22.02.1926
Neðri deild: 12. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Jón Baldvinsson:

Mjer þykir leitt, að hæstv. atvrh. (MG) skuli ekki geta verið viðstaddur. Væri fróðlegt að heyra álit hans um þetta mál.

Annars vil jeg benda á það, að ef frv. þetta verður samþykt eins og það er nú, þá eru um leið numin burtu öll ákvæði, sem snerta húsaleigu í Reykjavík.

Að vísu fer þetta mál í þá nefnd, þar sem jeg á sæti, og mun jeg þá fá tækifæri til að gera athugasemdir mínar, en þó vil jeg spyrja háttv. flm. (MJ), hvort ekki sje full ástæða til þess að ganga ekki svona langt í að afnema lögin, heldur lofa lögunum frá 1921 að standa áfram. Jeg er sannfærður um, að ef lögin verða numin úr gildi, verða mikil vandræði fyrir fátækari hluta almennings að fá húsnæði. Margir sitja nú í skjóli laganna. En allir sjá, að óheppilegasti tíminn til þess að flytja út er einmitt haustið. Þá er engar ráðstafanir hægt að gera til að byggja yfir fólkið, ef til þess kæmi. Ef lögin verða numin úr gildi, ætti þá að minsta kosti að lengja tímatakmarkið frá 1. október 1926 til 14. maí 1927.