10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Baldvinsson:

Það verður auðvitað að vera „stutt athugasemd“, þó að mörgu sje að svara, því jeg verð að eyða fáeinum orðum að þessum atriðum, sem jeg hefi aðallega beint til hæstv. fjrh.

Vík jeg þá fyrst að steinolíunni og ullartollinum. Því er nú endanlega slegið föstu, að hæstv. fjrh. hefir ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir sjer, þegar hann fullyrðir, að samband sje á milli þessara tveggja mála. Og er því endanlega slegið föstu, að þær ástæður, sem hann þóttist hafa fyrir þessari staðhæfing sinni, eru ekki til. Hann hefir ekkert annað fram að færa en getgátur og dylgjur. Síðasta getgátan var það sennilegasta, sem hæstv. fjrh. hefir borið fram í þessu máli, en það var hugleiðing ráðherrans um, að fyrstu mánuðina eftir að ullartollurinn kom í gildi, eða frá því í sept. 1922 og þangað til í janúar 1923, hafi íslensk ull verið í lægra tollflokki, og þess vegna hafi eitthvað skeð á þessu tímabili, sem hafi gert það að verkum, að tollurinn var hækkaður. Og sú var þá getgáta ráðherrans, að af því að einkasala var upp tekin hjer á steinolíu, þá hafi Bandaríkjastjórn felt úrskurð um að flytja íslenska ull í hærri tollflokk.

Jeg hefi nú aðra hugmynd um þetta, en jeg skal taka það fram, að það er getgáta, eins og hjá hæstv. fjrh. Hæstv. ráðherra er svo kunnugur framkvæmd tolllaga, að hann veit, að þegar ný tolllög koma í gildi, þá eru fyrstu mánuðina, og jafnvel fyrstu árin, stöðugir stjórnarúrskurðir um eitt og annað, er framkvæmdina snertir. Og svo hefir vitanlega verið um þessi ullartolllög í Bandaríkjunnm. Endurskoðendur eða eftirlitsmenn athuga, hvort fylgt er fyrirmælum laga eða hvort ríkið fær þær tekjur af tolllögum sínum, sem því ber. Við slíka athugun eða af einhverjum slíkum ástæðum kemur íslenska ullin til úrskurðar. Stjórnardeildin, sem þetta fær til úrskurðar, fer að athuga málið. „Hvar er Ísland?“ spyrja þeir. Landabrjefið sýnir, að Ísland er eyja í norðvestur af Skotlandi. „Allright!“ segir Bandaríkjamaðurinn. Eftir legu Íslands að dæma hlýtur þar að vera sama fjárkyn og á Englandi og Skotlandi. Þar með er úrskurður fallinn og íslensk ull komin í sama flokkinn og breska ullin. Og þessa tilgátu mína styður brjef það, er hv. 2. þm. Rang. (KlJ) las upp frá verslunarfjelagi í Bandaríkjunum.

Hæstv. fjrh. er að dylgja um það, að forstjóri steinolíufjelagsins danska í Danmörku muni hafa komið þessu til vegar, með því að tilkynna húsbændum sínum í Ameríku, Standard Oil Co., þessa íslensku ráðstöfun um steinolíueinkasöluna, og þá hafi stóra landið, Bandaríkin, sett bann á vöru frá landinu, sem að dómi ráðherrans hafði misgert við Standard Oil með því að gera steinolíusamninginn.

En trúir hæstv. fjrh. því, og trúir nokkur háttv. þdm. því, að Bandaríki Norður-Ameríku hafi farið að fara í tollstríð við okkur út úr steinolíusamningnum, fyrir það eitt, að Standard Oil fjekk ekki steinolíusöluna hingað, þegar þar að auki er upplýst, að steinolíufjelögum í Ameríku var gefinn kostur á að selja hingað steinolíu? Enginn getur heldur fært fram neina ástæðu fyrir þessu tollstríði, og það hefir hvergi verið borin fram ein einasta ástæða fyrir þessu sambandi steinolíueinkasölunnar og ullartollsins. En þessar umræður hafa ekki farið fram hjer að ástæðulausu, því að með þeim eru, eins og jeg hefi áður bent á, algerlega kveðnar niður dylgjur hæstv. fjrh. í þessu máli.

En jeg verð að fara fljótt yfir sögu og kem þá að öðru atriði. Hæstv. fjrh. taldi stjórnina ekki hafa neitt húsbóndavald yfir Íslandsbanka og geta því ekki fyrirskipað neitt um stjórn bankans nje ráðið því, hvaða vexti hann tekur af lánum. Hann færði fram þær varnir fyrir því, að vextir af lánum væru hærri í Íslandsbanka en í Landsbankanum, að sparisjóðsvextir hefðu líka verið lækkaðir, og af þeirri lækkun hefði Landsbankinn meiri hag en Íslandsbanki, því að sparifje væri meira hjá Landsbankanum.

