10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer þótti vænt um að heyra það frá hv. 2. þm. Rang. (KlJ), að hann kannaðist við það, að tollurinn á íslenskri ull var ákveðinn í Bandaríkjunum í janúar 1923. Hann gekk í gildi í febrúar sama ár, þ. e. a. s. hjer um bil hálfu ári eftir að einkasölusamningurinn um steinolíu var gerður. Jeg vil í þessu sambandi minna á það, og ætla enn að halda mjer við þær upplýsingar, sem fram hafa komið í málinu, að í skjölum frá utanríkisstjórninni, sem hv. þm. hafði í höndum hjer og þá og vitnaði til á þinginu 1923, þá voru þessi tvö atriði, steinolíusamningurinn og ullartollshækkunin, sett í samband hvort við annað. Hv. þm. hjelt því fram þá, að samband þeirra væri þannig, að það mætti skoða steinolíusamninginn sem viðurkenningu frá okkar hendi fyrir ullartollshækkunina. (KlJ: Það stendur í brjefi sendiherrans). Það standa ummæli í brjefinu, sem hv. þm., þá ráðherra, skildi á þessa leið. Jeg benti á þegar, að sambandið milli þessara tveggja viðburða hlyti að vera gagnstætt, — að sá fyrri gæti ekki verið afleiðing af þeim síðari, en hitt gæti verið, að sá síðari, nefnilega ullartollshækkunin, væri afleiðing af þeim fyrri. Þannig hlyti það að vera, ef nokkurt orsakasamband væri þarna á milli. Þessi skilningur minn er nú staðfestur, þegar það er fullkomlega upplýst, hvor viðburðurinn gerðist fyr.

Því næst vitnaði hv. þm. í brjef frá verslunarfirma í Philadelphia frá í jan. 1923. Það á nú að sanna, að ástæðan fyrir tollhækkuninni hafi verið önnur en steinolíusamningurinn, þar sem firmað heldur því fram, að eina ástæðan fyrir tollhækkuninni sje sá möguleiki, að íslenskt fje hafi verið blandað með ensku merinofje.

Jeg vil út af þessu gera ofurlitla grein fyrir því, hvað gekk á undan tollhækkuninni að því er snertir löggjöf Bandaríkjamanna um þetta. Það eru gögn til um þetta, sem liggja fyrir opinberlega áður.

Án þess að fara neitt aftur í tímann, skal jeg geta þess, að seinustu tollalög Bandaríkjanna á þessu sviði gengu í gildi í sept. 1922. Eftir þeim lögum er ullin tolluð í tveimur flokkum. Það eru tvær greinar í lögunum, sem fjalla um það, hvernig eigi að tolla ullina. Í annari greininni er lýst þeirri ull, sem eigi að tolla í hærri flokki, en í hinni greininni þeirri ull, sem á að tolla í lægri flokki. Það er sú grein, sem nú hefir verið vísað til. Þar er einmitt sagt, að í þessum lægri flokki sje ull, sem ekki sje bætt af kynblöndun með merino-fje eða ensku fje. Þarna er þetta verslunarfirma ekki að segja neitt annað en það, að eftir landslögum hljóti þessi tollhækkun að byggjast á því, að fjeð sje blandað með þessari útlendu fjártegund. En nú er þetta framkvæmt svo í Bandaríkjunum, að frá því í sept. 1922 og þangað til í janúar 1923 var það talið svo, — sem vitanlegt var áður, — að okkar ull væri í lægri flokki, vegna þess að okkar fje var ekki blandað þessari ullarbetri fjártegund. Jeg held þá, að allir hljóti að viðurkenna það, að það hlýtur þó að vera einhver orsök til þess, að þessi breyting verður í jan. til febr. 1923. En sú orsök liggur sannarlega ekki í því, að okkar fje hafi tekið nokkurri kynblöndun á því tímabili. Það verður að leita að henni annarsstaðar. Og þó að þetta firma geti ekki ímyndað sjer neina aðra ástæðu fyrir því að nú er alt í einu farið að líta svona á, að fjeð sje kynblandað, þá sýnir það ekki annað en það, að firmað gerir ráð fyrir, að hjer sje verið að fara eftir lögunum.

