21.04.1926
Efri deild: 56. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

80. mál, veiting Sveinbirni Högnasyni embætti á Íslandi

Frsm. (Jónas Jónsson):

Jeg býst við, að jeg þurfi ekki að bæta miklu við það, sem hv. meðnefndarmaður minn (JóhJóh) hefir sagt.

Eins og sjest af þskj. 373. hefir háskólaráðið lagt til, að mörkuð væri dálítið þrengri leið í þessu efni en hv. Nd. hafði lagt til. Nefndin hefir fallist á, að varhugavert gæti verið að leyfa þarna samkepni, einkum þar sem ekki er um gagnkvæman rjett að ræða, því guðfræðingar með íslenskt próf munu ekki hafa rjett til embætta í öðrum löndum. Eins og frv. var samþ. frá Nd. var því ekki laust við, að í því kendi dálítils undirlægjuskapar frá okkar hálfu. Vænti jeg, að hv. deild samþ. frv. eins og það nú liggur fyrir.