22.03.1926
Neðri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

80. mál, veiting Sveinbirni Högnasyni embætti á Íslandi

Flm. (Magnús Jónsson):

Þegar háskólinn hjer var stofnaður, voru margir hræddir um, að stúdentar myndu halda áfram að nema við Kaupmannahafnarháskóla þær fræðigreinar, sem kendar eru hjer, fyrst og fremst af vana og jafnframt af því, að Garðstyrkurinn stóð þá öllum íslenskum stúdentum til boða, og hann gátu þeir fengið 4 fyrstu árin, sem þeir voru þar við háskólann. Þetta meðal annars var ástæðan fyrir því, að margir óttuðust, að háskóli okkar, sem að öllu leyti var minna vandað til, yrði undir í samkepninni. Það var því líka til að vernda hann, að lögin 11. júlí 1911 um forgangsrjett kandídata frá honum til embætta voru sett. En nú hafa menn sjeð fyrri löngu, að ákvæði þetta er með öllu orðið óþarft, meðal annars af því, að Garðstyrkurinn er fallinn niður, en styrkurinn til íslenskra stúdenta við erlenda háskóla er bundinn því skilyrði, að þeir nemi þau fræði, sem ekki eru kend hjer.

Eins og nú er komið, getur því ekki komið til mála, að íslenskir stúdentar nemi erlendis þær fræðigreinar, sem ekki eru kendar hjer, nema einhver alveg sjerstök atvik liggi til.

Að farið var að hreyfa þessu nú var fyrir sjerstakt tilefni. Guðfræðikandídat frá Hafnarháskóla. Sveinbjörn Högnason að nafni, hinn efnilegasti maður í hvívetna og með ágætu prófi, sækir nú fyrir nokkru um prestsembætti hjer. Til þess nú að geta fengið embættið, þarf hann að ganga undir guðfræðipróf hjer. En það mun hann aldrei gera. Að setja slíkt skilyrði yrði aðeins til þess, að hann hyrfi með öllu frá þessari ætlun sinni og fengi sjer prestsembætti í Danmörku, sem að mörgu leyti eru miklu betri en hjer. Og hygg jeg, að jafnefnilegur maður sem hann myndi fljótt fá þar embætti, en það hygg jeg, að væri tvímælalaust skaði, að missa slíkan mann.

Að ekki hefir verið fyr komið fram með tillögur um almenna undanþágu frá lögunum að þessu leyti, er fyrir þá sök, að deildir háskólans hafa ekki allar verið sammála um það. Er því hjer aðeins farið fram á undanþágu fyrir guðfræðikandídata. Við í guðfræðideild höfum athugað þetta og ekki getað sjeð, að slík undanþága yrði til skaða, heldur þvert á móti. Aðeins gæti komið til mála að einstrengja undanþáguheimildina ekki við háskóla Norðurlanda, heldur láta hana vera fyrir erlenda háskóla.

Skal jeg svo ekki tefja tímann frekar, en óska, að þessi háttv. deild lofi málinu að ganga til 2. umr. og mentamálanefndar.