Jeg ætla sem sagt ekki að fara lengra út í þetta; því að brjefið frá þessu verslunarfirma tekur auðvitað ekki af neinn vafa í þessu efni. Það segir ekkert annað en það, hvernig lögin hljóða um þetta.

Og þær upplýsingar, sem hv. þm. gaf nú um úrslit málsins, fela ekki neitt annað í sjer heldur en það, að nú er fengin viðurkenning fyrir því, að samkv. lögum eigi okkar ull að vera í lægri flokki, af því að okkar fje sje ekki kynblandað. En hvernig á því stendur, að það hefir tekið 3 ár að fá þessa viðurkenningu sannleikans leidda í ljós þarna fyrir vestan, og hvers vegna afleiðingar hennar fengu að koma fram í tollákvæðum gagnvart okkur, — um það upplýsti hv. þm. náttúrlega ekki neitt.

Úr því að jeg er við þetta mál, þá get jeg strax svarað því litla, sem jeg þarf að svara hv. 2. þm. Reykv. (JBald) viðvíkjandi því máli. Hann spurði, hvað mjer gengi til að blanda forstjóra danska steinolíufjelagsins í Kaupmannahöfn inn í þetta. Jeg dró aðeins fram nokkrar upplýsingar um málið, sem allar komu fram opinberlega í þingtíðindunum 1923, og komu þá frá þáverandi atvrh. En hins vegar ætla jeg fyrir mitt leyti ekki að gera ráð fyrir öðru en því, að þessi maður hafi gert skyldu sína, sem var sú, að láta umbjóðanda sinn, Standard Oil Company í Bandaríkjunum, vita um þennan samning, sem honum hafði verið sýndur. Jeg verð að telja það sjálfsagt, eftir öllum venjum og reglum, að hann hafi talið sjer þetta skylt.

Þá sagði hv. þm., að þremur fjelögum í Bandaríkjunum hafi verið gefinn kostur á að gera tilboð um sölu á olíu. Jeg hefi sjeð í þingtíðindunum frá 1923, að þremur slíkum fjelögum hafi verið gefinn kostur á að selja landsverslun olíu 1921. En jeg hefi ekki neinstaðar sjeð neitt um það, að þeim hafi verið gefinn kostur á að gera tilboð um einkasölu á steinolíu til landsins 1922.

Það er frá mínu sjónarmiði ekki eins mikil ástæða til að fara langt út í þetta mál, þar sem leiðrjetting er komin á þessu atriði málsins, sem varðar hag þjóðarinnar, nefnilega ullartollinn. En það er þó rjett að stinga fingri á það, að það, sem var misgert með þessum steinolíusamningi, var það, að það var snögglega og án nokkurra samningaumleitana sett hjer algert innflutningsbann, að viðlagðri geysimikilli sekt, á tiltekinni vörutegund frá stóru landi, sem áður hafði selt mikið af þeirri vörutegund hingað til landsins. Jeg þykist raunar vita, að annað eins og þetta verði aldrei gert aftur. Jeg þykist vita, að öllum sje ljóst orðið nú, að land, sem verður hagsmuna sinna vegna að reka nokkra utanríkispólitík, það má ekki fara svona að ráði sínu. Það má ekki útiloka þannig vörur frá einu landi samtímis því að greiða fyrir innflutningi og sölu á sömu vöru frá öðru landi. Annað mál er það, ef af innanríkisástæðum þykir rjett að banna alveg innflutning á einhverri vörutegund og það bann væri látið ganga jafnt yfir alla. Þetta er það atriði málsins, sem þýðingu hefir fyrir framtíðina, eftir að rjetting er fengin á því, sem orðið var.

Þá ætla jeg að víkja örlítið að hinum öðrum atriðum, sem hv. 2. þm. Reykv. nefndi. Honum þótti stjórnin hafa gengið slælega eftir því, að Íslandsbanki lækkaði vexti og taldi stjórnina hafa aðstöðu til þess að ráða forvöxtum bankans, af því að hún samkv. lögum ætti að skipa tvo af þremur bankastjórum. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Með þessu valdi til að skipa bankastjóra er stjórninni ekki gefið húsbóndavald á þann hátt, að hún geti sagt þeim fyrir um, hvaða ákvarðanir þeir skuli taka viðvíkjandi málefnum bankans. Þetta veit hv. þm. í raun og veru vel, enda þótt hann tali svona.

