10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

1. mál, fjárlög 1927

Árni Jónsson:

Jeg vil leyfa mjer að segja nokkur orð um þá einn brtt., XLV, sem jeg á við þennan kafla fjárlagafrv., og flyt jeg hana ásamt nokkrum öðrum hv. þm.

Það hefir legið fyrir erindi frá Jóni Leifs um styrk, og hefir hann farið fram á að fá 4000 kr. í nokkur ár. Þetta hefir hv. fjvn. ekki treyst sjer til að taka upp, og við ekki heldur. Hann gerir ráð fyrir, að hann muni þurfa 5 ár til þess að leysa verkið af hendi, og líta sumir svo á, að ef styrkur er veittur næsta ár, eigi hann að standa í fjárlögum þangað til verkinu er lokið. En jeg vil taka það skýrt fram, að það er ekki meiningin, að Alþingi bindi sig nokkuð um framtíðina í þessu efni. Og eins og menn sjá, er fjárveitingin, sem nú er farið fram á, ekki nema ¼ af því, sem Jón fór fram á sjálfur.

Við 2. umr. fjárlagafrv. bar hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) fram brtt. um að veita fje til að rita menningarsögu þjóðarinnar. Var það þá rjettilega tekið fram, að við stæðum nú á tímamótum og að margt gott og gamalt væri í okkar sögu, sem safna þyrfti og skrá, svo að það liði ekki undir lok. Mjer finst þetta hliðstætt. Upphæðin er að vísu dálítið hærri, en þess ber að gæta, að ekki þarf neina sjerþekkingu til að rita menningarsögu, en það þarf mikla sjerþekkingu til þess að safna þjóðlögum og búa þau vel úr garði. Jón Leifs hefir bæði áhuga og þekkingu á þessu máli. Hann er í samvinnu við stórt þýskt fyrirtæki, er safnar lögum á hljóðrita. Hefir fjelagið boðið honum áhöld til þess að safna þjóðlögum hjer, og því má geyma þau eins og þau eru nú á vörum þjóðarinnar.

Jón Leifs hefir sýnt manna mestan áhuga fyrir íslenskum þjóðlögum. Jeg er ekki bær að dæma um menningargildi þjóðlaga, en með leyfi hæstv. forseta vil jeg leyfa mjer að lesa upp, hvað Jón Leifs segir um það efni (Skírnir 1922):

„Eðlilega hefir andi íslenskra þjóðlaga mótast af náttúru landsins og hörmungum þeim, sem á þjóðinni dundu. Djúpa alvöru flytja lögin og hrikaleik og harðneskju meiri en nokkur önnur þjóðlög. Þar er oft sem bitið sje á jaxl og tönnum gníst gegn örlögunum. Gleðskapar verður einnig vart, en þá lendir oft í harðgerum (groteskum) gáska og köldum hlátri. Ríkir þar ramíslenskur andi og sá norrænasti.“

Og ennfremur segir hann:

„Íslensku þjóðlögin má telja ímynd þess norrænasta og má, ef athygli fylgir, greinilega sjá, hvað norrænt býr í mestu tónskáldunum (Bach, Beethoven, Brahms, Reger o. fl.), og ber þar þó mikið á suðrænum sætleik.“

Þessi ummæli hans sýna það, að hann hefir mikinn áhuga og ást á þessu verkefni.

Hjer á landi hefir staðið mikill styr um þennan mann, vegna þess, að hann heldur fram kenningum, sem fara á bug við almenningsálitið. En um tónlistarstarfsemi hans skal jeg ekki fara mörgum orðum. Hún er öðrum hv. þdm. kunn. Hann stjórnar nú hljómsveit í Þýskalandi, og er það furða, að útlendingur skuli hafa komist svo hátt í mesta hljómlistarlandi heimsins. Hljómkviða hans var leikin í Þýskalandi í vetur og fjekk einróma lof. En það, sem einkennir Jón Leifs frá öðrum, er það, hvað hann hefir mikla trú á landi sínu og þjóð.

Jeg skal ekki fjölyrða meira um þetta, en vil benda á, að sjera Bjarni Þorsteinsson í Siglufirði hefir farið viðurkenningarorðum um Jón Leifs, og Einar Benediktsson skáld telur hann manna hæfastan til þess að taka að sjer þetta starf. Svo er og um aðra, sem hafa kynst honum. Jeg hugsa, að hv. þdm. þurfi aldrei að iðrast eftir því að ljá þessari brtt. atkv. sitt.