15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Jakob Möller:

Það er nú í sjálfu sjer óþarft að standa upp til þess að andmæla þessari brtt., eins og margir hafa á hana lagst. En jeg gat nú samt ekki látið vera, og mest fyrir þá sök, að mjer virðist það furðulegt, að þetta mál skuli nú vakið upp að nýju, eins og um það fór í fyrra. Jeg þykist nú samt skilja, að ástæðan til þess, að því er hreyft nú, sje þessi skýrsla, sem hv. þm. Str. las áðan upp. En ef þessi rannsókn, sem ekki lá fyrir í fyrra, hefir valdið því, að hv. flm. fara enn á kreik, þá er það ennþá furðulegra, því vitanlegt er, að það er alls ekki það, sem knýr menn til að kaupa útlent hey, að menn haldi, að það sje betra en það íslenska, og því síður mundu menn fara að halda það eftir að rannsóknin hefir leitt í ljós, að það er bæði dýrara og að sama skapi verra. Nei, það eru erfiðleikarnir á því að fá íslenskt hey, sem valdið hafa því, að norska heyið hefir verið flutt inn. Það eru öllum augljósir erfiðleikarnir, sem landbúnaðurinn á við að stríða með vinnuaflann. Það er alment umkvörtunarefni bænda um alt land, að þeir geti ekki vegna manneklu aflað nægilegra heyja handa sjálfum sjer, hvað þá handa stórum og mannmörgum kauptúnum. Þetta er aðalástæðan: erfiðleikarnir við að afla heyjanna, og eina ástæðan fyrir því, að innflutningur á norsku heyi hefir átt sjer stað.

Jeg geri nú ráð fyrir, að hv. flm. (TrÞ og PO) gangi aðallega til metnaður fyrir hönd landsins, að ekki sje sæmandi að flytja inn hey. En slíkur metnaður stoðar ekkert, þegar ekki er hægt að afla nægilegra heyja innanlands. Það er lítil hjálp í því, þó að gras sje nóg á jörðinni víðsvegar um landið, þegar þeir, sem hafa að nota það, hafa engin tök á að losa það af jörðinni og ná því til sín. Kaupstaðarbúarnir, sem þurfa að nota heyið, verða að stunda aðalatvinnu sína yfir sumartímann, og samkepnin svo mikil um vinnukraftinn, að sveitirnar bera þar skarðan hlut frá borði og geta ekki tekið menn til að heyja fyrir aðra. Hinu geri jeg ekki ráð fyrir, að hátttv. flm. vilji sporna við samkepni í heysölu vegna útlenda heysins. Jeg býst ekki við, að þeir vilji fylgja því að vernda innlenda framleiðslu með því að banna algerlega innflutning á samskonar vöru frá útlöndum. En verði það ofan á að banna innflutning á heyi, verður afleiðing sú, að sprengja innlendu vöruna upp úr öllu valdi, þegar þess er gætt, hvaða erfiðleikum það er bundið að afla hennar.

Hitt skil jeg, að ef einhver framkvæmd yrði gerð, sem líkleg þætti til þess að auðveldara reyndist að afla heyjanna en áður, þá væri ný átæða komin fram til stuðnings brtt. En svo er nú ekki. Þess vegna virðist þetta mega bíða eftir meiri framkvæmdum í búnaði landsmanna, auk þess sem engin nauðsyn rekur til að koma slíku banni á, nema síður sje. Enn sem komið er er landbúnaður ekki rekinn með heysölu fyrir augum. Fæstir bændur leggja fyrir sig sem atvinnu að selja hey, enda skortir þá flest til þess, hafa ekki vinnukraft aflögu, hvorki til þess að afla heyjanna nje koma seint á markaðinn. Þess vegna er það misskilningur hjá þessum bændafulltrúum, að þeir sjeu með þessari ráðstöfun að hjálpa bændum á einn eða annan hátt. Brtt. er gagnslaus og óþörf með öllu, og á því ekki að ná fram að ganga.