07.04.1926
Neðri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

78. mál, notkun bifreiða

Pjetur Þórðarson:

Hv. frsm. nefndar innar ljet þess getið, að brtt. mín væri óþörf og færði fyrir því þá ástæðu, að aldrei kæmi neitt slys fyrir, eða nein hætta, vegna svefnleysis eða ofþreytu bifreiðarstjórans. Þessi rök verð jeg nú að kalla heldur ljettvæg, enda þykist jeg sjá af þessu, að nefndin hafi lítilla upplýsinga aflað sjer til stuðnings skoðun sinni, eða á annan hátt grenslast eftir því, hvort það muni svo fjær sanni, það sem jeg hefi haldið fram.

Jeg veit með vissu, að það hefir oft komið fyrir, að bifreiðarstjóri hefir verið ófær til að stjórna bifreið vegna svefnleysis og ofþreytu, engu síður en vegna drykkjuskapar. Og þó þetta hafi ekki komist svo langt enn, að upplýst sje, að slys hafi af því hlotist, þá á fyrir það að byggja í tíma, svo það geti ekki komið fyrir. Enda þykist jeg vita, að oft og einatt muni erfitt að greina milli áhrifa svefnleysis og áfengis, því áhrifin eru svipuð eins og þau venjulega koma fram og mundu koma í ljós hjá þeim manni, sem undir slíkum kringumstæðum á að hafa stjórn á bifreið.

Og þar sem nefndin telur ekki, að brtt. mín sje til hins lakara, finst mjer, að sú till. hennar, að fella hana hafi við lítil rök að styðjast. Heimildin, sem brtt. fer fram á, að komist inn í lögin, er aðeins til þess sett, að til hennar megi grípa þegar þörf gerist. Vona jeg því, að hv. þdm. skilji, að hjer er aðeins um varúð að ræða, sem undir öllum kringumstæðum hlýtur að teljast fremur til bóta heldur en hitt. Þess vegna tel jeg óþarft að hafa þessi orð fleiri, en vænti hinsvegar að brtt. hafi það fylgi að hún nái fram að ganga.