Hv. þm. sagði, að ekki væri ástæða fyrir Íslandsbanka að hafa hærri vexti en Landsbankinn. Jeg skal ekki gera mig að neinum dómara um það. En jeg geri ráð fyrir, að mjer sje óhætt að segja frá þeim höfuðástæðum, sem stjórn Íslandsbanka bar fyrir sig í þessu efni. Það var svo, að um leið og útlánsvextir lækkuðu um 1% voru innlánsvextir lækkaðir í báðum bönkunum um ½%. Þetta samsvarar þeirri breytingu, sem næst áður hefir verið gerð á vaxtastiganum; þá hækkuðu innlánsvextir um ½%, en útlánsvextir um 1%. Nú hjelt stjórn Íslandsbanka því fram, að því fjármagni, sem Íslandsbanki hefði yfir að ráða, væri þannig háttað, að hann nyti miklu minni hlunninda af slíkri lækkun innlánsvaxta heldur en Landsbankinn, af þeirri einföldu ástæðu, að það er miklu minni hluti af starfsfje Íslandsbanka innlánsfje heldur en af starfsfje Landsbankans. Jeg held það verði ekki á móti því mælt, að þetta sje rjett. Og þetta var sú höfuðástæða, sem bankastjórn Íslandsbanka bar fyrir sig.

Þá talaði hv. þm. um það, að stjórnin hefði ekki grenslast eftir lánskjörum til þess að innleysa enska lánið. Jeg verð að segja, að þessar aðfinslur eru ástæðulausar eftir að það er upplýst, að enginn kostur er á að innleysa þetta lán fyr en árin 1931–'32. Það er því sannarlega þýðingarlaust og ótímabært að fara nú að leita fyrir sjer um kjör á lánsfje, sem kynni að þurfa að nota eftir svo langan tíma. Vaxtakjör geta breyst svo mjög á því tímabili, að enginn lánveitandi, sem annars vill veita lán, bíður svo lengi eftir, að slík viðskifti komist í kring.

Hv. þm. gat þess um þetta lán, að vextirnir væru 9%. Þetta er skakt. Þeir eru ekki nema 7%. Hvað hinir raunverulegu vextir kynnu að verða, ef metin eru afföll af láninu og gengismismunur, sem orðinn er og kann að verða, það skal jeg ekki segja um. En jeg hugsa, að niðurstaðan verði sú, að hinir raunverulegu vextir sjeu langt fyrir niðan 9%, og kannske fyrir neðan 7%, sem nafnvextirnir eru. Jeg held, að hv. þm. geti yfir höfuð ekki sett neitt út á gerðir stjórnarinnar í þessu efni. Þessi handhafaskuldabrjef fyrir láninu eru „börspappírar“. Og þó að hægt sje að fá vitneskju um einstaka pósta, sem liggja í nokkrum föstum höndum, þá er talsvert mikill hluti af brjefunum verslunarvara og ómögulegt að fá vitneskju um, hvar eru niðurkomin, og því ómögulegt að ná í þau öðruvísi en með frjálsu kaupi, þangað til tíminn kemur, að hægt er eftir lánssamningnum að kalla þau inn. En jeg skal taka það fram, að það er ekki óvenjulegt um slík handhafaskuldabrjef, að sett eru ákvæði um, að þau verði ekki innkölluð um nokkuð langt árabil.

Þá kem jeg að gullkaupum Íslandsbanka. Hv. þm. áleit, að stjórnin hefði ekki átt að gefa bankanum rjett til þess að leita til dómstólanna um þá kröfu, sem framkvæmdastjórn bankans taldi sig hafa til frekari greiðslu en stjórnin áleit bankann eiga heimtingu á. Jeg held satt að segja, að fáir verði honum samdóma um þetta. Það er virkilega ein af þeim grundvallarstoðum, sem þjóðfjelagið hvílir á, að hver maður, sem þykist órjetti beittur, fái rjett til þess að leita dómsúrskurðar um sitt mál. Og það verður yfir höfuð að telja það óleyfilegt fyrir framkvæmdavaldið að beita þeirri harðýðgi við nokkurn að meina honum að leita þannig rjettar síns, enda þótt það af einhverjum ástæðum hafi þau tök á hlutaðeiganda eða þá aðstöðu, að það geti neytt hann til að sleppa slíku rjettartilkalli. Ágreiningurinn er einmitt um það, hvað felist í samningnum. Og þá verður þeim sama samningi vitanlega ekki beitt til þess að hindra annan aðiljann frá því að leita til dómstóla.

