10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það hefir ræst, sem jeg sagði, að ekki myndi ganga eins greiðlega að afgreiða þennan hluta fjárl. eins og hinn fyrri, því að komið er á annan dag síðan umr. um hann hófust og mikið eftir, þótt ljúka eigi þeim í dag.

Jeg ætla þá fyrst að víkja að þeim hv. þm., sem snúist hafa á móti tillögum fjvn., og síðan gera grein fyrir afstöðu nefndarinnar gagnvart till. einstakra hv. þm.

Mjer þykir mjög leitt að þurfa að snúa mjer að meðnefndarmanni mínum, háttv. 2. þm. Skagf. (JS). Mjer kom það mjög á óvart, að hann skyldi finna hvöt hjá sjer til þess að halda slíka ræðu sem hann flutti í garð nefndarinnar. Hann sagði oft: „Við íhaldsmenn í nefndinni.“ Það kom fyllilega í ljós í ræðu hans, að um einhverja flokkslega afstöðu hefði verið að ræða í nefndinni. Jeg vil lýsa yfir því, að mjer kom þetta mjög á óvart og mjer er óhætt að fullyrða, að jeg geti sagt það fyrir hönd minna flokksmanna í nefndinni, að við höfum ekki starfað þar sem neinir flokksmenn, heldur unnið þar fullkomlega „loyalt“ starf, og hefir það altaf verið efst í huga okkar. Hinsvegar dreg jeg það mjög í efa, að hann hafi haft umboð frá flokksbræðrum sínum í nefndinni til þess að láta þetta koma fram. Jeg vil efa það, að allir íhaldsmennirnir í nefndinni hafi starfað í henni með slíka hugsun. Það kann að vera, að jeg hafi dregið of mikið út úr orðum hv. þm., jeg vona það, og getur hann þá leiðrjett það.

Svo fór hv. þm. að lýsa yfir sjerstöðu sinni í ýmsum atriðum. Hann byrjaði með því að segja: „Við íhaldsmenn vorum á móti því að hækka tekjubálkinn.“ (JS: Þetta er ekki alveg rjett með farið). Jeg hefi skrifað upp þessi orð hv. þm. Jeg hefi nú fyrir mjer gerðabók fjvn., þar sem atkvgr. um þetta er bókuð. Á 33. fundi nefndarinnar voru samþyktar fimm brtt. um hækkun á tekjubálkinum. Sú fyrsta, hækkun á útflutningsgjaldi, var samþykt í einu hljóði. Önnur, hækkun á tóbakstolli; var samþykt með 6 shlj. atkv. Sú þriðja, hækkun á áfengistolli, var samþykt með 4:3 atkv., og sú fjórða, hækkun á víneinkasölunni, samþykt með 6:1 atkv.

Aðeins um einn liðinn, áfengistollinn, voru skiftar skoðanir, þar sem hann var samþyktur með 4:3 atkv., og er þá best að geta þess, að þeir, sem greiddu atkv. á móti, voru flokksmenn hv. 2. þm. Skagf. Hinar hækkunartill. voru samþyktar samkvæmt till. frá undirnefnd, sem bar fram þessar till., og átti háttv. 2. þm. Skagf. sjálfur sæti í þeirri nefnd og bar fram þessar till. Þess vegna er það röng mynd af nefndinni, sem háttv. þm. dregur hjer upp, ef hann segir: „Við íhaldsmenn vorum á móti þessu.“ Sjest það líka best á því, að um meira en 5/6 af tekjuhækkunartill. eru 6 shlj. atkv., svo að það, sem hv. þm. talar um, gildir aðeins um 1/6 af till. Í sambandi við þetta vil jeg segja annað, að tveir íhaldsmenn skárust úr leik, þegar stærsta sparnaðarmálið, sem kom fyrir nefndina, var afgreitt, og greiddu atkvæði á móti því. Þeir voru á móti því að halda stefnu undanfarinna þinga, að spara tildursmannahald í Kaupmannahöfn. Mjer var það gleðiefni, að einn íhaldsmaður. hv. þm. Borgf. (PO) stóð með nefndinni í því að halda stefnunni. Mjer þótti það leiðinlegt, að hv. þm. skyldi koma inn á það að tala um, að nefndarmennirnir hefðu verið flokkslitaðir; við höfum alls ekki viljað starfa með slíkt í huga og jeg hefi ekki vakið upp neitt slíkt, heldur hv. 2., þm. Skagf.

