22.02.1926
Neðri deild: 12. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Jón Baldvinsson:

Bæjarstjórnin hefir ekki farið fram á annað við stjórnina en að húsaleigulögin frá 1917 verði afnumin, og jeg tel víst, að bæjarstjórnin hefir ætlast til, að hin lögin stæðu áfram.

Um það, sem hv. flm. (MJ) sagði, að húsaleigulögin væru því til fyrirstöðu, að menn bygðu, vil jeg segja það, að þetta mun alls ekki vera rjett. Jeg hygg, að menn mundu byggja, ef menn gætu fengið nægilega löng og hentug lán til bygginganna. Aðalástæðan til þess, að ekki er bygt, er sú, að peningar fást hvergi með sæmilega aðgengilegum kjörum, og það fást jafnvel alls ekki heldur peningar til að byggja fyrir með ókjörum. (TrÞ: Já, og svo er það gengishækkunin). Nei, gengishækkunin kemur þar ekki til greina. En út í þau mál fer jeg ekki nú; við fáum hjer eflaust síðar tækifæri til að ræða þau.

Jeg ætla ekki að fara að rugla gengismálinu saman við þetta mál, en hitt skil jeg, að háttv. þm. Str. (TrÞ) getur ekki hugsað um annað en gengismálið; honum er það svo hugleikið. En jeg læt hann ekki teygja mig þar neitt út af leið.

Hvað sem hv. flm. þessa frv. annars segja um þetta mál, vil jeg taka það fram, sem og er kunnugt, að jeg er yfirleitt andvígur því, að farið verði að hrófla við húsaleigulögunum, en þó tel jeg til bóta, ef lögin frá 1921 standa áfram, svo sem mjer skildist hv. 3. þm. Reykv. (JakM) ganga inn á, en hann er meðflutningsmaður þessa frumvarps, og ætti því að geta ráðið þessu.