Möguleikar Íslandsbanka til þess að fá meira en nafnverð peninga fyrir gull sitt byggist einungis á því, að bankinn hefir verið leystur frá innlausnarskyldu. Og jeg átti við, að það væri á valdi löggjafarvaldsins, ef það vill, að beita þessu atriði til þess að hindra bankann frá því að gera frekari kröfur um greiðslu fyrir gull sitt. En framkvæmdarvaldið getur það ekki.

Þá mintist hv. þm. á kostnað við tóbaksmerkingu eða álímingu tollmiða og gerði þá áætlun, að árlegur heildarkostnaður af slíku á landinu mundi verða 40–50 þús. kr. Sú áætlun stendur fyrir hans eiginn reikning. Og eftir því, sem háttv. þm. lýsti álímingunni, þá ætti hún ekki að vera kostnaðarsöm. Er því ótímabært hjá honum að vera að bera þann kostnað saman við rekstrarkostnað tóbakseinkasölunnar, sem var um 100 þús. kr. á ári.

Þá lýsti hann því sem sínu áliti, að tollþjónar yrðu alstaðar að gera þetta verk; það næði engri átt að leyfa kaupmönnum að hafa það á hendi. En í þessu efni fór jeg eftir því, sem fram kom í framsögn málsins í fyrra, og sömuleiðis undir umræðunum, að rjett væri að fela kaupmönnum þetta, því að tollþjónar eru ekki svo margir til á landinu, að hægt sje að láta þá framkvæma þetta verk.

Þá þótti hv. 2. þm. Reykv. (JBald) þessi eftirlitsráðstöfun ótryggari en merking sú, sem gerð var af tóbakseinkasölunni, því að hún hafi látið stimpla allar vörur. Upp úr þessu held jeg að sje ekki mikið leggjandi. Fyrst og fremst af því, að vörurnar voru ekki allar stimplaðar: og í öðru lagi veit jeg ekki, hvort það er á nokkurn hátt betra að senda merki þessi út til verksmiðjanna og láta þær festa þau á heldur en gera það hjer. Jeg held, að munurinn sje ekki mikill, og þegar þess er ennfremur gætt, að sum merkin voru beinlínis búin til hjá þeim verksmiðjum, sem framleiddu vöruna, og límd þar á án nokkurs eftirlits.

Jeg held því, að allir hljóti að vera sammála um það, að þessi merking utanlands feli á engan hátt í sjer meiri tryggingu en merking sú, sem er framkvæmd hjer.

Þá tel jeg mig hafa svarað þeim eldhúsdagspóstum, sem hv. 2. þm. Reykv. var að koma með nú, eftir að hafa setið hjá við hinar reglulegu eldhúsdagsumræður eins og feimin roðnandi yngismey.

Jeg vil þá víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). en mun hafa það minna en þörf hefði verið, af því að þessi hv. þm. er þegar búinn að tala sig dauðan.

Hann gerði að umtalsefni þau ummæli mín, að kreppa sjávarútvegsins væri þegar byrjuð, og jafnframt þær afleiðingar, sem jeg taldi, að hún myndi hafa fyrir útveginn á þessu ári. Hann kannaðist ekki við þessa kreppu og sagði, að ef hún kæmi, þá væri þar ekki öðru um að kenna en sjálfskaparvítum stjórnarinnar, eða þá þingsins í heild sinni.

Jeg verð að segja, að mjer fanst þetta hreystilega mælt, að vilja ekkert gera úr því, þó að verð á saltfiski hafi lækkað úr 9,5 niður í 5,5 sterlingspund skippundið. Jeg get ekki meint, að þetta geti talist sjálfskaparvíti. Annars get jeg engan trúnað lagt á, að svona stórkostlegt verðhrun á aðalútflutningsvöru okkar hafi engin áhrif á tekjur ríkissjóðs næsta ár. Jeg held miklu fremur, að við þessi ummæli þingmannsins eigi það sem segja má um suma menn, að sælir eru þeir, sem ekki trúa þótt þeir sjái.