Þá kastaði þessi hv. þm. því til mín, að mjer hefði láðst að geta þess, að nefndin hefði verið klofin um ýms mikilsverð atriði. Já, mjer hefir 1áðst það, og ekki aðeins mjer, heldur líka frsm. fyrri hl., hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ). Jeg veit ekki til þess, að það hafi verið regla að segja frá klofningi í fjvn., nema sjerstaklega hafi staðið á. Það hefir verið svo um mig eins og hv. þm. V.-Húnv., að þótt við höfum greitt atkvæði á móti ýmsum till. þá höfum við samt talið rjett að fylgja nefndinni í heild sinni að málum, enda hefir verið mikill vilji í nefndinni að standa saman.

Það voru 3 till. nefndarinnar, sem hv. 2. þm. Skagf. talaði sjerstaklega á móti, brtt. um prestsþjónustuna, sem nefndin tók upp, að fá mann til að ferðast um og flytja erindi til andlegrar vakningar, og er það þetta, sem hv. þm. Barð. (HK) kallaði póstprestinn; brtt. um íþróttaskólann í Þingeyjarsýslu og stúdentagarðinn.

Jeg er nú fyrir mitt leyti ekkert óánægður yfir því, ef hann (JS) vill marka stefnu íhaldsins með því, að það sje á móti því að auka íþróttir í landinu, móti því að efla andlegt líf þjóðarinnar og móti því að hlynna að stúdentunum. Jeg er fyrir mitt leyti ekki á móti því, að íhaldið marki stefnu sína með því að vera á móti öllu þessu.

Það er rjett, sem hv. þm. sagði, að margar leiðir væru til að efla andlegt samband á milli einstakra landshluta. Nefndin vill alls ekki einskorða sig við að álíta aðeins eina leið nauðsynlega til að efla andlegt líf í landinu; það má fara fleiri leiðir, en þessi er góð, og hana vill meiri hl. fara. Þá sagði hv. þm., að þetta væri alveg einstakt í sinni röð og óþekt hjer á landi og ætti sjer ekki stað á öðrum sviðum. Jeg sje ekki neitt því til fyrirstöðu að hafa t. d. sendifarandlækna. Jeg veit ekki betur en að tveir augnlæknar sjeu styrktir til að ferðast um landið. Hv. þm. talaði um, að hjer væri verið að stofna nýtt embætti með litlum undirbúningi. Þetta er ekki rjett. Þetta á því aðeins að gera, að fje sparist á öðrum sviðum. Kirkjustjórnin á að ráða því, hvernig þetta verður framkvæmt, og það er fullkomin trygging fyrir því, að þessu fje verði vel varið. Og það er svo vel frá þessu gengið, að á betra verður ekki kosið. Það er rjett, að þetta verður ekki til að spara prestsþjónustu, það á alls ekki að vera til þess, heldur til þess að fá meiri þjónustu, meiri uppvakningu. Jeg játa það á mig, að jeg er því yfirleitt ekki fylgjandi að spara prestsþjónustu.

Það hefir annar íhaldsmaður, hv. 4. þm. Reykv. (MJ), mælt með þessari till., og skil jeg það vel. Mjer þótti vænt um það, hve vel hann tók þessari till., sem hans var von og vísa.

Þá sagði hv. 2. þm. Skagf. það, sem mjer sárnaði mest, og ljet það vera sín síðustu ummæli í garð nefndarinnar, að það væri eins og fjvn. væri að gera sjer leik að því að gera sem mestan tekjuhalla á fjárlögunum. Það kann vel að vera, að jeg misskilji hv. þm., en ef þetta er hans fulla meining, þá vil jeg algerlega vísa þessum ummælum á bug sem ómaklegum í garð nefndarinnar.

Þá hafa tveir aðrir hv. þm. beint orðum sínum að nefndinni, hv. þm. Ak. (BL) og hv. þm. Barð. (HK). Hv. þm. Ak., sem nú er ekki viðstaddur, ljet þung orð falla í garð nefndarinnar. Jeg tel það mjög óviðkunnanlegt, að þm. sjeu að skamma nefndina, rjúki síðan út og sjeu ekki viðstaddir, þegar þeim er svarað. Vil jeg ekki beina orðum mínum að honum að sinni, fyrst hann er fjarverandi, og læt það bíða þangað til hann er kominn. Þykir mjer þó leitt, að hann er dauður og getur ekki svarað. (BL: Jeg er kominn).

