10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg bjóst ekki við því, að við þessar umr. yrði farið að gera upp annað en fjárhag ríkissjóðs. Mjer gat síst komið til hugar, að hjer yrði farið í reipdrátt um útibú Landsbankans, nje heldur um það, hver töpin væru hjá hinum einstöku útibúum. Jeg hefði heldur ekki farið út í þessi efni, ef hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefði ekki farið að víkja að útibúi bankans á Ísafirði, meðan það var undir minni stjórn. Það er nú svo, að mörgum andstæðingum mínum í stjórnmálum hefir orðið tíðrætt um töp þessa útibús, sem hafa orðið meiri en jeg vildi. Tildrög tapsins og upphæð oftlega rangfært og reynt að rýra álit mitt hjá þeim, sem ekki þekkja til. Jeg kemst ekki hjá því, út af þessum endurteknu árásum, að gera nokkra grein fyrir þessu, og það því fremur, sem komin er fram till. til þál. um þetta efni, þótt það sje að vísu í hv. Ed. Það er eins og menn vita, að mest töp útibúsins á Ísafirði stöfuðu af tapi á síldveiðunum 1919. Það var álit allra manna, er um þau mál ræddu, að það myndi verða afarmikill feitmetisskortur í heiminum eftir stríðið. Rússland og Þýskaland og fleiri þjóðir voru í miklum feitmetis- og feitivöruvandræðum um það er stríðinu lauk, og menn sjá það í ýmsum fjármálaritum frá þeim tíma, að fullyrt var, að feitivörur mundu hækka í verði undir eins og þessar þjóðir fengju að flytja þá vöru hindrunarlaust til sín. Af þessu var óvenjukapp lagt á það að framleiða feitivörur. Þetta fór á annan veg; þessar vörur, og þar á meðal síld, fjellu afskaplega í verði, og ástæðan til þess var sú, að þær þjóðir, sem þurftu vörur þessar, gátu ekki keypt þær, af því að kaupmáttur þeirra var svo lítill, að þær urðu að taka það ódýrasta af hverri vörutegund og flytja sem minst inn frá öðrum löndum. Það er kunnugt, að Þýskaland notaði eftir stríðið ekki nema 1/5 af þeim feitivörum, sem það notaði fyrir stríðið. Allar þjóðir, sem við síldveiði fengust á árunum 1919 og 1920, töpuðu mjög miklu, sjerstaklega Norðmenn og Skotar. — Fleiri bankar í Noregi urðu gjaldþrota af þessum sökum. — Menn hafa sagt, að síldarframleiðsla Íslands 1919 hafi verið svo mikil, að varan hafi þess vegna fallið í verði, en það er ekki rjett, því að árið 1916 var veitt og saltað um 100 þús. tunnum meira af síld en árið 1919, og þó steig varan þá. Engum kom til hugar, að síldin fjelli svo í verði árið 1919, alt fram í lok septembermánaðar, að hún ekki seldist fyrir framleiðslukostnaði. Ofan á þetta verðfall bættist það, að þeir, sem samið höfðu um sölu á síld, urðu vonsviknir, því kaupendur í Svíþjóð og víðar gátu ekki staðið við gerða samninga eða sviku gerða samninga. T. d. tapaði útibúið á Ísafirði verulega á því, að maður í Svíþjóð varð gjaldþrota eða sveik samninga, og í Þýskalandi var neitað um innflutningsleyfi. Tap útibúsins af síldveiðum varð um 800 þús. kr. á árunum 1919 og '20, en tap af öðru, t. d. verslun, var ekki svo mikið, að teljandi sje; það varð að vísu nokkurt tap hjá einum kaupmanni og einu kaupfjelagi, vegna þess að eignir fjellu í verði, en tap á verslun hefir annars ekki orðið. Alls var tapið um 1100000 krónur. Nú er það síður en svo, að jeg viðurkenni, að tap útibúsins stafi eingöngu af ráðstöfunum útibússtjórnarinnar, heldur meðfram af tillögum aðalbankastjórnarinnar. Aðalbankastjórnin samþykti móti tillögum útibítsstjórnarinnar að lána fje til að gera út á síldveiðar 1920. Af þeirri ráðstöfun varð á annað hundrað þúsund króna tap. Þá urðu og töpin stórum meiri af því, að þau voru ekki gerð upp fyr en árin 1922 og '23. Verðfall á því, sem selja þurfti, varð stórum meira en ella af þessum sökum.

