27.03.1926
Efri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

75. mál, sala á kirkjujörðinni Snæringsstöðum í Vatnsdal

Frsm. (Jónas Jónsson):

Mentmn. hefir haft þetta frv. til meðferðar og komist að þeirri niðurstöðu, meðal annars eftir að hafa talað við hæstv. forsrh., að það væri rjett að mæla með því, að þetta frv. gangi fram óbreytt.

Eins og háttv. þdm. er kunnugt af ræðu háttv. flm. (GuðmÓ) við 1. umr. málsins, þá stendur þannig á í Vatnsdal, að þessi jörð hefir verið hjáleiga frá höfuðbólinu Undirfelli. Á síðastliðnu sumri var sú jörð seld, en ríkissjóður á eftir þetta smábýli, sem er nær húsalaust og í hálfgerðri niðurníðslu:

Sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu hefir mælt svo fyrir, að þetta litla kot skuli ekki selja einstökum manni, af því að það sje vel fallið til að vera skólastaður fyrir sveitina: Í öðru lagi hefir hreppsnefnd Áshrepps beðið eftir að fá jörðina keypta í þessum tilgangi. Nú sem stendur er hún í ábúð, sem þessi sala breytir engu um.

Af því að jeg er dálítið kunnugur á þessum slóðum, get jeg upplýst það, að þessi jörð er einstaklega vel í sveit sett, í miðjum Vatnsdal. Getur frá því sjónarmiði ekki hugsast betri staður fyrir barnaskóla, því börnin mundu geta gengið í skólann og heim, og ef þar yrði að einhverju leyti heimavistarskóli síðar, þá fylgja þessari hentugu legu ýmsir kostir auðvelt um heimsóknir o. s. frv.

Jeg held þess vegna, að eins og málið er undirbúið og eins og mikil nauðsyn er á að byrja á því að hlynna að barnaskólum í sveitum, og að þeir hafi fastan stað, þar sem kennarar geti átt heimili, þá finst mjer þetta að öllu leyti vera spor í rjetta átt.