Hv. þm. Barð. hjelt skemtilega ræðu. Hann talaði alls ekki hart í garð nefndarinnar, heldur aðallega fyrir sínum till. Síðan sagðist hann ætla að gera aths. við „allra stærstu“ till., þá fyrstu, átakanlegustu og mestu misfelluna á ráði nefndarinnar, póstprestinn, sem hann nefndi svo. Það hafa nú margir vegið í þann knjerunn, og getur verið, að það takist að fella þessa till. (HK: Svo ætti að verða). Hv. þm. segir það vera fáránlegt að launa presta til þess að fara um og prjedika. Er þá ekki eins fáránlegt að launa presta og kennara yfirleitt? Hver er munurinn á því, hvort einhver maður er launaður til að prjedika víðar en á einum stað eða hvort hann prjedikar altaf á sama staðnum sem embættismaður? Munurinn er enginn frá sjónarmiði prjedikunarstarfseminnar. Annars var hv. þm. skemtilegur og fyndinn í ræðu sinni. Hann gerði ráð fyrir því, að hann áttaði sig ekkert betur hinumegin, þótt póstpresturinn hefði prjedikað yfir honum. Fór honum þar líkt og Hrana Konráðssyni, er hann ugði, að óviss myndi gistingin. Sumir prestar segja, að nauðsynlegt sje að hafa aðhald með mönnum á þann hátt að segja þeim, að gistingin sje óviss, svo að þeir finni hvöt hjá sjer til að vanda sig, svo að gistingin verði vissari. Jeg beini þessu ekkert sjerstaklega að hv. þm. Barð.

Jeg man ekki, hvort hv. þm. kom með það að þetta væri gert á móti vilja presta úti um land, þeir væru leiðir yfir þessu tiltæki nefndarinnar. Þetta er alls ekki rjett. Óskir um þetta komu frá Prestafjelaginu, samkvæmt tillögu prestastefnunnar síðastliðið vor, og Prestafjelagsstjórnin fagnar því mjög, ef þetta verður tekið upp.

Það gleður mig að sjá, að hv. þm. Ak. er kominn. Jeg ætla ekki að tala mikið til hans, af því að svo stendur á, að hann hefir talað sig dauðan og getur ekki gert aths. Enda hefir hv. þm. S.-Þ. (IngB) tekið af mjer ómakið að svara því, sem hann fór út í fjárhagsmál Laugaskólans, svo að jeg fer ekki út í það. En jeg vil lýsa yfir því af minni hálfu, að jeg álít um mjög ójafnan leik hafa verið að ræða milli þessara tveggja hv. þm. Hv. þm. S.-Þ. stendur hjer fyllilega sem rjettur fulltrúi Þingeyinga í þessu máli, sem vilja láta skólann standa á þeim menningargrundvelli, sem þeir hafa lagt. Það er hann, sem stendur hjer í samræmi við bestu menn Þingeyinga, en ekki hv. þm. Ak.

Hv. þm. sagðist hafa talað á móti skólanum af því, að jeg hefði talað með honum. Jeg talaði af því, að jeg hafði heyrt andúð frá þessum hv. þm. til skólans. Þess vegna skýrði jeg málið og las upp úr erindum Jóns Gauta, Sigurðar Bjarklinds og Arnórs Sigurjónssonar og Björns Jakobssonar. Tel jeg mjer það mikinn sóma að hafa flutt mál þessara góðu Þingeyinga. Jeg ætla ekki að fara út í fjármál skólans, en ætla þó að víkja að einu atriði. Hv. þm. áfeldi það, að lán hvíldu á Laugaskóla og sagði, að það væri alveg einstætt tilfelli. Hv. þm. veit þó, að lán hvíla á öllum skólum; svo er um Blönduósskólann, og er meira að segja till. við þessa umr. um að gefa eftir viðlagasjóðslán, sem hvílir á honum, af því að það beri að skoða sem byggingarstyrk, sem ríkið hafi átt að leggja fram til þessa skóla eins og annara samskonar skóla. Á Hvítárbakkaskólanum hvílir stórt lán, og jeg efa það ekki, að þegar hjeraðsskóli Árnesinga verður reistur, þá verði tekið lán, en fólkið í hjeraðinu standi undir honum og borgi starfrækslukostnað hans að sínum hluta.

Jeg ætla ekki að tala langt mál á móti hv. þm. Barð. og hv. þm. Ak., sem báðir hafa lagst á móti íþróttaskólanum. Jeg hefi lesið upp erindi Þingeyinganna og tel mjer sóma í því að standa með þeim í þessu máli, og jeg geri fastlega ráð fyrir því, að þetta góða mál nái fram að ganga.