Að ekki varð stýrt fram hjá töpum, vilja, ókunnugir og miður sanngjarnir menn kenna útibússtjórninni, eða mjer sem útibússtjóra; en eigi að síður hygg jeg, að það sje erfitt, að minsta kosti fyrir þá, sem kunnugir voru vestra á þessum árum, að átelja stjórn mína á útibúinu mjög freklega. Má í því sambandi benda á fyrirtæki á Ísafirði, sem aðalbankastjórnin rjeði öllu um. Þetta fyrirtæki var styrkt að öllu af aðalbankanum, en útibúið haft sem útborgunarkontór á lánveitingum til firmans. Fyrirtækið hafði mjög litla útgerð og alls enga síldarútgerð; það hafði nær eingöngu fiskikaup, sem mörgum hefir reynst arðvænlegt, en eigi að síður tapaði það um 400 þús. kr. og græddi þó mikið á fasteignasölu. Hve mikið bankinn hefir fengið borgað upp í þetta tap, skal jeg ekki fullyrða, en það mun hafa verið frekar lítið.

Þegar talað er um töp útibúanna, ber að sjálfsögðu að draga frá það, sem græðst hefir á undanförnum árum. En hjá útibúunum er rekstrarágóðinn færður aðalbankanum til tekna við hver áramót. Það, sem útibúið á Ísafirði var þannig búið að greiða aðalbankanum, var í árslok 1921 með vöxtum um 600 þús. kr.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, að tap Landsbankaútibúsins á Ísafirði hefði verið miklu meira en tap útibúsins á Eskifirði. Þetta er ekki hægt að sanna með tölum ennþá. En öllum er vitanalegt, að Eskifjarðarútibúið hefir tapað miklu meira en Ísafjarðarútibúið. Kunnugur maður hefir fullyrt, að tap Eskifjarðarútibúsins mundi ekki verða undir 1 ¾ miljón. Frá þessu dregst svo það, sem útibúið hefir greitt til Landsbankans sem ágóða, og sem með vöxtum mun vera ca. 200 þús. kr. Hreint tap bankans á Eskifjarðarútibúinu verður því minst 1,5 milj. kr. Þetta er að vísu ekki skjallegt ennþá, en það kemur fram á sínum tíma. (SvÓ: Þetta er spádómur). Nei, því miður er þetta ekki spádómur. Annars býst jeg við, að þessi hv. þm. viti meira um þetta útibú en hann þykist vita. Hann sagði, að Eskifjarðarútibúið hefði tapað mestu á óheilbrigðum verslunarrekstri þar eystra. Jeg vil nú telja það vandalaust að sneiða því nær alveg hjá verslunartapi, nema hjá þeim, sem fást við kaup og sölu íslenskra afurða til annara landa.

Að sjálfsögðu er það ekki einhlítur mælikvarði á stjórn banka, hvort mikið tapast eða lítið. Til þess liggja ýmsar orsakir. Þannig er öllum vitanlegt, að þeir, sem fást við lánveitingar til sjávarútvegs eingöngu, hljóta að tapa meiru en þeir, sem eingöngu lána til verslunar eða landbúnaðar. Því veldur árferði og annað óviðráðanlegt, svo sem skyndilegt og ófyrirsjáanlegt verðfall á aðalútflutningsvörum.

Þegar verðgildi íslenskrar krónu lækkaði 1921, átti öllum, sem með bankamál og fjármál fóru, að vera það fyllilega ljóst, að þá þurfti að halda í og draga úr útlánum, bæði til þess að forðast Inflation og til þess að menn tækju ekki nema sem minst lán, sem þeir svo þyrftu að borga með hærra peningagildi síðar. Þetta hygg jeg, að stjórn útibúsins á Ísafirði hafi sjeð betur en margir aðrir.

