20.03.1926
Efri deild: 33. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg get tekið undir það með hv. 2. þm. S.-M., að ekki er nú ástæða til að vera að þrátta lengur út af þessu máli, fyr en hann þá kemur með sína brtt. og hefir talað fyrir henni. En jeg tek það fram, að óþarfi var hjá hv. þm. að vera að hneykslast á því, þó að jeg mintist á að innflutningur hreindýra gæti haft spillandi áhrif á hreindýr þau, sem fyrir eru í landinu. Því ef ekki beinlínis, þá samt óbeinlínis kemur það þessu máli við. Enda var það hv. þm. sjálfur, sem byrjaði að tala sjerstaklega um hreindýrin í sambandi við einhverja umsókn, sem lægi fyrir þinginu. Og þegar sá innflutningur var á annað borð kominn á góma, virtist það alls eigi úr vegi samhliða sýkingarhættunni að minnast á aðra hættu, sem af þeim innflutningi gæti stafað.