22.03.1926
Neðri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

78. mál, notkun bifreiða

Frsm. (Jón Kjartansson):

Eins og getið er um í greinargerðinni fyrir frv. þessu, hafði samgmn. borist frv. frá hæstv. atvrh. (MG), með ósk um að flytja það. Nokkur ákvæði voru í frv. þessu þess eðlis, að nefndin sá sjer ekki fært að fallast á þau óbreytt. Það voru ákvæði í þá átt að heimila lögreglustjóra að svifta bifreiðarstjóra ökuskírteini, þegar um brot væri að ræða, aðallega brot í sambandi við áfengisnautn. Nefndinni þótti þetta nokkuð viðurhlutamikið, því að hún álítur þennan rjett mikils virði, og vildi því ekki fallast á, að nokkur væri sviftur þessum rjetti án þess að hann gæti leitað úrskurðar dómstólanna.

Hinsvegar gat nefndin fullkomlega fallist á, að rjett væri að hafa lögin nokkuð strangari en þau eru nú, og lýtur þess vegna 1. gr. þessa frv. að því að bæta úr þeim göllum, sem nefndinni fanst vera á bifreiðalögunum. Þegar bifreiðalögin voru samþ. hjer fyrst, fyrir 11 árum, þá voru aðeins fáeinar bifreiðar komnar hingað til landsins, svo að það er ekki nema eðlilegt, að ákvæði þeirra yrðu nokkuð ófullkomin þegar fram liðu stundir. Má þar fyrst nefna ökuhraðann, sem ákveðinn var 12 km í kaupstöðum og kauptúnum. Þá var engin reynsla fengin fyrir því hjer á landi, hvernig mundi takast með þessi nýju farartæki, Flestar götur voru þröngar og illar yfirferðar, og var því eðlilegt, að ökuhraðinn væri takmarkaður mjög. En því betri sem göturnar verða, því óþarfara verður þetta ákvæði, enda er það svo, að því er aldrei fylgt. Af þessu leiðir brtt. nefndarinnar við 6. gr. Þar er farið fram á að hækka hámarkshraðann á þessum stöðum úr12 km. upp í 18 km. Utan kaupstaða og kauptúna gildir alveg það sama. Eftir því sem vegirnir verða betri, því minni ástæða er til að hafa hámark ökuhraðans svona lágt, 30 km., og leggur nefndin því til, að hann verði hækkaður þar upp í 40 km. Þriðja gr. lýtur að því að bæta úr galla, sem er á lögunum. Þar vantar alveg ákvæði um það, hvaða meðferð skuli hafa á þeim málum, sem höfðuð eru út af brotum á bifreiðalögunum. Það var einhverntíma, að hæstirjettur þurfti í dómsforsendum að taka ákvörðun um þetta sjerstaklega, vegna þess að engin ákvæði voru um það í lögunum.

Frv. þetta er komið frá nefnd, og er ástæðulaust að vísa því til nefndar aftur. Vona jeg, að frv. fái greiðan framgang í þessari hv. deild.