Ef útibúin á Selfossi og Eskifirði eru tekin til samanburðar við Ísafjarðarútibúið, þá sjest, að við árslok 1920 skuldar Ísafjarðarútibúið aðalbankanum fullar 2 milj., en útibúið á Eskifirði 666 þús. og útibúið á Selfossi 685 þús. Þessi skuld lækkar svo smámsaman hjá Ísafjarðarútibúinu og í árslok 1923 er hún 1 milj. 358 þús. En á sama tíma hækkar hún hjá hinum útibúunum. Þannig skuldar Eskifjarðarútibúið í árslok 1923 3 milj. 774 þús., en Selfoss 2 milj. 289 þús.

Jeg bjóst nú alls ekki við að þurfa að taka til máls um þetta atriði, en úr því sem komið var, var það nauðsynlegt, og vona jeg og veit, af því hvað hv. þdm. eru rólegir undir þessari ræðu minni, sem þó er óviðkomandi þingmálum, að þeir eru mjer sammála um nauðsyn þessarar hreingerningar.

Skal jeg þá snúa mjer að þeim brtt. við frv., sem jeg á sjálfur. Er þá fyrst brtt. á þskj. 297, um erfiðleikauppbót til prestsins í Ögurþingum. Biskupinn hefir eindregið mælt með 600 kr. í þessu skyni. En fjvn. hefir ekki sjeð sjer fært að taka upp meira en 300 kr. Nú stendur þannig á, að prestur þessi missir á þessu ári fyrir fult og fast af óbeinum árstekjum 312 kr. með því að báðir kirkjueigendur kaupa prestsmötukvöðina af jörðum sínum. Vænti jeg því, að hv. þdm. geti fallist á aðaltill. mína, eða þá að minsta kosti á varatillöguna.

Þá á jeg enn brtt. á sama þskj., ásamt hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) o. fl., um hækkun á upphæð til byggingar á barnaskólahúsum. Hvað snertir þorpið í Súðavík, þá eru þar um 170 manns og 25–35 skólaskyld börn. En barnaskólahúsið er orðið mjög ljelegt, 30 ára gamalt, og nú hefir læknirinn tilkynt, að hann muni ekki geta talið hollustuhætti eins og vera ber í þessu barnaskólahúsi nema við það sje gert. En þar sem húsið er orðið bæði gamalt og fúið og grunnur þess ljelegur, þá vilja hreppsbúar ekki leggja í viðgerðarkostnað, heldur ætla þeir að byggja nýtt hús.

Þá hefði jeg ekki búist við að þurfa í þetta sinn að leita á náðir þingsins með hið gamla vandræðamál, brimbrjótinn í Bolungarvík. Það er að vísu rjett, að í fjárlögum fyrir 1926 eru Hólshreppi gefnar eftir 16 þús. kr. af viðlagasjóðsláni, og það skilyrði sett, að hreppurinn kosti eftirleiðis viðhald brimbrjótsins. Þetta hefði hreppurinn getað gert, ef viðhaldið hefði ekki orðið stórum meira en nokkurn gat grunað. En sökum þess, hve brimbrjóturinn var upphaflega illa bygður, þá hafa komið fram á honum miklar skemdir. En mestar hafa þær þó orðið á síðastliðnum vetri. Aðalskemdirnar eru vegna þess, að framlenging öldubrjótsins mistókst algerlega fyrir vankunnáttu og trassaskap Aaderups hins danska, sem umsjón hafði með verkinu af hendi landsstjórnarinnar. Var það svo illa gert, að framlengingin hallaðist frá aðalgarðinum, og náði þá sjórinn að brjóta þar skarð í garðinn. Liggja svo tvö stór stykki úr garðinum í vörinni (lendingunni), sem hvort um sig vegur fleiri tonn.

