08.04.1926
Neðri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg stend aðeins upp sem þm. þessa bæjar, til þess að mótmæla brtt. hv. þm. Mýr. (PÞ). Það hefði í mínum augum vel getað komið til mála, að löggjafarvaldið hefði gert breytingu á húsaleigulögunum, til þess að nota það sem millibilsástand eða aðdraganda þess, að mönnum yrðu gefin frjáls umráð yfir þessum eignum sínum. Engin tillaga hefir samt komið fram um það, en hitt álít jeg óverjandi, að leggja annan eins rjett yfir eignum manna og lögin frá 1921 gera í hendur bæjarstjórnarinnar, þegar löggjafarvaldið að öðru leyti er búið að fella úr gildi allar sjerstakar ákvarðanir um húsaleigu, sem sett voru vegna stríðsins.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) lýsti því rjettilega, hve sterkt vopn þetta geti orðið í höndum bæjarstjórnarinnar, en það er jafnsterkt band á þeim bæjarbúum, sem þurfa að búa við það. Jeg verð að segja það, að eftir minni þekkingu á þessum málum get jeg engan veginn álitið það rjett af löggjafarvaldinu að kasta allri ábyrgð frá sjer og leggja í hendur bæjarstjórninni. Borgarar bæjarins eiga rjett á, að löggjafarvaldið sjálft setji á formlegan hátt þau ákvæði, sem þarf, einkanlega ef á að ganga svo langt í rjettarskerðingu, sem búast mætti við, að bæjarstjórnin gerði, ef hún væri skipuð þeim mönnum, sem meta lítils eignarrjett einstaklingsins. Hingað til hefi jeg ekki skift mjer af þessu máli að öðru leyti, en jeg álít verra, að samþykt verði þetta frv. með brtt. hv. þm. Mýr. en að láta alt standa við það, sem nú er. Jeg segi fyrir mig, að verði þessi brtt. samþykt, mun jeg greiða atkvæði á móti frv.