22.02.1926
Neðri deild: 12. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Flm. (Magnús Jónsson):

Ef ekki gefst sjerstakt tilefni til, mun jeg sneiða hjá að tefja umr. um þetta mál nú að sinni. Eins og hv. þdm. er kunnugt um, lá málið fyrir síðasta þingi og hefði þá gengið í gegn, ef það hefði ekki tafist svo mjög í nefnd hjer í Nd., að Ed. vanst ekki tími til að ljúka við það. Engin breyting hefir orðið á málinu síðan, önnur en sú, að Reykjavík er búin að búa við þessi óhæfilegu lög einu ári lengur, og í stað þess að bæjarstjórn vildi ekki í fyrra sleppa úr höndum sínum ákvörðunarrjetti um málið, hefir hún nú beiðst undan þeim vanda og farið fram á, að ríkisstjórnin noti heimild laganna frá 1917 til þess að afnema lögin með konunglegri tilskipun. Stjórnin hefir ekki orðið við þessu, enda væri ekki rjett að heimila, að lögin frá 1917 væru afnumin, en lögin frá 1921 væru látin standa eins fyrir því.

Þá skal jeg ekki orðlengja málið frekar, en óska, að því verði vísað til allshn. að umræðum loknum.