Þessar ástæður eru einskis virði. Ríkið leggur Íslandsbanka til aðalfjármagnið með seðlaútgáfunni, sem bankinn hefir; landið hefir tekið lán, og það dýrt lán, og látið meginhluta þess, eða margar miljónir, í Íslandsbanka. Landið hefir veitt þessum banka margskonar hlunnindi. Og fyrir öll þessi fríðindi hefir landið áskilið sjer að skipa tvo af þremur bankastjórum bankans, og það var eingöngu gert til þess að geta ráðið aðalstefnu bankans í fjármálunum, og undir þetta heyra að mínu viti vaxtagreiðslur af lánum. Nú er undan því kvartað, að atvinnuvegirnir eigi örðugt, og þeim væri mikill ljettir að lækkun á vöxtum af lánum, því að líklega mun mest af fje bankans standa í lánum til þeirra, og þó einkum hjá sjávarútveginum. Og það er sjálfsagt ekki svo lítill munur fyrir þá, er mikið nota lánsfje, hvort þeir greiða ½% eða ekki. Nú lít jeg svo á, að þrátt fyrir yfirlýsingu hæstv. fjrh., þá hafi stjórnin þau tök á Íslandsbanka, að hún hefði getað knúið bankann til jafnmikillar lækkunar á vöxtum af útlánsfje eins og Landsbankinn hefir gert. Ákvörðun útlánsvaxta er svo stórt atriði í starfsemi bankans, að landsstjórnin hefði átt að geta fengið þjóðkjörnu bankastjórana í Íslandsbanka til þess að taka það tillit til atvinnuvega landsmanna að láta þá vaxtalækkun fram fara, er Landsbankinn taldi gerlega. Annars má benda á, að Íslandsbanki tekur hærri vexti en Landsbankinn af t. d. fasteignalánum (víxlum, sem trygðir eru með 1. veðrjetti í fasteign), og framlengingarvexti tekur Íslandsbanki hærri en Landsbankinn.

Þar sem nú Íslandsbanki tekur þannig bæði af almennum lánum og lánum, er jeg hefi nýnefnt, hærri vexti en Landsbankinn, þá leiðir af því, að Íslandsbanki græðir meira á útlánsstarfsemi sinni en þjóðbankinn. Að athuguðum svörum hæstv. fjrh. fæ jeg ekki sjeð, að Íslandsbanki hafi neinar rjettmætar ástæður fyrir því að halda uppi vöxtunum, og get ekki heldur tekið gilda þá ástæðu ráðherrans fyrir því, að stjórnin hafi ekki vald til að grípa inn í og varna þess, að bankinn haldi uppi háum vöxtum af því útlánafje, sem rennur til atvinnuveganna.

Jeg ætla ekki að fara langt út í enska lánið. Því er nú slegið föstu, að það sje ekki hægt að greiða þetta lán fyr en 1931–32 og ekki hægt eftir þann tíma nema með viðbótargreiðslu, er nemur um 3%. Og þó að hæstv. fjr1. segi sem svo að þá verði gengi okkar hagstætt, þegar greiðslur þessar fari fram, þá er það vitanlega sagt út í loftið. Hann getur ekkert um það sagt með vissu. Hins vegar vonum við, að gengið standi vel, en staðhæfingar í því efni eru spádómar og ekkert annað. En víst er um það, að vextirnir af þessu enska láni eru ákaflega háir. Og heppnari hafa Danir orðið í sínum lántökum heldur en við. Þeir hafa tekið stórt miljónalán í Ameríku, en greiða ekki nema 4½–5% í vexti. Og munar það miklu, borið saman við okkur.

Þá er það Íslandsbankagullið. Hæstv. fjrh. efaðist ekki um, að mjer skildist, að mál við bankann út af afhendingu þess mundi vinnast. Eftir lögunum frá 1922 hafði mjer skilist, að gerður væri samningur um afhendinguna, og ætti þá stjórnin ekki að taka við gullinu öðruvísi en eftir þeim samningi. Að Íslandsbanki geti eftir dúk og disk krafist þess verðs fyrir gullið, sem honum sýnist getur ekki náð neinni átt.

Þá kem jeg nú að tóbakinu og vænti, að hæstv. forseti afsaki, þótt teygist úr athugasemdinni.

Hæstv. fjrh. sagði, að það stæði fyrir minn reikning, að kostnaðurinn við álímingu tollmiða yrði á ári um 40–50 þús. kr.; en þetta var dregið út úr svari ráðherrans. Hann sagði að kostnaðurinn hjer í Reykjavík einni mundi nú orðinn um 6 þús. kr. og gerði ráð fyrir því, að hann yrði hjer yfir árið um 20 þús. kr. Af þessu dró jeg þá ályktun, að liðlega helmingur innflutningsins yrði utan Reykjavíkur og kostnaðurinn því heldur meiri en í Reykjavík, eða alls um 40–50 þús. kr. En hæstv. fjrh. játaði eiginlega, að úti um land væri ekkert eftirlit. Kaupmennirnir önnuðust þetta sjálfir; og mjer fanst ráðherrann eiginlega ekkert hafa við þetta að athuga.