En jeg vil aðeins segja eitt þessum hv. þm. til umhugsunar. Fyrir ca. 30 árum skrifaði norðlenskur bóndi grein í Fjallkonuna um íþróttir. Talaði hann um, hvílík fjarstæða það væri að kenna íþróttir í Möðruvallaskóla. Jeg efast ekki um, að ef átt hefði að fara fram atkvæðagreiðsla um slíka till. sem þessa þá, að hún hefði verið steindrepin. Svona eru skoðanir manna orðnar breyttar í þessu efni. Nú er líkamsmenningin álitin einn merkilegasti þáttur menningar hverrar þjóðar, og jeg er viss um, að þegar við hv. þm. Ak. erum báðir komnir undir græna torfu, þá mun síðari kynslóð dæma svo, að við hefðum haft á rjettara að standa í því að mæla með því sem bestu menn Þingeyinga hafa borið fram, en hinir, sem mælt hafa á móti því.

Þá vík jeg ekkert frekar að þeim hv. þm., sem talað hafa á móti nefndinni, en ætla að víkja að brtt. einstakra þm. Það er ekkert áhlaupaverk, því að þær eru alls 50. Tek jeg þær ekki í þeirri röð, sem þær eru á þskj., heldur eins og þær verða bornar upp til atkvgr.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) flytur brtt. á þskj. 297, XXVII um hækkun á erfiðleikauppbót til Ögurþinga. Jeg gat þess við 2. umr., að biskup mælir með þessu. Nefndin hefir sett 300 kr. og heldur fast við það. En jeg vil vekja athygli á því, að ekki er rjett að orða það svo, að prestur missi aukatekjur af prestsmöt unni, því að hún á að vera hæfilega metin upp í laun hans.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakbM) og hv. 2 þm. Árn. (JörB) flytja brtt. á þskj. 304 II um ferðastyrk vegna stúdentaskifta Það lá ekkert fyrir nefndinni um þetta og getur nefndin þess vegna ekki mælt með till.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) flytur brtt. á þskj. 297, XXVIII um styrk til Markúsar Kristjánssonar til háskólanáms erlendis. Það lá erindi fyrir nefndinni um þetta, og sá hún ekki ástæðu til að veita þennan styrk og getur því ekki mælt með því, að þessi brtt. nái fram að ganga.

Meiri hluti mentmn. flytur brtt. á þskj. 304,IV um launauppbót til stundakennaranna Önnu Bjarnadóttnr og Einars Magnússonar. Um þetta erindi er það að segja, að það hefir komið til þriggja nefnda, fjvn. og hv. fjhn. og mentmn. Fjhn. er á móti því að breyta launalögunum og meiri hl. fjvn. getur ekki stutt till. Annars eru óbundin atkv. um hana, og eins um brtt. 297,XXIX, frá hv. 2. þm. Eyf. (BSt), um styrk til framhaldsnáms fyrir nemendur gagnfræðaskólans.

Þá er till. um skólagjöld, 297,XXX, frá fjhn. tekin aftur.

Þá er brtt. frá fjvn. á þskj. 322, við brtt. 297,XXXI, frá hv. 1. þm. S.-M. o. fl. um barnaskólahús. Nefndin vill hækka styrkinn upp í 20 þús. kr. og leggur því á móti frekari hækkun, sem till. þessara hv. þm. fer fram á, eða upp í 37 þús. kr. Annars er nefndin á móti því „principi“ að búta þetta niður í fjárlögunum og skifta upphæðinni þar niður á milli skólanna. Hún vill hafa fasta, jafna upphæð, sem kenslumálastjórnin ráðstafi, en ekki fá alt of mikið í einu, eða að hlutfallslega of mikið komi á eitt ár. Það þarf að vera eitthvert hóf á því, hvernig þetta greiðist á hverju ári.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) gerði grein fyrir styrknum til Helga Hjörvars til þess að kynna sjer kenslu- og uppeldismál (þskj. 297,XXXIII). Nefndin hefir ekki tekið afstöðu til þessarar till., en jeg hygg, að meiri hl. sje henni mótfallinn, en annars óbundin atkv.

Næst kemur brtt. 297,XXXV, frá hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), um að hækka tillagið til Flensborgarskólans um 3 þús. kr. Hann hóf mál sitt með því að lesa upp erindi frá skólanefndinni um að fella niður skólagjöldin. Mjer skilst, að eitthvert samband sje á milli þessa erindis og till., sem hjer var til 2. umr., um að fella niður skólagjöldin, vegna. þess að skólanefndin hafi verið hrædd um, að tekjur skólans rýrnuðu við það. En nú er búið að fella brtt. um að gjöldin falli niður, og missir þá Flensborgarskóli ekki þessar tekjur sínar.

