08.04.1926
Efri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

46. mál, skattur af lóðum og húsum í Siglufjarðarkaupstað

Frsm. (Eggert Pálsson):

Viðvíkjandi d-lið í 1. brtt., sem hv. flm. (EÁ) mintist á, vil jeg taka það fram, að þar er dálítil prentvilla, vantar bara punkta á eftir „3 af þúsundi“, til að sýna, að þetta er ekki óslitin setning. Í stað þess að í brtt. stendur: „3 af þúsundi af húsum“ á vitanlega að standa: 3 af þúsundi . . . af húsum. Ef þetta er lagfært, þegar prentað er upp, hljóta allir að skilja, hvað átt er við.

En það, sem flm. (EÁ) mintist á viðvíkjandi lóðunum, sjerstaklega þeim, sem liggja nærri sjó, að hann er óánægður með breytinguna, þá kom mjer það ekki á óvart, enda gat jeg þess í framsöguræðu minni. En hinsvegar lítur nefndin svo á, að hjer sje ekki nema um sanngirniskröfu að ræða frá hennar hálfu, að gera gjaldið jafnt af lóðum og húsum, þótt það hinsvegar gæti verið, að kaupstaðarbúum væri meira til þægðar, að hærra gjald væri af lóðum en húsum. Þó að svo sje, að þeir, sem tekið hafa á leigu lóðir hjá ríkissjóði á Siglufirði, komist nú af með að borga lítið eftir þær, þá veit maður, að þetta getur breyst. Þótt samið sje um langan tíma, þá rennur sá tími út einhverntíma. Og þá er hægara að hafa eitthvað upp úr lóðunum, ef skatturinn, sem á þeim hvílir til bæjarsjóðs, er ekki ýkjahár. Vitanlega er ekki hægt fyrir ríkisstjórnina eins og sakir standa að gera leigusamninga um lóðirnar, af því að þær tilheyra sem stendur sjerstöku prestssetri, og presturinn á því að gera það. En þó að presturinn eigi hjer hlut að máli, þá er eins háttað með hann og ríkisstjórnina, að hann ætti hægra með að gera leigusamninga upp á hærra eftirgjald, ef skatturinn væri ekki hár. Því það hefir ætíð nokkra verkun á eftirgjald, ef skatturinn er ákveðinn hár. Svo háan má setja hann, að viðurhlutamikið þyki að taka lóðirnar á leigu.

Jeg geri þetta nú ekki að kappsmáli, en held þó fast fram þessari skoðun nefndarinnar. Og jeg verð að álíta, að þótt þessi till. nefndarinnar yrði samþ., þá sje samt sem áður bættur hagur kaupstaðarins með slíkum lögum, sem hjer ræðir um. Því vitanlega er það mikilsvert fyrir kaupstaðinn að geta fengið þessi gjöld í bæjarsjóð, enda þótt hann verði að sætta sig við, að lóðargjaldið sje lægra en farið er fram á í frv. Ef gjaldið væri gert jafnt á húsum og lóðum, sem liggja langt frá sjó, en ekki þeim, sem liggja nær sjó, þá virðist um ósamræmi að ræða, sem lítil eða engin ástæða virðist til.