25.03.1926
Neðri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

1. mál, fjárlög 1927

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði að jeg hefði átt að leggja fyrir bjargráðastjórnina síðara brjefið, sem jeg las kafla úr. En þetta brjef fjekk jeg fyrst fyrir 3 dögum, eða löngu eftir að jeg veitti lánið, svo að það hefði verið tilgangslaust að sýna sjóðsstjórninni það. (TrÞ: Þá hefir hæstv. ráðh. enga afsökun). Það er undarleg röksemdaleiðsla, því að brjefið sýnir jafnvel ástand hreppsins, þótt það sje svona nýtt. Annars er það um skipstapann 1922, og hann var einnig nefndur í brjefi oddvitans, sem lá fyrir hv. þm. Str. En um þetta bókar háttv. þm. ekkert í gerðabók sína, svo að jeg hefi miklu meiri ástæðu til þess að bregða honum um hlutdrægni en hann mjer.

Þá talaði hv. þm. Str. um það, að ekki mætti binda fje bjargráðasjóðsins á vissum stöðum. Jeg lít svo á, að það eigi að láta fjeð þangað, sem mest þörfin er fyrir það, og svo mikið á hvern stað, sem á annað borð fær lán, að það komi að einhverju gagni. Fátækum mönnum kemur ekki að neinn verulegu gagni að fá lán til 7 ára til bústofnskaupa. Annars er það auðsætt, að mig og hv. þm. Str. skilur mjög á um lánveitingar úr sjóðnum. Hann vill, að sjóðurinn standi sem mest óhreyfður í Landsbankanum, en jeg vil, að þurfandi hreppar fái lán úr honum og tel hann með því einu koma að fullu gagni. Þá gleymir hann og því, að sjóðurinn vex árlega talsvert, og þess vegna verður með afborgunum og vöxtum altaf talsvert fje til útlána.

Mjer þótti vænt um það, sem hann sagði um gengismálið, og þó sjerstaklega um það, hvernig hann tók ummælum mínum. Jeg hjelt því fram, að bændur hefðu ekki getað tapað vegna gengishækkunarinnar, vegna þess að þeir hefðu fengið 50% hærra verð síðastliðið haust fyrir afurðir sínar en áður, og að ef þá væri ekki hægt að hækka gengið, þá væri það aldrei hægt. Jeg skildi hv. þm. svo, að hann viðurkendi þetta, en með þeirri viðurkenningu er kipt fótunum undan öllum skrifum hans um gengismálið, að því er bændur snertir, og allan hinn mikla halla, er þeir hafi haft af gengisbreytingunni. Það er satt, að jeg hefi ekki mikið um gengismálið talað, enda tilheyrir það ekki mínum verkahring. Verkum er skift í stjórninni, eins og kunnugt er, og hver ráðherrann um sig stendur fyrir svörum í sínum málum. Og hæstv. fjrh. (JÞ) hefir staðið svo fyrir svörum í þessu máli, að ekki hefir þurft að hjálpa honum.