Um Flensborgarskólann er það að segja, að hann á mikla og merkilega sögu og hefir leyst af hendi mikið og gott starf. En hann er alveg einstakur í sinni röð. Hann er eini unglingaskólinn, sem hlutaðeigandi hjerað leggur ekkert til, þar sem aðrir samskonar skólar eru reknir með styrk hjeraðanna. Að þessu leyti er skólinn alveg sjerstæður. Getur nefndin því ekki mælt með þessari hækkun.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) flytur fyrir hv. þm. Dal. (BJ) brtt. 297,XXXVII, um eftirgjöf á eftirstöðvum viðlagasjóðsláns Dalasýslu til Hjarðarholtsskólans. Hv. þm. mæltist til þess, að hv. deild skilaði þó ekki væri nema einu prestslambinu lifandi, og má vera, að hún sjái það sem ástæðu til að lofa till. að lifa. En meiri hl. nefndarinnar getur ekki verið með þessu.

Næsta till., frá hv. þm. Barð., 297, XXXIX, er tekin aftur.

Hv. 1. þm. S.-M. flytur brtt. 297,XL, við styrkinn til skálda og listamanna, að í staðinn fyrir 1000 kr. lægstu styrkveitingu komi 600 kr. Nefndin fellst ekki á þetta. Styrksins verða minni not, ef veittar eru minna en 1000 kr. hverjum. Annars vísa jeg til þess, sem jeg sagði við 2. umr. um þetta.

Hv. þm. Ak. flytur till. um að veita leikfjelagi Akureyrar 1000 kr. styrk. Meiri hl. nefndarinnar getur ekki samþykt þessa tillögu.

Nú koma þeir hver af öðrum listamennirnir. Nefndin leggur á móti þeim öllum. Jeg veit annars ekki, til hvers verið er að veita 10 þús. kr. styrk í fjárlögum til listamanna, ef svo á eftir sem áður að veita styrki í allar áttir.

Viðvíkjandi styrk til frú Guðrúnar Indriðadóttur er það að segja, að ekkert lá fyrir nefndinni um það, og eru því óbundin atkvæði um þá till.

En nefndin getur ekki fallist á að veita styrk til Jóns Stefánssonar málara, eða til Ásmundar Sveinssonar til Rómaferðar, eða á till. 297,XLIV, frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM), um styrk til þriggja listamanna, tveggja söngmanna og eins rithöfundar. Tvær þessar till. eru afturgöngur, en sú þriðja er alveg ný, og er nefndin á móti þeim öllum.

Næst koma 6 hv. þm. með till. á þskj. 297,XLV, um að veita Jóni Leifs 5000 kr. styrk til að safna íslenskum þjóðlögum og vinna úr þeim. Mælti hv. 2. þm. N.-M. rösklega fyrir till. Það má búast við því, að þessi till. hafi mikið fylgi, þegar svona margir flytja hana. Erindi lá fyrir nefndinni, sem hún sinti ekki. En samkvæmt erindinu er hjer um að ræða laun til 5 ára og ferðastyrk. Þó gat hv. þm. þess, að í þessu ætti ekki að felast neitt loforð, sem kæmi til með að binda þingið með áframhaldandi styrk. En það er ljóst, hvert stefnir, og þegar Reykjavíkurbær er búinn að veita 10 þús. kr. til þess að kosta þennan listamann hingað með stóran hóp þýskra hljóðfæramanna, er ljóst, að allhart er gengið eftir fjárframlögunum.

Það er vitanlega rjett, að allir geta ekki dæmt um hæfileika þessa manns. Jeg vil minna á það, að það liggja engin meðmæli fyrir frá okkar söngfróðu mönnum. Þá vil jeg og geta þess, að þeir eru margir, sent hafa unnið að því að safna íslenskum þjóðlögum. Það er ekki aðeins sjera Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði, sem í þessu efni hefir unnið mikið og gott starf, heldur margir fleiri, svo sem Jónas heitinn Jónsson þinghúsvörður, Sigfús Einarsson, Sveinbjörn Sveinbjörnsson og fleiri Og þó að þessi maður sje vel fær í sinni grein, vil jeg þó ekki skrifa undir þann áfellisdóm, sem hann hefir kveðið upp um störf annara, sem að þessu hafa starfað.

Þá hefir hv. þm. Barð. tekið aftur till. sína um að fella niður styrkinn til Boga Melsteds.