En jeg sje ekki betur en að þetta sje beinlínis háskalegt, og jeg fæ heldur ekki sjeð, að með þessu móti sje nokkurt eftirlit með innflutningi tóbaks utan Reykjavíkur. Kaupmenn hafa fullar skúffur af þessum miðum, og það er engin trygging fyrir því, að þeir allir framkvæmi þetta eftirlit samviskusamlega. Við vitum þó, að misjafn er sauður í mörgu fje. Hæstv. fjrh. vildi telja þessa aðferð jafntryggilega og merkingu á tóbaksvörum landsverslunarinnar, er verksmiðjurnar höfðu með höndum. En þetta er alt annað, því að þá var landsverslunin eini innflytjandinn og auðvelt að sjá, ef aðrir fengu tóbak. Ekki var heldur hætt við, að brennimörk á vindlakössum landsverslunar yrðu notuð oftar en einu sinni, eins og auðvelt er með tollmiðana.

Þykir mjer því af framkomnum svörum hæstv. fjrh., sem þetta tolleftirlit sje tómt „humbug“ og vafalaust, að ríkissjóður stórskaðist á þessu tolleftirlitsleysi. Annars skildist mjer, að hæstv. fjrh. væri að hæla sjer af því að hafa látið tilleiðast að svara þessum fyrirspurnum mínum nú við 3. umr. Þetta finst mjer ekkert þakkarvert, enda algengt, að við 2. og 3. umr. fjárlaganna sje komið inn á ýms atriði, sem snerta fjárhag landsins. Og svo langt ætti hann að muna, að hann sjálfur skapaði fordæmi í þessu efni um það leyti, sem hann varð ráðherra. En við framh. 1. umr. fjárlagafrv. hafði jeg í ýmsu að snúast, svo mjer vanst ekki tími til að bera þá fram þessar spurningar, en áskildi mjer rjett til þess að gera það síðar, og það hefi jeg nú gert.

Hæstv. fjrh. sagði eitthvað á þá leið, — og varð þá skáldlegur, sem hann annars á ekki vanda til — að jeg hefði setið eins og rjóð og feimin yngismey á eldhúsdaginn. Líkingin er ekkert ljót. Nú er verið að tala um það í bænum, að stjórnarskifti sjeu fyrir dyrum, og meira að segja sagði mjer þetta í dag einn íhaldsþingmaðurinn. En fyrst hæstv. fjrh. notaði þessa fögru líkingu, hefir hann að líkindum vitað um einhvern, sem gengur í biðilsbuxunum um þessar mundir. Og hafa það þá sennilega verið hæstv. íhaldsráðherrarnir, sem hafa verið orðnir hræddir um sig, en jeg neita því afdráttarlaust, að um nokkurt minsta tilhugalíf sje að ræða á milli mín og þeirra. (TrÞ: En gengismálið?).

Þá á jeg eftir svolítil orðaskifti við hæstv. atvrh. (MG). Hann var vondur og illorður í minn garð út af því, sem jeg hafði sagt um útvarpið. Mjer kemur helst í hug, að hann hafi slæma samvisku í þessu máli og því hafi hann ekki stilt orðum sínum betur í hóf. Jeg verð að mótmæla öllum aðdróttunum hans í minn garð og stóð því upp meðfram til þess að bera af mjer sakir.

Sú reglugerð, sem hæstv. atvrh. hefir staðfest um stofnkostnaðinn til h/f Útvarps, hefir enga stoð í lögum. Það er hvergi talað um slíkt gjald, þar sem annars er á það minst í 4. gr. laganna. Og þótt skatturinn á tækjum í 4. gr. sje ekki samanlagður eins mikill og stofngjaldið, þá getur farið svo, að þeir greiði ekki stofngjaldið einu sinni, heldur oft og mörgum sinnum, eða í hvert sinn og tæki er endurnýjað.

Það er misskilningur hjá hæstv. atvrh., að jeg vilji á nokkurn hátt bregða fæti fyrir starfsemi h/f Útvarps nje rýra álit þess. Jeg hefi vakið máls á þessu vegna þess, að jeg vil fjelaginu vel og vænti, að það færi starfsemi sína í viðunandi horf, því eins og hún er rekin nú leikur ekki á tveim tungum, að margir eru á móti því. Þess vegna vona jeg, að fjelaginu verði þessar aðfinningar mínar fremur til góðs en tjóns.

Hins vegar getur hæstv. atvrh. ekki tekið mjer þetta illa upp, þegar þær reglugerðir, sem hann gefur út, hafa ekki stoð í lögum og fara þarf krókaleiðir til þess að reyna að finna ástæður fyrir reglugerðinni, þannig, að hún sje í samræmi við lögin.

En þetta átti að vera stutt athugasemd, og því eru mjer allar bjargir bannaðar til þess að bera lengur hönd fyrir höfuð mjer, og verður því þetta svar mitt að nægja um sinn.