18.02.1926
Neðri deild: 9. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg gat því miður ekki heyrt ræðu hv. aðalflm. (JörB), svo að verið getur, að eitthvað verði hjáleitt, sem jeg segi. En jeg ætla að spyrja hv. flm. um það — og bið velvirðingar, hafi hann tekið það fram — hvort það sje tilætlunin að leyfa að nota öll Coopers baðlyf. Þau eru til fjöldamörg, þar á meðal kreólínsbaðlyf, sem ekki er ósvipað því, sem við notum hjer.

Í öðru lagi vildi jeg spyrja, hvernig hv. flutningsmenn hafi hugsað sjer að samrýma þetta við 2. gr. laga frá 1924 um baðlyf, þar sem lagt er fyrir atvinnumálaráðuneytið að láta gera innlent baðlyf til allra baðana í landinu, þrifabaða og annara. Mjer skilst það vera dálítið erfitt að koma því saman að leyfa Coopers baðlyf, öll eða eitt þeirra, en halda þó uppi ákvæðum um það, að búa skuli til innanlands svo mikið af baðlyfi, að nægi til allra baðana. Jeg er hræddur um, að af því leiði talsverðan kostnað, og þótt maður vilji draga nokkuð úr framleiðslunni, þá er erfitt að segja fyrirfram, hve mikið skuli draga úr.

Jeg verð að segja, að mjer þykir það mikið mælt, þar sem stendur í greinargerðinni, að flestir sjeu á einu máli um, að það baðlyf, sem notað hefir verið síðustu árin, hafi reynst ónýtt. Mjer er kunnugt um heilar sýslur, þar sem ekki hefir bólað á neinni óánægju. Það eru fjölmargir menn á þessu landi, sem álíta þetta baðlyf mjög gott. Baðlyfið, sem notað var á síðasta hausti, mun hafa verið með bestu baðlyfjum, sem notuð hafa verið hjer. Þetta er bygt á efnarannsóknum og áliti dýralækna og annara, sem vit hafa á; jeg segi það ekki frá sjálfum sjer, því jeg viðurkenni, að jeg hefi ekki vit á því.

En þar með er ekki sagt, að Coopers baðlyfin sjeu ekki líka góð. Það er ekki ætlun mín að mæla móti þeim, sjerstaklega þó duftinu. Það er nú risin svo sterk alda um að fá að nota Coopers duftið, að jeg hygg, að erfitt verði að standa á móti henni. En ástæðan til þess, að þetta baðlyf hefir ekki verið leyft, er sú, að dýralæknar hafa jafnan lagt eindregið á móti því, að þetta baðlyf væri notað.

Jeg geri ráð fyrir, að þetta mál fari til hv. landbn. Vil jeg mælast til þess við hv. nefnd, að hún athugi frv. nákvæmlega í sambandi við lögin frá 1924. Hygg jeg, að hún komist að raun um, að erfitt sje að samrýma þetta frv. þeim lögum óbreytt.

Einnig vildi jeg mælast til við háttv. nefnd, að hún kalli fyrir sig dýralækni Reykjavíkur, til þess að minsta kosti að heyra, hvað hann hefir að segja um þessi mál. Það álít jeg ekki nema sjálfsagða kurteisisskyldu, gagnvart honum, jafnvel þótt nefndin treysti sjer ekki að fara eftir áliti hans.