15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Jörundur Brynjólfsson:

Það er vafalaust margt rjett í þessu, sem háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) var að segja. Það eru fáir bændur, sem leggja stund á heysölu sjer til hagnaðar. Þessi ráðstöfun, sem breytingartillagan fer fram á, er því ekki gerð þeirra vegna. Hinsvegar get jeg fallist á, eins og hv. þm. Str. (TrÞ) tók fram, að það gæti orðið til hagsbóta, að sem minstur innflutningur yrði á norsku heyi, vegna þess, hve gæðamunur er mikill, borið saman við innlent hey. Þeir menn, sem notað hafa útlenda heyið til skamms tíma, hafa haldið það miklu betra en það er. Fyrir tveim árum talaði jeg við tvo menn, sem fóðrað höfðu skepnur sínar á útlendu heyi, og voru þeir báðir sannfærðir um, að það væri betra en það, sem völ var á innanlands. Nú í vetur hefi jeg orðið hins gagnstæða var; fjöldi manna er orðinn sannfærður um, að norska heyið sje ljelegt til fóðurs.

Það er rjett, sem hv. frsm. (HStef) tók fram, að okkur í landbn. þótti betur fara, að þetta væri ekki tekið upp í það frv., sem hjer liggur fyrir. Hinsvegar eru sumir nefndarmenn þeirrar skoðunar, að ekki eigi að hamla með lögum að flytja inn hey, þó að æskilegt sje, að innflutningur þess yrði sem allra minstur.

Annars sýnir fátt betur en þetta, hvað samgöngur okkar eru ónógar og erfiðar, að við skulum ekki einu sinni vera samkepnisfærir á þessu sviði: að ódýrara sje að fá hey frá Noregi en að flytja það milli staða innanlands. Þetta sýnir meðal annars þörfina á bættum samgöngum, eins og við höfum bent á, hv. 4. þm. Reykv. (MJ) og jeg í greinargerð þeirri, er fylgir járnbrautarfrv. Víða liggja ónotuð víðáttumikil engjalönd, sem bíða eftir því, að járnbraut komi, svo hægt sje að koma heyinu á markað. Og það má benda á það, að svo framarlega, sem menn bera landbúnaðinn fyrir brjósti, þá er eina skilyrðið fyrir ræktun landsins, að samgöngurnar verði bættar til þeirra staða, sem mesta ræktunarmöguleika hafa. Og það er tvímælalaust Suðurlandsundirlendið austanfjalls, sem mest hefir að bjóða í því efni og þangað á járnbrautin að liggja.

Jeg vona, að háttv. þdm. sje ljós, á hve miklu bernskuskeiði landbúnaður okkar er og hve aðkallandi sje, að verulegar umbætur verði gerðar á honum, og þá eru það fyrst og fremst samgöngumálin, sem menn verða að snúa sjer að. Því þá verður fyrst um jarðrækt í stórum stíl að ræða, þegar samgöngunum er komið í það horf, að allir megi vel við una.

Jeg veit ekki, hvort jeg get fylgt brtt., en mundi eflaust gera það, ef hún væri borin fram í öðru formi. Hinsvegar get jeg fallist á, að rjett sje að draga úr innflutningi á útlendu heyi, því að hann hefir eflaust verið óþarflega mikill, einkum þó í vetur, og mætti fara minkandi.