10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

93. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg á brtt. við frv., á þskj. 303. Þar sem frv. skyldar bæjar- og sveitarstjórnir til að leita samkomulags við skipulagsnefndina um öll þau hús, sem bygð eru eða byggja á, þar til skipulagsuppdráttur er fullgerður, fer jeg með brtt. minni fram á, að þessi skylda nái ekki til annara húsa en opinberra bygginga. Ef þessi breyting verður ekki gerð á frv., leggur það allþunga kvöð á herðar íbúa bæjar- eða sveitarfjelaga, sem hlut eiga að máli, þar eð bæjarstjórnir og byggingarnefndir geta þá ekki afgreitt byggingarleyfi, nema að áður þar til fengnu samþykki skipulagsnefndar, sem búsett er í Reykjavík og er svo störfum hlaðin, að engu má á hana bæta að heita má. Að vísu er skipulagsnefndin sæmilega nærri mínum kjósendum, og þarf jeg því ekki þeirra vegna um þetta að fást. En jeg hygg, að dráttur á afgreiðslum byggingarleyfa o. fl. sje og verði nógu langur, þó ekki komi til fleiri stjórnarvalda að fjalla um þau en nú er. Jeg get vel dæmt um þetta af eigin reynslu hjer í Reykjavík; jeg á t. d. sjálfur erindi hjá byggingarnefnd Reykjavíkur, sem nú er orðið þar ársgamalt, og er þó ósvarað ennþá. Er þá sýnt, að drátturinn á svarinu yrði ekki minni, ef slík erindi ættu að ganga á milli fleiri stjórnarvalda, er nú gengur ekki betur afgreiðslan en þetta. Jeg tel ekki eðlilegt, að bæjarstjórnir þurfi að leita samkomulags við skipulagsnefnd um annað en allar meiri háttar byggingar, sem eru sjálf skipulagsatriði; en algeng hús og annað ætti ekki að heyra þar undir, nema um nýja vegi eða götur sje að ræða, sem auðvitað er fyrirskipað að bera undir nefndina, því að það eru bein skipulagsatriði.

Jeg vænti þess, að háttv. deild samþykki þessa brtt. mína; en jeg er í vafa um, þótt brtt. verði samþ., hvort rjett sje þá að auka svo mikið á vald það, sem skipulagsnefnd þegar hefir verið fengið í hendur, sem frv. gerir.