21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

102. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Frv. þetta er flutt af sjútvn. að tilhlutun hæstv. stjórnar og fer fram á það að breyta ákvæðum viðvíkjandi brotum botnvörpuskipa, sem tekin eru í landhelgi fyrir ólöglegan umbúnað veiðarfæra. En eins og segir í frv., þá á sú rýmkun, sem í því felst, aðeins að koma til greina, þegar það er ljóst af öllum atvikum, að skipið hefir hvorki verið að veiðum í landhelgi nje undirbúningur gerður í því skyni, en það er þegar umbúnaður veiðarfæra er ekki löglegur af óviðráðanlegum ástæðum, eða og þar í landhelgi, sem liggur langt frá veiðistöð eða fiskimiðum. En þó rjett kunni að þykja að samþykkja slík ákvæði, verður að framkvæma lögin með hinni mestu varkárni, og tilætlunin er sú, að það sje dómari, er í hvert sinn metur, hvort máli megi lúka samkvæmt þessum lögum eða ekki.

Með frv. þessu eru veiðarfærabrot botnvörpuskipa greind í tvent: brot, sem verða að teljast saknæm, en það er þegar skip eru að hefja undirbúning undir ólöglega veiði í landhelgi o. s. frv., og hinsvegar ósaknæmari brot, þegar svo er ástatt, sem í frv. segir. Verður þá í löggjöfinni sá munur á þessum tvennskonar brotum, að um þau gilda mismunandi sektarákvæði. Fyrir hin saknæmari brot verða sektirnar ákveðnar eftir 2. málsgr. laga nr. 5 frá 1924, en fyrir þau ósaknæmari eftir þessum lögum.

Frv. er komið frá nefnd, og mun það því eftir venju ekki fara til nefndar, og leyfi jeg mjer því fyrir hönd sjútvn. að mælast til þess, að málið verði látið ganga áfram.