Hv. 4. þm. Reykv. flytur till. um að veita Listvinafjelaginu þúsund kr. styrk til útgáfu bókar um íslenska listamenn. Jeg get alls ekki verið sammála hv. flm. till. um það, að rjett sje að setja Listvinafjelagið á bekk með Bókmentafjelaginu. Það er fært fram sem aðalástæða fyrir þessari styrkbeiðni, að bókaútgáfa sje dýr, en mjer finst það satt að segja engin meðmæli með þessu, að það sje dýrt að koma út bókum fjelagsins. Fjvn. getur ekki fallist á þessa till. Sami hv. þm. (MJ) og hv. 3. þm. Reykv. (JakM) flytja brtt. um það að veita Hljómsveit Reykjavíkur 3500 kr. styrk, og til vara 3 þús. kr. Það er talað um það, að um óvenjumiklar framfarir sje að ræða í þessu efni og að þetta fjelag vinni mjög þarft verk, en sje hins vegar styrklaust. Samt sem áður getur fjvn. ekki fallist á, að ástæða sje til að styrkja þetta fjelag úr ríkissjóði, og jeg vil spyrja: Eru ekki hjer til sjóðir, sem er beinlínis ætlað að styrkja slíkt? Á jeg þar við sjóð Guðjóns sáluga Sigurðssonar úrsmiðs. Hann hlýtur nú að vera orðinn nokkuð stór, og mjer finst fjelag þetta geta vænst styrks úr honum.

Hv. þm. Barð. flytur brtt. við 16. gr. 3, um að athugasemdin, sem fylgir styrknum til búnaðarfjelaganna, falli niður. Hv. þm. er ekki ljóst, hvað athugasemdin á að þýða. Með henni er ætlast til þess, að það sje trygt, að þessi styrkur verði ekki brytjaður í smátt, heldur varið til sameiginlegrar starfsemi. Hv. þm. heldur, að þetta geti dregið úr einstaklingshvötinni, að einstökum mönnum sje ekki veittur styrkur. En einstaklingarnir eru styrktir samkvæmt jarðræktarlögunum, og mjer finst engin ástæða til að vera að brytja þennan styrk niður á milli manna; jeg álít þvert á móti, að hann eigi síður rjett á sjer nema með því fyrirkomulagi, sem athugasemdin gerir ráð fyrir. Fjvn. er öllá einu máli á móti þessari brtt. Hv. Ed. hefir áður felt þetta burtu, en nú eru þar aðrir menn og aðstaðan því breytt.

Þá flytur hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) brtt. við 16. gr., um 7500 kr. til aðgerðar öldubrjótnum í Bolungarvík, eða til vara 5 þús. kr. Þetta mannvirki vill ekki standa og þarf sífelt töluverðra aðgerða við. Það skilyrði var sett í fyrra, að Hólshreppur sæi framvegis um viðhald brimbrjótsins, og ef nefndin vildi fara út í það strangasta, væri ástæða til að hafna till. Hins vegar vita menn, að mikil þörf er á að bæta úr þessu, því að búast má við mörgum slysum eins og nú standa sakir. Af þessum ástæðum hefir nefndin ekki hörku til að krefjast þess, að viðkomandi hreppur standi við sett skilyrði. En mjer ber að skila því frá fjvn., út af þeim mistökum sem orðið hafa, að ef fje er veitt, þá sje fylsta eftirlit haft með því, hvernig aðgerðin er framkvæmd. Út frá þessum forsendum vill meiri hluti nefndarinnar mæla með því, að varatill. sje samþykt.

Hv. 1. þm. S.-M. flytur brtt. við 16. gr. 22. um að hækka liðinn til markaðsleitar um 7 þús. kr., og er ætlast til að sú upphæð sje veitt ákveðnum manni. Karli Þorsteins. Um þetta lágu gögn fyrir nefndinni og komu meðmæli frá meiri hluta sjútvn. Nefndin getur ekki mælt með þessari till., en vill benda á, að Fiskifjelag Íslands veitir styrk til þessa.

Hv. 4. þm. Reykv. flytur till. um að veita Guðmundi Einarssyni myndhöggvara 4 þús. kr. styrk til þess að setja upp leirbrensluofn til myndagerðar. Hv. þm. Barð. flutti merkilega ræðu í sambandi við þetta, og mun hún hafa verið á sandi bygð, en þrátt fyrir það er fjvn. á móti þessari till., með því að hún lítur svo á, að hjer sje fremur um nýja iðnaðargrein en listamannsstyrk að ræða. og sjer ekki sjerstaka ástæðu til, að ríkissjóður fari að styrkja þennan iðnað.

Hv. þm. Ak. og hv. 1. þm. N.-M. fluttu við 2. umr. brtt. um 1000 kr. styrk til Kvenrjettindafjelags Íslands, vegna kostnaðar við landafund kvenna á Akureyri sumarið 1926.

