22.02.1926
Neðri deild: 12. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Flm. (Magnús Jónsson):

Hv. meðflm. minn (JakM) hefir þegar tekið fram ýmislegt af því, sem jeg vildi taka fram. Hæstv. atvrh. í (MG) hefir sagt mjer, að fyrir sjer hafi vakað, að vafasamt væri. Hvort heimild laganna frá 1917 um afnám þeirra með konunglegri tilskipun væri lengur í gildi, eftir að lögin frá 1921 hefðu verið sett og þar ákveðið, hvernig fara skyldi með þessi lög. Og í öllu falli mundu lögin frá 1921 standa óbreytt eftir, þó að kgl. tilsk. væri út gefin. En jeg fyrir mitt leyti er andvígur því, að lögin frá 1921 fái að standa áfram. Annaðhvort vil jeg afnema alt eða ekkert. Ef lögin frá 1921 eru látin standa, þá getur bæjarstjórnin sett reglugerð um húsnæði, sem væri engu betri en húsaleigulögin.

Hvað tímatakmarkið snertir, get jeg vel fallist á að setja 14. maí 1927 fyrir 1. október 1926. Það finst mjer mjög sanngjarnt.

Rannsókn um orsakir dýrtíðarinnar í Reykjavík hefir leitt í ljós, að húsaleiga sje of há, jafnvel samanborið við byggingarverð húsa nú. Jeg er alveg viss um það, að ein ástæðan til þess, að ekki er bygt hjer í Reykjavík — enda þótt það mundi svara kostnaði — er, að húsaleigulögin eru enn í gildi. Það er nú einu sinni svo, að menn vilja heldur vera sjálfráðir um eignir sínar en þurfa að hlíta afskiftum annara um þær. Jeg veit til þess, að margir menn hafa bygt neðri eða neðstu hæðir í húsum sínum þannig, að þær yrðu að notast sem sölubúðir eða skrifstofur, eingöngu af því, að þeir hafa ekki viljað beygja sig undir íhlutun bæjarstjórnarinnar og húsaleigulaganna, enda þótt þeir ella hefðu verið fúsir til að gera þarna íbúðir. Þannig er jeg viss um, að allmiklu húsrúmi er forðað frá því að falla undir húsaleigulögin. Og hvað sem um það hefir verið og verður sagt, að einstaka menn kunni að hafa haft hag af því, að þessi lög voru sett, er jeg þó viss um hitt, að þegar til lengdar lætur, verður það öllum almenningi til bóta að afnema húsaleigulögin.