21.04.1926
Efri deild: 56. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

80. mál, veiting Sveinbirni Högnasyni embætti á Íslandi

Frsm. (Jónas Jónsson):

Þetta, sem hv. 1. þm. Rang. (EP) var að tala um ísl. presta, sem þjónuðu erlendis, byggist víst á því, að til eru ýmsir söfnuðir utan þjóðkirkjunnar, sem geta ráðið til sín presta án sjerstakra prófskilyrða. En það eru víst engin dæmi til þess, að guðfræðingur með embættisprófi hjeðan hafi út á það fengið embætti innan þjóðkirkjunnar á Norðurlöndum, a. m. k. ekki í Danmörku. Mjer er líka kunnugt um lækna t. d., að það er víst óhugsandi fyrir lækna með ísl. prófi að fá embætti í Danmörku. Eins og hv. deild sjer, er því hjer um metnaðarmál að ræða fyrir háskólann og landið. Annars eru allir sammála um að veita þeim manni, sem hjer á hlut að máli, þessi rjettindi. Ýmislegt mælir með því að gera þessa undantekningu. Það liggur í loftinu, að þessi maður, sem er sjerfræðingur í hebresku og fleiru, muni koma til greina sem kennari við háskólann síðar meir. Er því æskilegt að þessi undanþága sje veitt.