22.02.1926
Neðri deild: 12. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Jakob Möller:

Út af ræðu háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) vil jeg geta þess, að jeg fyrir mitt leyti mun greiða atkvæði með því, að lögin frá 1921 fái að standa áfram, og einnig finst mjer það mjög sanngjarnt, að fyrir l. október 1926 komi í frv. 14. maí 1927. Í brjefi frá borgarstjóra er gert ráð fyrir, að segja megi mönnum upp húsnæði frá 1. október 1926, og virðist því, sem bæjarstjórnin álíti, að ekkert sje því til fyrirstöðu. En þess ber að gæta, að þá fer vetur í hönd og viðurhlutameira að láta húsnæðisuppsagnir fara fram alment á þeim tíma. Betra að hafa sumarið fyrir sjer. Hinsvegar hafa lög þessi þegar staðið fulllengi. Mjer finst það harla nærgöngult eignarrjetti manna og jeg er í engum vafa um, að þau gera ilt að mörgu leyti, t. d. hindra þau menn í að byggja. Nú fer málið til nefndar og þar fær hv. 2. þm. Reykv. tækifæri til að hafa sín áhrif á það, og vona jeg, að samkomulag náist.