fúst á að greiða fyrir svona starfsemi í landinu, og jeg man ekki til, að það hafi nokkru sinni borið við, að þau fyrirtæki, sem fengist hafa við þessháttar starfsemi, hafi ekki verið styrkt af landsfje. Þess vegna mætti segja, ef þessum manni yrði synjað um fjárstyrk, að þá yrði hann miklu harðara úti með þetta fyrirtæki sitt en nokkurt annað fyrirtæki, sem við slíkt hefir fengist, og alt bendir til, að rjettara sje fyrir okkur að greiða fyrir þessu fyrirtæki svo sem okkur er fært. Vænti jeg þess vegna, að hv. þd. taki málinu vel og að menn geti sjeð, að mjer koma ekki til að flytja þetta mál neinir hagsmunir fyrir mjtt hjerað, heldur hefi jeg flutt það af því, að jeg tel það þjóðþrifamál, og því sjálfsagt að eitthvað sje greitt fyrir því.

Um aðrar till., sem hjer liggja fyrir frá hv. fjvn. og öðrum hv. þm., ætla jeg ekki að fjölyrða, frekar en við fyrri kafla þessa frv., því að jeg vil ekki gera neitt til þess að lengja umræðurnar um það.