10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Baldvinsson:

Jeg skal byrja þar, sem háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) endaði, á brtt. 61 á þskj. 297, um alt að 3000 kr. styrk til bæjar- og sveitarfjelaga til kaupa á laxa- og silungaseiðum.

Jeg hefi heyrt það haft á móti þessari till. af einstökum deildarmönnum, að ekkert erindi lægi fyrir fjvn. í þessu skyni. En það ætti ekki að vera neinn galli á tillögunni, ef sýnilegt er, að hún geti orðið að miklu gagni.

Verði tillaga þessi samþykt, er ætlast til, að ríkisstjórnin styrki bæjar- og sveitarfjelög til kaupa á laxa- og silungaseiðum til að setja í ár og vötn, því að reynsla er fengin fyrir því, að lax og silungur kemur aftur í þau vötn, sem hann fæðist upp í.

Nauðsynin fyrir því að styrkja þetta af opinberu fje liggur meðal annars í því, að margar jarðir liggja oft að sömu ánni og liggja misjafnlega vel við veiðinni; getur því orðið metingur um, hvað hver eigi að leggja fram, og það því orðið til hindrunar á framkvæmdunum. En slíkt kæmi síður fyrir, ef þetta hefði styrk af hinu opinbera.

Nú er svo komið, að margir hafa komið upp klakstöðvum og hafa það fyrir atvinnu að selja laxa- og silungaseiði, og hygg jeg, að þúsundið af laxaseiðum muni vera selt á 5 kr. Gæti þessi styrkur því verið sæmilegur handa 10 hreppsfjelögum.

Að sjálfsögðu yrði styrkur þessi ekki veittur nema eftir umsóknum og með meðmælum trúnaðarmanns landsstjórnarinnar og Búnaðarfjelags Íslands í þessum efnum.

Þá vil jeg með nokkrum orðum minnast á till. mína og háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) um 500 kr. til að gera Einarsfoss í Laugardalsá í Ögurhreppi laxgengan.

Eins og hv. meðflm. minn tók fram, rennur á þessi gegnum þrjú vötn. Í á þessari og vötnum þeim, er hún rennur í gegnum, er mjög mikill gróður, og er hún því hentug til þess að fæða upp laxa- og silungaseiði. Og að því leyti hagar svipað til um þessa á og Elliðaárnar hjer, nema hvað hún er vatnsmeiri og lengri. En Elliðaárnar eru taldar vera, eða voru, einhverjar mestu laxveiðiár í landinu. Og sumir hafa tekið svo djúpt í árinni, að kalla þær bestu laxveiðiár í Evrópu.

Þá skal jeg víkja að öðrum till. mínum, undir lið LXIII. Sú fyrsta er um alt að 25 þús. kr. til þess að styrkja sveitar- og bæjarfjelög að 1/3 til þess að koma upp barna- og gamalmennaheimilum. Þetta er nýtt í fjárlögum, en hugsunin er sú, að styrkurinn sje veittur í svipuðum hlutföllum og styrkur til skólabygginga og sjúkraskýla, þar sem gert er ráð fyrir, að styrkurinn nemi 1/3 kostnaðar. Aðalástæðan fyrir því, að jeg ber fram þessa brtt., er sú, að sveitarfjelög hafa víða áhuga á þessu, en vantar fje, og landssjóðnum því skyldast að hlaupa undir bagga. Jeg vil, að nokkuð af upphæðinni renni til Ísafjarðarkaupstaðar, af því að hann hefir komið upp slíku hæli, sem kostaði um 46 þús. kr. Þar er nú rúm fyrir 25 gamalmenni auk starfsfólks.

Jeg tel það sjerstaklega rjettmætt, að ríkið veiti bæjarfjelögum styrk til þessa, þar sem það hefir nú tekið af þeim skemtanaskattinn, sem fyrirhugaður hafði verið til slíkra stofnana hjá bæjarfjelögunum. Jeg geri ekki tillögu um það, að fá bæjunum aftur í hendur skemtanaskattinn, því að jeg álít, að leikhús sje nauðsynlegt, en þá vil jeg heimta af þeim hv. þm., sem gengust fyrir því að taka þennan tekjustofn af bæjunum, að þeir sýni bæjunum þá sanngirni að veita þeim styrk til þessa, sem felst í brtt. minni, þar sem bæjarfjelögin hafa verið svift tekjum, sem til þessara líknarstofnana áttu að ganga.

Jeg læt svo útrætt um þessa till. Það liggja engin erindi fyrir frá bæjum nje sveitum, en málið er jafnnauðsynlegt fyrir því.

Þá er 2. brtt. um styrk til að koma á sambandi milli allra sjúkrasamlaga í landinu og stofna ný sjúkrasamlög. Jeg hefi átt tal um þetta við landlækni, og hann telur það lífsnauðsyn, að slíkt samband komist á. Það eru óneitanlega þægindi fyrir menn, er þeir flytja úr einu hjeraði í annað, að geta undir eins komist inn í sjúkrasamlag á nýja staðnum og notið þar fullra rjettinda.

Til þess að koma þessu sambandi á, verður einhver að hafa forgönguna. Sjúkrasamlag Reykjavíkur telur sig fúst til þess, og liggur fyrir erindi frá því um það efni og umsókn um styrk.

Þá er síðasta till., og ekki sú sísta, um styrk til styrktarsjóðs verkamanna og sjómanna í Reykjavík. Svipuð till. þessari hefir verið borin fram á tveimur undanförnum þingum, en hv. þm. hafa ekki viljað fallast á hana — þó hefir hún fallið með litlum atkvæðamun. Þessi sjóður starfar hjer í Reykjavík, og þótt menn sjeu bæði líftrygðir og slysatrygðir, þá eru ekki ofstyrktir þeir, sem fyrir áföllum verða. Sjóðurinn veitir um 7000 kr. styrk á ári og gengur hann til mjög margra manna. Fjelögin, sem að honum standa, leggja honum árlega eina krónu af hverjum meðlim, og hygg jeg, að það sjeu um 3000 kr., sem hann fær frá fjelögunum, en hjer er farið fram á 3500 kr. styrk úr ríkissjóði. Samkv. skipulagsskrá sjóðsins má ekki eyða öllu í styrki, sem honum áskotnast, og eykst hann því nokkuð árlega. En þörfin fyrir styrk er ákaflega mikil og jeg vona, að hið háa Alþingi láti ekki sjóðinn vera vonbiðil lengur.

Það eru ekki fleiri brtt., er jeg hefi ástæðu til að tala um, en mig langar til að víkja því til hæstv. ráðherra, hvort þeim þóknist að svara þeim fyrirspurnum, er jeg bar fram nú við umr. um fyrri hluta fjárlaganna. Jeg hefi heyrt, að hæstv. fjrh. (JÞ) ætli sjer að svara eftir að menn hafa gert grein fyrir brtt. sínum. En ef þeir svara ekki, þá mun jeg koma fram með sjerstakar fyrirspurnir, og verður það eigi síður til þess að tefja tíma þingsins heldur en ef þeim væri svarað nú. Hefir það og áður verið venja að tala nokkuð alment við 3. umr. fjárlaganna.