15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

26. mál, ritsíma og talsímakerfi

Benedikt Sveinsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. við talsímakerfið á þá leið, að bætt verði við línu frá Skógum að Skinnastöðum, Eins og hv. frsm. (KlJ) tók fram, er þessi leið mjög stutt. Jeg get reyndar ekki sagt fyrir víst, hversu löng hún er, en jeg hugsa, að hún sje hjer um bil 6 km. Það, sem veldur því, að nauðsynlegt er að bæta við þessari línu, er það, hvernig síminn liggur nú. Hann liggur inn með botninum á Öxarfirði, yst í bygðinni, og er hann einn þáttur hinnar löngu línu frá Húsavík til Vopnafjarðar. Nú hagar svo til, að Jökulsá fellur þarna til sjávar, en stöðin liggur þannig, að áin rennur báðum megin við hana, og er oft ófært að stöðinni öðrum megin, og stundum jafnvel báðum megin. Skinnastaðir liggja ofan við þessar kvíslir, og er því miklu hægra fyrir allan efri hluta Kelduhverfis að sækja síma þangað.

Jeg hefi skrifað landssímastjóra um þetta og hann taldi á því engin tormerki. Leiðin er stutt og engar torfærur nema árkvíslirnar. En þótt þær sjeu oft illar yfirferðar, þurfa þær ekki að vera því til fyrirstöðu, að sími sje lagður þar yfir.

Þessar smábrtt., sem nú hafa verið teknar saman í frvgr., hafa sætt svo góðum undirtektum, að jeg vona, að svo verði einnig með þessa brtt. mína, þar sem ekki geta komið fram neinar mótbárur frá landssímastjóra, eftir því sem hann talaði við mig. Einnig býst jeg við, að hjeraðsbúar verði fúsir á að leggja fram hjálp sína með því að flytja að staura og annað, sem til þarf.