09.03.1926
Efri deild: 23. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Ingvar Pálmason:

Þegar jeg sá þetta frv., flaug mjer í hug gamalt orðtak, sem segir: .„Maður, líttu þjer nær, liggur í götunni steinn.“

Eins og frv. ber með sjer, er tilgangur þess sá að fyrirbyggja, að til landsins flytjist alidýrasjúkdómar. En nú er svo ástatt hjá okkur, að við ölum hjer í landi einn hinn skæðasta alidýrasjúkdóm, fjárkláðann, — sem er og hefir verið landbúnaði vorum til stórhnekkis — án þess að hafa manndáð til að losa okkur við hann. Flestir kannast við hann og vita, hve mikill steinn í götu landbúnaðarins hann hefir verið og er enn. Um þann stein hefir landbúnaðurinn þráfaldlega hnotið og ríkissjóður líka, og enn þann dag í dag er ríkissjóður að reka tærnar í hann. Jeg vildi benda á það, háttv. nefnd til athugunar, hvort ekki væri meiri ástæða til að taka á þessu máli föstum tökum en að koma fram með þetta frv., sem hjer liggur fyrir, og hefði jeg óskað, að yfirdýralæknir landsins hefði frekar látið fjárkláðann til sín taka.

1. gr. frv. mælir þannig fyrir, að það sje öllum bannað að flytja hingað til lands lifandi spendýr og fugla. Nú vitum við, að til landsins flyst á ári hverju sægur af allskonar farfuglum, lóum og spóum o. fl. Nú er þetta bannað. Að vísu geri jeg ráð fyrir, að þetta bann verði áhrifalítið og að erfitt verði að koma þar við sektarákvæðum, enda vona jeg, að blessuð lóan komi hingað til lands eftir sem áður, án þess að sækja um leyfi til atvinnumálaráðherra. Á þetta vildi jeg benda í tilefni af því, að það er ekki óalgengt, að menn flytji hingað fugla sjer til ánægju, og er það ekki tvímælum bundið, að þeir verði samkvæmt frv. að sækja um leyfi til þess. En mjer er ekki kunnugt um, að innflutningur slíkra fugla hafi nokkurntíma valdið sjúkdómum, en ef svo væri, þá væri æskilegt að kæmi fram sem rök fyrir þessu fyrirmæli frv.

Auk þess vil jeg benda á það, að því hefir verið haldið fram af mætum mönnum, að eitt af því, sem okkur væri mjög nauðsynlegt og gæti orðið til mikilla hagsbóta, væri meiri fjölbreytni í alidýrartekt. t. d. aukin alifuglarækt, bæði hænsna- og andarækt, en þó sjerstaklega svínarækt, með hliðsjón af væntanlegum mjólkuriðnaði. Það kann að vera, að einhver ástæða sje til að hafa eftirlit með innflutningi slíkra dýra. Við vitum allir, að svín eru svín, og jeg fyrir mitt leyti mundi ekki taka upp neina lykkju fyrir þau, þó að þau væru nákvæmlega skoðuð, áður en þau væru flutt inn. En að því er kemur til innflutnings á alifuglum, er það ekki kunnugt, að hann hafi valdið sýkingu eða að yfirleitt sje hætt við, að hann geri það.

Sá húsdýrasjúkdómur, er menn telja mesta hættu á, eins og nú standa sakir, að flytjist hingað, er hin illræmda gin- og klaufnasýki, er gengið hefir um Norðurlönd síðustu ár. Mun það vera hræðsla við þennan sjúkdóm, sem veldur því, að þetta frv. er fram komið. En mjer finst sá sjúkdómur, vægast sagt, heldur veigalítil ástæða til að banna innflutning á hænsnum. Að því er snertir endur og gæsir, þá tel jeg þessi ákvæði frv. fremur til að leggja stein í götu þessarar nýju greinar alidýraræktar, sem sennilega gæti orðið að góðu liði til þess að bæta upp aðra atvinnuvegi. Einkum gæti anda- og gæsarækt komið að góðu liði í sjávarþorpum. Jeg tel, að fella þurfi burt úr 1. gr. orðið „fugla“. Eins og greinin nú er orðuð, gæti hún valdið óþægindum, og auk þess, sem áður er talið, hindrað menn t. d. í að flytja inn suðræna fugla sjer til skemtunar.

Annars vil jeg segja það, að mjer hefði þótt liggja nær, að dýralæknir beitti sjer fyrir öðru máli þýðingarmeira. Það var nógur tími að koma með þetta frv. þegar búið var að, útrýma fjárkláðanum, hvort heldur sem til þess hefði verið notað Coopers baðlyf eða Hreins. Jeg tel óþarfa að setja sig á háan hest í þessu efni meðan sýnt er slíkt hirðuleysi, sem átt hefir sjer stað ár eftir ár í að útrýma einum þeim versta alidýrasjúkdómi, sem við höfum af að segja.

Um 2. gr. horfir svo við, að þar er um heimild að ræða. og finst mjer, að nægt hefði að hafa alt frv. í þeim anda. Það eru þó nokkrar tegundir í 2. gr., sem orkað getur tvímælis um, hvort gott er að koma innflutningsbanni á. Skal jeg ekki fara frekar út í það í þetta sinn, en áskil mjer rjett til þess að koma með brtt. við

2. umr. Jeg vona, að frv. verði athugað vel í nefnd og vegið og metið, hvort ástæða er til þess að láta það komast í gegn, nema þá sem heimild. Það verður að minsta kosti að taka talsverðum breytingum, ef jeg á að greiða því atkv. út úr deildinni.