Það er nú álit hreppsnefndarinnar, að sú aðgerð, sem nú er óumflýjanleg, muni kosta um 15 þús. kr. Skal jeg svo ekki þreyta háttv. deild á því að rekja raunasögu þessa fyrirtækis, og læt því þetta nægja.

Þá á jeg brtt. ásamt hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. þm. Borgf. (YO), um eftirgjöf á dýrtíðarlánum til þriggja hreppa. Jeg hefi nú heyrt á sumum hv. þm., að þeir telji þetta einhverja fjarstæðu. En þar er jeg á öðru máli. Mjer finst sjálfsagt, að hreinsað sje til um dýrtíðarlánin og eftirstöðvar þær, sem stríðsástandið skapaði hrepps- og bæjarfjelögum, og linun veitt á greiðslu þessara lána. Þegar þess er gætt, að ríkisverslunin hefir oft orðið að gefa bæði fjelögum og einstökum mönnum eftir margfalt stærri upphæðir, til þess að þessir atvinnurekendur geti haldið áfram atvinnurekstri sínum, þá væri lítil sanngirni og lítið samræmi í meðferð á fje ríkissjóðs, ef þessum hreppsfjelögum væri neitað um þessar eftirgjafir lána, sem gengið hafa til greiðslu á skuldum hreppanna við landsverslun. Það væri því lítið samræmi, ef hjer þyrfti að knýja freklega á náðir hv. þm. til þess að fá linun á þessum skuldum fyrir fátæk sveitarfjelög.

Það vakti fyrir okkur flm. að taka öll dýrtíðar- og hallærislán, sem einstök hreppsfjelög skulda, en af vangá þá mun eitt þeirra hafa fallið út. En það var meining okkar að hreinsa alveg til.

Hvað snertir Grunnavíkurhrepp, þá hefir hann borgað 2000 kr. af láninu, sem upphaflega var 5000 kr. Þetta hefði aldrei þurft að koma fyrir hann, ef hreppsbúar hefðu fengið til sín síma, því að togarar koma þangað nú á hverju hausti, þegar fiskur er genginn og veður ófært smærri bátum. Hreppsbúar verða að horfa upp á þessa dólga þurausa firðina, af því að þeir ná ekki í síma til að gera aðvart til Ísafjarðar, svo hægt sje að handsama sökudólgana. Líka hefir hreppurinn orðið fyrir þungum búsifjum vegna þurfalinga, því að fjöldi fólks hefir flust þaðan og orðið styrksþurfar í öðrum hreppum, og þessir fátæku og afskektu menn orðið að leggja þeim fje í aðra hreppa. Árneshreppur í Strandasýslu er sjerlega bágstaddur hreppur.

Þá á jeg enn eina brtt. ásamt hv. 2. þm. Reykv. (JBald), um 500 kr. styrk til að gera foss einn á Vestfjörðum laggengan. Það er vitanlegt, að enginn lax hefir veiðst á Vestfjörðum, frá Hvammsfirði til Hrútafjarðar, fyr en örlítið núna síðustu árin. Stafar það meðfram af því, að árnar eru ekki laxgengar sökum brattra fossa. Á sú, sem hjer er um að ræða, rennur í gegnum mjög falleg veiðivötn, sem silungsveiði er í, en í þeim verður ekki vart við lax, sem stafa mun af því, að hann kemst ekki upp þennan foss.

Annars er áreiðanlegt, að meira ætti að hlynna að laxa- og silungaklaki en gert hefir verið hingað til, því að það gæti orðið mörgum bændum mikill búbætir. Og á því er enginn efi, að það mætti auka veiðina mikið án teljandi kostnaðar. Þannig er talið, að í Ástralíu hafi engin laxveiði verið, þegar Englendingar komu þangað. En nú er þar laxveiði, sem gefur mörg hundruð þúsund sterlingspunda ágóða árlega. Laxaseiðin voru flutt þangað frá Skotlandi með feiknakostnaði. Nú er þetta talið að hafa verið hinn mesti búhnykkur.