Fjvn. lagði á móti þessum styrk þá og meiri hluti nefndarinnar er enn á móti honum, þó að upphæðin hafi nú verið lækkuð niður í 800 kr. Hv. þm. Ak. sagði, að fordæmi væri fyrir þessu, en það bindur ekki aðra en þá, sem það gáfu.

Þá flytur hv. 3. þm. Reykv. till. um að veita sama fjelagi 2 þús. kr. upp í kostnað við sending fulltrúa á alþjóðasambandsþing kvenrjettjndafjelaga í París sumarið 1926. Fjvn. gat heldur ekki aðhylst þetta og leggur á móti þessum styrk. Hv. þm. sagði, að það væri ekki vansalaust annað en senda, úr því að kvenrjettindafjelagið væri komið í alþjóðasamband kvenna. Þetta klingir altaf, að það sje ekki vansalaust að senda ekki fulltrúa á hin og þessi mót úti í heimi, og ef Alþingi ætti að fara að styrkja þesskonar sendiferðir, gæti það orðið stór fúlga, sem til þess færi. Auk þess vil jeg benda á það, að í fjárlögum er veittur 6 þús. kr. ferðastyrkur til útlanda. Til einhvers á að nota hann.

Þá flytur hv. 2. þm. Eyf. till. um að hækka styrkinn til U. M. F. Í. um 2 þús. kr., og eru óbundin atkv. í fjvn. um það.

Þá kem jeg að till., sem tveir menn úr fjvn. flytja ásamt hv. þm. N.-Ísf., um eftirgjöf á lánum þriggja hreppa. Hv. þm. N.-Ísf. hefir gert ágætlega grein fyrir þessari till., og get jeg skrifað undir það sem hann sagði. Þessir hreppar hafa orðið fyrir þungum búsifjum og eiga í miklum fjárhagslegum örðugleikum. Einn af þessum hreppum er í mínu kjördæmi, Árneshreppur, sem er mesta harðindasveit og hefir orðið mjög hart úti á undanförnum erfiðleika- og dýrtíðarárum. Auk þessara þriggja hreppa mun einn vera eftir enn, sem líkt er ástatt fyrir, nefnilega Gerðahreppur. Álít jeg að rjettast væri, að hreinsað væri til í þessu efni.

Fjvn. getur ekki fallist á till. hv. þm. V.-Ísf. um að veita Guðmundi Guðjónssyni styrk til að ljúka námi í húsgerðarlist. Hv. 4. þm. Reykv. flytur till. um 20 þús. kr. byggingarstyrk til starfsmanna ríkisins í Reykjavík. Um þetta lágu engin gögn fyrir hjá fjvn., og er hún á móti þessu. Jeg álít ekki, að komið geti til greina að mæla með svo stórri fjárveitingu án þess að gögn liggi fyrir. Jeg skal geta þess, að nokkuð svipað hefir verið samþykt áður af þinginu, en ekki verið notað.

Hv. þm. Mýr. (PÞ) flytur till. um 10 þús. kr. styrk til Jóns Helgasonar í Borgarnesi, til þess að byggja vindknúða rafmagnsstöð. Það lágu fyrir nefndinni 2 aðrar umsóknir um þetta, og hefir nefndin áður mælt með annari þeirra af ástæðum, sem þá voru greindar, og heldur nefndin enn fast við sínar till. og verður þess vegna að vera á móti þessari till. hv. þm. Mýr.

Þá flytja þeir hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. N.-Ísf. till. um 3 þús. kr. styrk til kaupa á laxa- og silungaseiðum. Um þetta hefir ekkert legið fyrir nefndinni og engin áætlun um framkvæmd þessa. Ef á að fara að hverfa að því ráði að veita fje til þessa, þá þurfa menn að hafa gert sjer einhverja grein fyrir, hvort slíkt kæmi að notum, og um slíkt sem þetta ættu að koma óskir utan af landi, en ekkert slíkt hefir komið fram, og er fjvn. á móti till. þessari, að minsta kosti meðan undirbúningur er enginn.

Jeg vil ráða hv. flutningsmönnum til að undirbúa málið betur, ef þeir vilja koma þessu fram síðar.

