07.04.1926
Neðri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

26. mál, ritsíma og talsímakerfi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Af öllum hinum mörgu brtt. við frv. það, sem hjer liggur fyrir, sjá menn það greinilega, hve mikil þörf er fyrir síma og hve mikil löngun manna er á þessu landi til þess að fá hann. Mjer þykir vænt um, að hv. deild fær nú að sjá þetta. Jeg hefi mikið fundið til þess undanfarið, hve mikið hefir verið beðið um síma og hve mikil rök hafa jafnan verið fyrir þeim beiðnum.

Það er nú komið það lag á, að í fjárlögum hvers árs er tekin upp ákveðin upphæð til símalagninga, og stjórnin velur um, hverjar línur sje nauðsynlegast að leggja fyrst.

Nú er það af hinum stærri línum línan um Barðastrandarsýslu og línan frá Vík í Mýrdal til Hornafjarðar, sem einkum beinist athyglin að. Meðan þessar línur eru ólagðar, má búast við því, að ekki verði mjög mikið lagt annarsstaðar. En þegar þessar línur eru búnar, þá ætti að vera tóm til lagningar minni lína. Þess vegna lít jeg svo á, að verði þessar línur, sem hjer eru til umræðu, samþyktar, sje um einskonar fyrirheit að ræða um það, að þessar línur verði lagðar síðar. Jeg get því ekki verið á móti þeim, því að þær verða fyr eða síðar lagðar, og jafnvel enn fleiri línur. Jeg sje, að þótt þær verði feldar nú, þá verði síðar samþykt að taka þær upp. Er því engin ástæða til þess að vera á móti því að taka þær upp í símalögin nú þegar, því að með því er ekkert um það sagt, hvenær þær verði lagðar, enda eru í eldri lögum línur, sem ólagðar eru ennþá.

Það gildir alt annað um síma en um þjóðvegi, því að með því að taka einhvern veg upp í þjóðvegatölu fylgir skylda til þess að gera hann vel reiðfæran og að halda honum við á kostnað ríkissjóðs. En með því að taka upp símalínu er aðeins það sagt, að hún verði lögð þegar Alþingi veitir fje til þess. Þess vegna legg jeg ekki móti neinum af þessum tillögum, þótt mjer annars blandist ekki hugur um það, að þær eigi misjafnan rjett á sjer, en jeg treysti síðari tímanum til þess að leggja þær línur fyrst, sem rjettlátast er að sitji fyrir.

Greiði jeg því atkvæði með öllum þessum tillögum.