08.04.1926
Neðri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það kann að vera, að jeg hafi greitt atkvæði með lögunum 1921. Mjer þykir það ekki ósennilegt. Þá voru lögin sett sem tilraun til að fá bráðabirgðaákvæði fyrir millibilsástand. En afstaða mín til málsins nú hefir mótast af því, sem gerst hefir á þessum 5 árum. Bæjarstjórnin hefir gert endurteknar tilraunir til þess að nota heimildina, og allar tillögur, sem þar hafa náð fylgi, hafa farið lengra í þvingun gagnvart húseigendum en sjálf húsaleigulögin. Jeg veit ekki, hvort háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) er ljóst, að þegar svona er komið, get jeg ekki álitið forsvaranlegt að skilja þannig við málið. Það, sem hefir bjargað því, að bæjarstjórninni hefir ekki tekist að stefna þessu máli út í hreinustu ógöngur, er það, að menn hafa haft húsaleigulögin og getað fallið til baka á þau, þegar svo var komið í bæjarstjórninni, að það fjekst ekki meiri hluti fyrir neinu. Það er veruleg hætta á, að bæjarstjórnin misbrúki þetta vald, og ekki er hægt að byggja á, að stjórnarráðið synji. Því er lítið synjunarvald gefið, enda var það eiginlega tilviljun ein. Bæjarstjórnin fór lengra gagnvart utanbæjarmönnum en landslög leyfa, og var því neitað staðfestingar. En jeg sje ekki, að stjórnarráðið gæti að neinu verulegu ráði verndað rjett manna innanbæjar gagnvart bæjarstjórninni, ef svona er á haldið. Auðvitað gæti svo þingið tekið í taumana eftir á, en það finst mjer í hæsta máta óeðlilegt.

Það eru tvö atriði í húsaleigulögunum, að húseigendur eru sviftir rjetti til þess að ráða því, hverjir eru í húsunum, og skipuð er nefnd, sem ákveður hámark leigu. Jeg held, að það sje alment samkomulag, að hið fyrra eigi að afnema, en um hitt atriðið eru skoðanirnar skiftari, og það var þetta, sem jeg átti við, þegar jeg sagði, að jeg mundi geta felt mig við millibilsástand. Nú hefir bæjarstjórnin sýnt, að hún hefir tilhneigingu til þess að fara lengra en húsaleigulögin fara í því að taka af húseigendum rjettinn til þess að ákveða, hverjir búi í húsum þeirra, og þar sem jeg álít, að þann rjett eigi húseigendur fyrst og fremst að fá, get jeg alls ekki fallist á brtt. hv. þm. Mýr. (PÞ), því að jeg hugsa, að hún þýði það, að rjettur manna verði skertur meira en verið hefir hingað til.