Sömu hv. þm. flytja till. um 500 kr. styrk, 1/3 kostnaðar við að gera Einarsfoss í Laugardalsá í Ögurhreppi laxgengan. Um þetta lágu heldur engin gögn fyrir nefndinni, og er hún á móti þessu. Á þinginu í fyrra kom svona umsókn fram viðvíkjandi Glanna í Norðurárdal, og var henni vísað frá vegna ófullnægjandi upplýsinga, og alveg eins stendur á með þessa till. nú. Jeg get vel trúað, að þetta sje nauðsynlegt, en vil beina því til hv. flm. að fara eins að og hv. þm. Mýr., að fá áætlun um kostnað og þátttöku bænda o. s. frv., og jeg efast ekki um það, að ef það sannast, að þetta yrði til nytja, þá muni styrkurinn verða veittur.

Þá er till. um framlag til byggingar strandferðaskips tekin aftur.

Þá er næstur hv. 2. þm. Reykv. með þrjár till. Er sú fyrsta um 25 þús. kr. styrk til bæjar- og sveitarfjelaga til að koma upp barna- og gamalmennahælum. Jeg get sagt það sama um þetta eins og embættismannabústaðina, að þetta er svo stór fjárveiting, að einhver gögn verða að leggjast fyrir fjvn. um slíkt. En um þetta hefir ekkert erindi komið til nefndarinnar og málið alóundirbúið. Um þennan sjerstaka hluta af upphæðinni, sem ætlaður er Ísafirði, hefir heldur ekkert legið fyrir, og hv. þm. Ísaf. ekkert á það minst. Og er nefndin þessu því mótfallin. Þá er 2. liðurinn um 2 þús. kr. styrk til sjúkrasamlags Reykjavíkur, til að vinna að því að koma á sambandi milli allra sjúkrasamlaga á landinu og til að stofna ný samlög. Um þetta lá erindi fyrir nefndinni, og er landlæknir mjög með þessu, en sjúkrasamlögin njóta áður styrks úr ríkissjóði, og þykir nefndinni því eigi ástæða til að mæla með þessari till. Um 3. till., um 3500 kr. styrk til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík, eru óbundin atkv. í nefndinni.

Hæstv. forseti (BSv) flytur brtt. við 17. gr., um 5 þús. kr. styrk til að stofna og reka Íslendingaheimili í Kaupmannahöfn. Það lá erindi fyrir nefndinni um slíkt heimili í Osló, og var nefndin á móti því og getur heldur ekki mælt með þessu. Ef það er svo, að við getum trauðla bygt yfir okkar stúdenta hjer heima, sem sjálfir hafa lagt mikið á sig til að koma upp húsi, þá finst mjer það liggja fjær að veita fje til annara landa í þessu skyni.

Háttv. þm. Barð. flytur brtt. við 18. gr., um 250 kr. til Guðrúnar S. Jónsdóttur, háaldraðrar ekkju sjera Jónasar Hallgrímssonar. Nefndin hefir ekki tekið afstöðu til þessarar till., og jeg hefi ekki umboð til að segja neitt um hana fyrir lönd nefndarinnar.

Þá flytur hv. 2. þm. G.-K. till. um að veita Ögmundi skólastjóra Sigurðssyni 2 þús. kr. eftirlaun í 18. gr., ef hann lætur af skólastjórn. Hv. þm. mælti mjög sterklega með þessari till. Nefndin telur sjálfsagt að veita þessum ágæta manni eftirlaun, þegar hann hættir. Hann er sá maður og svo kunnur, að það, sem háttv. þm. sagði um verðleika hans, mun enginn vjefengja. Hinsvegar er það óvanalegt að ákveða mönnum eftirlaun áður en þeir láta af starfi og áður en það er vitað, hvenær þeir muni gera það. Mjer skildist á hv. þm., að það væri ekki fullráðið, hvenær skólastjórinn ljeti af starfi sínu. Um það að ákveða eftirlaun fyrirfram eru helst til fordæmi, þegar svo hefir staðið á, að beinlínis átti að losa menn úr embættum. En mjer skildist, að það væri öfugt hjá hv. 2. þm. G.-K., sem sje, að hann vildi halda í þennan góða skólastjóra sem lengst. Sumum nefndarmönnum þykir ekki aðgengilegt að greiða atkvæði um till. í þessu formi, en hinsvegar má hv. þm. eiga það víst, að ef sama fjvn. verður áfram, mun hún mæla með slíkri till., ef skólastjórinn segir af sjer.

Þá eru næst 3 lánatill. við 22. gr. Um þessar till. er það að segja, að viðlagasjóður mun ekki hafa neitt fje til að lána. Ef fje verður til, er því áður ráðstafað til frystihúsa. Af þessu leiðir, að nefndin getur ekki fallist á neina af þessum till.

Jeg held, að jeg þurfi svo ekki að segja meira að sinni.